Friðrik Guðni Þórleifsson (1944-92)

Friðrik Guðni – teikning úr skólablaði MA

Nafn Friðriks Guðna Þórleifssonar kemur víða við í íslenskri tónlist, hann ásamt eiginkonu sinni Sigríði Sigurðardóttur reif upp tónlistarlífið í Rangárvallasýslu með aðkomu sinni að Tónlistarskóla Rangæinga, orti fjölda texta og ljóða sem sum hver lifa enn ágætu lífi, og kom sjálfur að tónlistarflutningi með margvíslegum hætti. Friðrik Guðni varð ekki langlífur en hann lést eftir veikindi aðeins fjörutíu og átta ára gamall.

Friðrik Guðni Þórleifsson fæddist á Ísafirði sumarið 1944 og bjó þar fyrstu ellefu ár ævi sinnar en þá fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Akraness þar sem hann bjó uns hann fór til náms við Menntaskólann á Akureyri þar sem hann lauk stúdentsprófi 1964.

Á Akureyri var hann hrókur alls fagnaðar í félagslífi stúdenta, var ritstjóri skólablaðsins Munins, átti þátt í að stofna djassklúbb innan skólans og varð áberandi ljóðskáld innan hans. Þar í bæ mætti einnig segja að tónlistarferill hans hafi hafist því hann stofnaði hljómsveitina Busabandið innan skólans ásamt Arnmundi Backman félaga sínum frá Akranesi, reyndar höfðu þeir verið meðal stofnenda hljómsveitarinnar Dúmbó vorið 1960 heima á Akranesi en sú vera varð stutt vegna norðanferðar þeirra um haustið – Dúmbó gekk hins vegar í gegnum miklar mannabreytingar og varð síðar að Dúmbó sextett eða Dúmbó og Steini. Busabandið varð töluvert þekkt norðan heiða, lék einnig nokkuð utan skóla og gekk þá undir nafninu BB sextett en líklega er sveitin þekktust fyrir að innihalda stórsöngvarana Þorvald Halldórsson og Vilhjálm Vilhjálmsson – ekki þó samtímis.

Að loknu stúdentsprófi fór Friðrik Guðni í kennaranám og nam svo bókasafns- og sagnfræði við HÍ en lokaritgerðir hans voru tengdar tónlist, annars vegar um tónlistardeildir í almenningsbókasöfnum og hins vegar um uppruna og útbreiðslu langspilsins. Á háskólaárum sínum stofnaði hann ásamt Arnmundi æskufélaga sínum söngtríóið Þrjá háa tóna en það tríó skemmti víða með söng sínum og gaf svo út fjögurra laga plötu árið 1967, þar samdi hann þrjá textana og meðal þeirra var lagið Siglum áfram (Freight train).

Friðrik Guðni sem þá hafði kynnst eiginkonu sinni Sigríði Sigurðardóttur, setti árið 1970 saman sönghóp ásamt henni sem síðar hlaut nafnið Eddukórinn en þessi átta manna kór vakti hvarvetna athygli fyrir útsetningar sínar á íslenskum þjóðlögum en nokkur þjóðlaga- og trúbadoravakning hafði þá staðið yfir hérlendis. Eddukórinn gaf út tvær hljómplötur á fyrri hluta áttunda áratugarins þar sem Friðrik Guðni stjórnaði söng kórsins og útsetti, hann orti aukinheldur flesta textana á annarri plötunni, Jól yfir borg og bæ (sem síðar var endurútgefin undir titlinum Bráðum koma jólin) og þar nutu mikilla vinsælda Bráðum koma jólin (Skín í rauðar skotthúfur) og Á jólunum er gleði og gaman, sem hann samdi báða textana við.

Friðrik Guðni Þórleifsson

Friðrik Guðni hafði farið utan til Vestur-Þýskalands til framhaldsnáms í tónlist, hann hafði lært hér heima á píanó og túbu en nam kórstjórnun, útsetningar og píanóleik í Hannover, og starfaði svo um tíma hjá Borgarbókasafninu í Reykjavík áður en hann flutti austur á Hvolsvöll ásamt Sigríði árið 1973 til að taka við tónlistarskólanum þar en hann hafði þá legið niðri um tíma, Sigríður átti einmitt rætur að rekja austur.

Á Hvolsvelli bjuggu þau hjónin og störfuðu í fjórtán ár og unnu þar heilmikið þrekvirki, fyrir utan að rífa upp tónlistarskólastarfið með metnaðarfullum hætti þar sem Sigríður var skólastjóri en Friðrik Guðni kennari, stofnuðu þau nokkra kóra og hljómsveitir sem áttu eftir að láta að sér kveða. Friðrik Guðni kenndi einnig við barna- og gagnfræðiskólann á Hvolsvelli og fyrst var þar stofnaður Barnakór Hvolsskóla sem varð eins konar undanfari Barnakór Tónlistarskóla Rangæinga en sá kór söng víða um land (og fór einnig til Noregs) og gaf m.a.s. út plötu, Sigríður var þar stjórnandi en Friðrik Guðni undirleikari. Einnig settu þau á fót og stjórnuðu kammer- og lúðrasveitum innan tónlistarskólans. Utan tónlistarskólans áttu þau þátt í stofnun Samkórs Rangæinga sem þau stjórnuðu í fyrstu saman en síðan tók Friðrik Guðni við, en sá kór starfaði í nokkur ár og fór víða um land með tónleikahaldi. Friðrik Guðni mun hafa kennt á alls sjö hljóðfæri við skólann, píanó, orgel, bassa, trommur, saxófón, blokkflautu og klarinettu, sem sýnir fjölhæfni hans en sjálfur lék hann á fleiri hljóðfæri. Starf þeirra hjóna einskorðaðist ekki eingöngu við tónlistarskólann því þau voru einnig áberandi á tónlistartengdum uppákomum eins og héraðsvökum og Rangæingavökum svo dæmi séu nefnd. Þá var Friðrik Guðni um tíma forstöðumaður Héraðsbókasafns Rangæinga og gegndi jafnframt ýmsum störfum fyrir Rauða kross-deild þeirra Rangæinga.

Þau Friðrik Guðni og Sigríður fluttu til Reykjavíkur árið 1987 en voru reyndar áfram með sumarbúsetu fyrir austan þar sem þá áttu hús, hann hafði reyndar verið eitthvað með annan fótinn á höfuðborgarsvæðinu, hafði m.a. verið að kenna við kórskóla Pólýfónkórsins og starfað fyrir tónlistardeild Borgarbókasafnsins í Gerðubergi (sem hann mun hafa komið á fót) en alkominn í bæinn fór hann að kenna við Ölduselsskóla en var einnig undirleikari Barnakórs Foldaskóla sem Sigríður stjórnaði, þá var hann um tíma stjórnandi Selkórsins auk annarra tilfallandi verkefna.

Sigríður, Þöll og Friðrik Guðni

Friðrik Guðni greindist með heilaæxli í ársbyrjun 1990 en hann hafði þá um tíma verið að missa sjónina smám saman, aðgerð var gerð á honum en hún dugði þó ekki til að hann héldi sjóninni og var hann orðinn alveg blindur fljótlega. Hann lét þetta þó lítið stöðva sig, hélt áfram kennslu og fékk til þess hjálpartæki og aðstoðarmann, og var einnig þó nokkuð í að skemmta með söng og hljóðfæraleik ásamt Hjálmfríði Þöll dóttur þeirra Sigríðar. Þau feðgin fóru víða um land og skemmtu með söngdagskrá þar sem hún söng en hann lék undir á píanó, m.a. á Listahátíð í Reykjavík. Þau störfuðu einnig um skamman tíma með danshljómsveit í Rangárþingi en ekki liggja fyrir upplýsingar um nafn þeirrar sveitar. Friðrik Guðni lést svo af veikindum sínum sumarið 1992 en hann var þá einungis fjörutíu og átta ára gamall.

Þó svo að grettistak þeirra hjóna Friðriks Guðna og Sigríðar í tónlistarmálum Rangæinga rísi líklega hæst eru það þó líklega textar hans, ljóð og ljóðaþýðingar sem munu lifa lengst, áður eru nefndir textar við jólalögin Á jólunum er gleði og gaman og Bráðum koma jólin (Skín í rauðar skotthúfur) en fjöldi annarra texta liggur eftir hann útgefnir á plötum s.s. Eftir barn, Grenitré, Einn hljómlistarmaður, Gimbillinn mælti (og fjöldi annarra dýravísna) og Á bak við heiðar en hann samdi einnig lög sem einhver hafa komið út á plötum. Þá má nefna að hann sendi frá sér fimm ljóðabækur, textahefti með nótum og jólatextahefti, einnig hafði hann unnið texta við óperu Jóns Ásgeirssonar upp úr Möttuls sögu og ýmislegt fleira. Nafn hans kemur t.d. alloft við sögu í minningagreinum, en þar birtast fjölmörg ljóð hans sem þykja eiga vel við við þau tilefni. Meðal annarra tónlistartengdra verkefna má svo nefna dagskrárgerð en Friðrik Guðni starfaði þó nokkuð í útvarpi um ævi sína.

Árið 2007 var haldin sýning í Njálusetrinu á Hvolsvelli til minningar um þau hjón, Friðrik Guðna Þórleifsson og Sigríði Sigurðardóttur, og það starf sem þau lögðu tónlistar- og menningarlífinu lið í héraðinu. Þar voru m.a. til sýnis bækur úr bókasafni hans, sem Þöll dóttir þeirra hafði gefið héraðsbókasafninu á staðnum eftir andlát þeirra en Sigríður lést 1996, aðeins fimmtíu og eins árs gömul.