Friðrik XII (1992-93)

Hljómsveitin Friðrik XII

Hljómsveitin Friðrik XII var stórsveit sem lék bæði rokk og djass og starfandi árin1992 og 93, sveitin kom fram í fjölmörg skipti þann tíma, m.a. á Gauki á Stöng og þess konar samkomustöðum.

Friðrik XII (Friðrik tólfti) var stofnuð sumarið 1992 en kom ekki fram opinberlega fyrr en í ársbyrjun 1993 og þá undir nafninu Brassbandið, eftir það var nafni hennar breytt og gekk hún eftir það undir nafninu Friðrik XII en það vísaði til þess að elsti meðlimur sveitarinnar var Friðrik Theodórsson söngvari og básúnuleikari og meðlimir hennar voru tólf talsins, á aldrinum átján og upp í sextíu ára.

Fyrir utan áðurnefndan Friðrik voru í sveitinni Ingólfur Haraldsson söngvari, Elsa Lyng Magnúsdóttir söngkona, Tómas Eggertsson píanóleikari, Pétur Pétursson gítarleikari, Ástþór Hlöðversson bassaleikari, Hreiðar Júlíusson trommuleikari, Hallvarður Logason básúnuleikari, Haukur Gröndal alto saxófónleikari, Þorsteinn Pétursson tenór saxófónleikari og Gunnar Björn Bjarnason trompetleikari en nafn eins blásara í viðbót vantar í þessa upptalningu, þær upplýsingar má einhver fróður gjarnan senda Glatkistunni.