Haukur og Kalli (1947-69)

Haukur og Kalli 1962

Tvíeykið Haukur og Kalli voru harmonikkuleikarar á Akureyri sem léka víða um norðanvert landið á dansleikjum frá því á fimmta áratugnum og fram á þann sjöunda en þá viku þeir fyrir yngri kynslóðum tónlistarmanna í kjölfar breytts tíðaranda.

Haukur Ingimarsson og Karl Steingrímsson hófu að starfa saman árið 1947 undir heitinu Haukur og Kalli en þeir voru þá einungsi nítján ára gamlir, reyndar segir í einni heimild að þeir félagar hafi leikið á dansleik sumarið 1944 í Vaglaskógi en það á líklega ekki við rök að styðjast. Haukur og Kalli léku mestmegnis á dansleikjum í Eyjafirðinum, t.a.m. í félagsheimilum á Svalbarðsströnd, í Öngulstaðahreppi og Glæsibæjarhreppi, Hrafnagili og víðar, en einnig í Vaglaskógi og jafnvel vestur í Miðfirði – þar lentu þeir í að bíll þeirra var grýttur af óánægðum dansleikjagestum eftir að sýslumaður hafði stöðvað dansleikinn.

Haukur og Kalli léku nokkuð samfleytt allt til ársins 1969 en mun minna fór fyrir tvíeykinu eftir 1962, þeir félagar starfræktu þá einnig um tíma hljómsveit sem gekk undir nafninu Hljómsveit Hauks og Kalla / Sextett Hauks og Kalla sem m.a. lék um tíma á Hótel KEA á Akureyri. Mest var að gera hjá þeim á árunum 1953 til 56 og á tímabili voru þeir afar vinsælir og léku t.a.m. í hverri viku um margra mánaða skeið árið 1955. Á þeim tíma var algengt að ungmennafélögin í Eyjafirðinum stæðu fyrir íþróttamótum, leiksýningum eða öðrum skemmtunum með dansi á eftir, þeir urðu jafnvel það frægir að leika í harmonikkuþætti í Útvarpinu en það þótti mikil upphefð að því.

Þeir Haukur og Kalli virðast ekki hafa leikið hvor um sig einir á dansleikjum eða með öðrum hljómsveitum en þeir voru síðar báðir virkir í Félagi harmonikuunnenda við Eyjafjörð sem var stofnuða árið 1980.