Friðrik Jónsson (1915-97)

Friðrik Jónsson

Friðrik Jónsson frá Halldórsstöðum var kunnur harmonikkuleikari og lagahöfundur sem samdi nokkur lög sem allflestir þekkja, hann gegndi stöðu organista í fjölmörgum kirkjum samfellt í hartnær fimmtíu ár.

Friðrik Jónsson (f. 1915) var fæddur og uppalinn á Halldórsstöðum í Reykjadal í Suður-Þingeyjasýslu og bjó þar raunar lungann úr ævinni, hann flutti inn til Húsavíkur árið 1970 og bjó þar til æviloka haustið 1997.

Friðrik var bóndi lengst af ævi sinnar en sinnti tónlistinni í hjáverkum, hann kenndi söng við Héraðsskólann á Laugum í Reykjadal og barnaskólana í Reykjadal og Aðaldal, og stjórnaði þar kórum en einnig var hann organisti í fjölmörgum kirkjum í Suður-Þingeyjasýslu, fyrst við Þverárkirkju í Laxárdal en svo bættust fleiri kirkjur við, Neskirkja, Grenjaðarstaðarkirkja, Einarstaðakirkja, Ljósavatnskirkja og Lundabrekkukirkja, þá var hann einnig um tíma organisti í Húsavíkurkirkju og Þóroddsstaðakirkju. Alls var hann organisti í fjörutíu og átta ár samfellt við ofangreindar kirkjur en hætti um áttrætt, hann hafði lært á orgel hjá föður sínum (sem var organisti og söngstjóri í sveitinni) í barnæsku og farið aukinheldur tvívegis til Reykjavíkur þar sem hann nam hjá Páli Ísólfssyni.

Friðrik var kunnur harmonikkuleikari og lék á fjölmörgum dansleikjum á sínum tíma einn síns liðs og í samspili með öðrum, víða um norðaustanvert landið – hann kom t.d. stundum fram með skólahljómsveit héraðsskólans, Foxes í lok sjöunda áratugarins. Hann var virkur félagi í Harmonikufélagi Þingeyinga um árabil og var þar gerður að heiðursfélaga.

Það sem halda mun þó nafni Friðriks Jónssonar á lofti um ókomna tíð eru lagasmíðar hans sem sumar eru landskunnar, lög eins og Við gengum tvö og Rósin eru auðvitað hans þekktustu lagasmíðar og hafa komið ótal sinnum út á plötum en einnig má nefna lög eins og Gömul spor, sem nokkrir kórar hafa gefið út á plötum, Dalakofinn, Hvíslað út í nóttina, Fölnuð er liljan og Svanahjónin. Sönglagaheftið Við gengum tvö kom út árið 1995 en í því er að finna nítján lög eftir Friðrik en hann gaf heftið út sjálfur