
Haukur Þórðarson
Tenórsöngvarinn Guðmundur Haukur Þórðarson hefur sungið með karlakórum í Keflavík og Hafnarfirði í áratugi en hann hefur aukinheldur sent frá sér plötu með söng sínum.
(Guðmundur) Haukur Þórðarson (f. 1930) kemur upphaflega úr Dölunum og hefur alltaf haft taugar þangað en hefur verið búsettur í Keflavík frá fimm ára aldri, starfsvettvangur hans lungann úr ævinni var sendibílstjórakeyrsla.
Haukur mun hafa sungið fyrst opinberlega tólf ára gamall en hann hefur alla tíð verið virkur í kórastarfi, vann var t.a.m. einn stofnenda Karlakórs Keflavíkur árið 1953 og söng með kórnum í áratugi, þá var hann í stjórn kórsins og formaður einnig um tíma. Haukur söng margsinnis einsöng með kórnum á tónleikum og einnig á tveimur plötum sem hann sendi frá sér 1981 og 1996, Áður hafði hann einnig sungið ein- og tvísöng á tveimur plötum Karlakórsins Þrasta í Hafnarfirði (1975 og 1978) sem hann söng einnig með um árabil. Söng lærði Haukur fyrst hjá Maríu Markan (sem bjó þá í Keflavík) og Stefáni Íslandi en síðar hjá Sigurði Demetz.
Þótt Haukur hafi sungið einsöng á nokkrum kóraplötum á áttunda, níunda og tíunda áratugnum voru fyrstu kynni hans af plötuupptökum árið 1968 en þá var hann einn af þeim sem skipuðu Keflavíkurkvartettinn (sem fyrsti tenór) sem sendi frá sér fjögurra laga plötu, Keflavíkurkvartettinn starfaði í um áratug á árunum 1963-73. Einnig er söng Hauks að finna á fimm laga plötu sem Guðjón Matthíassonar og hljómsveit sendu frá sér 1970 en á henni sungu þeir Haukur og Sverrir Guðjónsson (sonur Guðjóns Matthíassonar) við undirleik sveitarinnar. Haukur söng að því er virðist aldrei með sveitinni á dansleikjum en hann hafði á yngri árum eitthvað lítillega sungið með hljómsveitum.
Það var svo á áttatíu og fimm ára afmæli sínu árið 2015 sem Haukur réðist í það verkefni að gefa út plötu með söng sínum en það er platan Ég lít í anda liðna tíð, á henni er að finna upptökur frá árunum 1967-2012 og meðal annars af þeim plötum sem hann hafði sungið inn á áður. Haukur lét sig ekki muna um að taka lagið á tónleikum sem haldnir voru af sama tilefni. Því miður eru upplýsingar um þessa plötu af skornum skammti og er því óskað eftir frekari upplýsingum um efni hennar og flytjendur.