Friðrik Þór Friðriksson (1954-)

Friðrik Þór Friðriksson

Kvikmyndaleikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson er auðvitað flestum kunnur fyrir aðkomu sína að íslenskri kvikmyndagerð en hann hefur gert kvikmyndir frá því á menntaskólaárum sínum, og kemur tónlist heldur betur við sögu í mörgum þeirra.

Friðrik Þór er Reykvíkingur, fæddur 1956. Hann mun um miðjan sjöunda áratuginn (þá um tíu ára aldur) hafa verið í hljómsveit í Vogaskóla sem bar nafnið Fónar en með honum í sveitinni voru síðar þekktir tónlistarmenn, annað liggur ekki fyrir um tónlistarferil hans.

Það voru hins vegar kvikmyndirnar sem tóku yfir þegar á menntaskólaárum Friðriks Þór, og fyrsta tónlistartengda kvikmynd hans er heimildarmyndin Rokk í Reykjavík (1982) sem inniheldur þverskurðinn af pönk- og nýbylgjusenu þeirri sem þá hafði breytt landslaginu í íslensku tónlistarlífi. Tvöföld plata með tónlist úr myndinni kom út og bæði hún og myndin hafa þótt ramma þetta tónlistartímabil prýðilega inn og vera ágætur vitnisburður um þá grósku sem þá var í gangi.

Á næstu árum og áratugum komu nokkrar kvikmyndir frá Friðriki Þór og sumar þeirra tónlistartengdar, hann gerði t.d. myndina Kúrekar norðursins sem fjallar um Hallbjörn Hjartarson og kántríhátíð hans á Skagaströnd, plata kom út tengt því verkefni sem og við fjölda annarra kvikmynda hans þótt þær fjölluðu ekki beinlínis um tónlist. Tónlist skipar þó veglegan sess í Bíódögum (1994) og Djöflaeyjunni (1996) en plötur hafa jafnframt komið út í tengslum við myndir eins og Skytturnar (1987), Börn náttúrunnar (1991), Englar alheimsins (2000), Fálkar (2001) og Niceland (2004) svo dæmi séu nefnd.