Stefán Þorleifsson [1] (1911-2001)

Stefán Þorleifsson

Tónlistarmaðurinn og leigubílstjórinn Stefán Þorleifsson lék með ýmsum hljómsveitum á ferli sínum og starfrækti m.a. um langt árabil sveit í eigin nafni, þá samdi hann einnig tónlist og ljóð/texta.

Stefán Þorleifsson fæddist haustið 1911 en afar fáar upplýsingar er að finna um uppruna hans og æskuár, líklegt er þó að hann hafi verið fæddur og uppalinn austur á fjörðum, e.t.v. á Fáskrúðsfirði eða þar í kring. Elstu heimildir um hann eru frá Siglufirði þar sem hann dvaldist um nokkurra ára skeið á síldarárunum og starfaði þá m.a. við hljóðfæraslátt en hann mun hafa komið fyrst fram opinberlega um tvítugt – ekki liggur þó fyrir hvort það var á Siglufirði eða annars staðar. Fyrir norðan lék hann með Hljómsveit Óskars Cortes og fleiri sveitum, og e.t.v. einnig einn síns liðs á harmonikku en hann mun hafa lært bæði á klarinettu og saxófón auk nikkunnar sem hann mun hafa lært á í gegnum norskan bréfaskóla, síðar lék hann heilmikið á hljómborð.

Stefán fluttist suður líklega í kringum 1940 og settist þá að ásamt eiginkonu sinni í Hafnarfirði og bjó þar næsta áratuginn og setti svip á tónlistarlífið í bænum, hann mun t.d. hafa leikið á harmonikku á Hótel Birninum og með hljómsveit Jónatans Ólafssonar en þeir Jónatan ráku Góðtemplarahúsið (Gúttó) í Hafnarfirði um skeið þar sem sveitin lék fyrir dansi. Á þessum árum lék hann einnig með hljómsveit Baldurs Kristjánssonar og Kátum piltum sem var vinsæl hljómsveit og fór víða um land til að leika á dansleikjum, þá var hann einn þeirra sem áttu þátt í að endurvekja Lúðrasveit Hafnarfjarðar árið 1950.

Laust fyrir 1950 flutti Stefán með fjölskyldu sína í Kópavoginn þar sem hann átti eftir að búa eftirleiðis, hans aðalstarf var leigubílaakstur sem hann stundaði í áratugi en var við spilamennsku samhliða því. Þannig starfrækti hann hljómsveitir lengi vel (með hléum) í eigin nafni fram undir 1970, m.a. í Tjarnarkaffi, Silfurtunglinu og Þórscafé þar sem hann lék ýmist á saxófón og klarinettu og sjálfsagt einnig harmonikku en hún var þá nokkuð á útleið í danshljómsveitum, Stefán mun einnig eitthvað hafa sungið með hljómsveit sinni. Hann lék einnig með öðrum hljómsveitum á næstu áratugum samhliða eigin sveitum, m.a. með Flamingo kvintettnum í Vetrargarðinum og svo með SMS tríóinu á fyrri hluta áttunda áratugarins en hann starfaði sem tónlistarmaður fram undir miðjan níunda áratuginn. Eftir það kom Stefán stöku sinnum fram sem gestur á djasstengdum uppákomum.

Stefán samdi tónlist og texta en litlar upplýsingar liggja fyrir um tónskáldaferil hans, t.a.m. finnast upplýsingar um aðeins eitt útgefið lag og texta eftir hann en það var á plötunni Hafnarfjörður í tónum, sem kom út 1997. Sá listi hlýtur þó að vera mun lengri.

Stefán Þorleifsson lést sumarið 2001, rétt tæplega níræður að aldri.