Hljómsveit Björns R. Einarssonar (1945-64)

Upphafleg útgáfa sveitarinnar

Hljómsveit Björns R. Einarssonar á sér langa og merkilega sögu, varla er hægt að tala um hana sem eina hljómsveit þar sem mannabreytingar voru miklar í henni alla tíð auk þess sem fjöldi meðlima var mjög misjafn, allt frá því að vera kvartett og upp í þrettán manns. Töluvert er til varðveitt af upptökum með tónlist sveitarinnar og nokkur lög með henni hafa komið út á plötum.

Fyrsta hljómsveit Björns R. Einarssonar var sett á laggirnar síðsumars 1945 en hún var þá ráðin til að leika í Listamannaskálanum um veturinn, Björn var þá einungis 22 ára gamall. Þessi fyrsta útgáfa sveitarinnar var skipuð Birni sem lék á básúnu, Haraldi Guðmundssyni trompetleikara, Gunnari Egilson klarinettuleikara, Axeli Kristjánssyni gítarleikari, Árna Ísleifssyni píanóleikara og Guðmundi R. Einarssyni trommuleikara bróður Björns en hann átti eftir að starfa hvað lengst með sveitinni. Hljómsveitin vakti strax athygli en hún lék svokallaða dixieland tónlist og telst vera fyrsta sinnar tegundar hérlendis, þar fyrir utan lék sveitin einnig „hefðbundnari“ danstónlist þess tíma. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hverjir utanaðkomandi söngvarar sungu með sveitinni fyrst um sinn en klárt er að Björn söng sjálfur í henni, 1946 sungu hins vegar félagarnir Alfreð Clausen og Haukur Morthens eitthvað með sveitinni en Haukur var þá að stíga sín fyrstu spor sem söngvari. Sveitin lék áfram í Listamannaskálanum en einnig í Breiðfirðingabúð og lék einnig á dansleikjum fyrir utan Reykjavík – þ.e.a.s. í Rauðhólum en þar var dansað í Rauðhólaskálanum svokallaða, um sumarið fór sveitin einnig eitthvað lengra út á landsbyggðina ásamt hljómsveit Bjarna Böðvarssonar.

Ekki liggja fyrir allar upplýsingar um mannabreytingar í hljómsveit Björns en árið 1947 hætti Árni Ísleifs píanóleikari í henni til að stofna nýja sveit, Carl Billich tók sæti hans en hann var þá nýverið kominn til landsins – hann staldraði reyndar stutt við og tók Árni Björnsson við um tíma áður en Kristján Magnússon kom inn í hana þannig að fjölmargir píanóleikarar störfuðu með sveitinni á stuttum tíma. Fleiri breytingar urðu á henni þetta ár því Sveinn Ólafsson saxófónleikari var þá kominn í hana, þá voru Haraldur trompetleikari og Gunnar klarinettuleikari hættir en aðrir meðlimir voru áfram Axel, Guðmundur og Björn. Gunnar sem þarna var farinn í nám til Bandaríkjanna átti þó eftir að starfa með sveitinni þegar hann var á landinu.

Hljómsveit Björns R. Einarssonar um 1950

Sveitin naut þarna orðið töluvert mikilla vinsælda og oft var útvarpað frá dansleikjum hennar en á þeim tíma lék hún mest í Breiðfirðingabúð, fjölmargir söngvarar komu við sögu Björns og félaga og voru jafnvel allt að fjórir söngvarar með henni í senn, Sigrún Jónsdóttir söng t.d. töluvert með sveitinni. Vorið 1947 var hljómsveitin kjörin besta djasshljómsveit Íslands af tímaritinu Jazz og aukinheldur voru Björn, Axel og Sveinn kjörnir bestu hljóðfæraleikararnir í sínum flokki. Rétt fyrir áramótin 1947-48 hætti Kristján píanóleikari og tók Árni Elfar við af honum.

Um það leyti lék sveitin inn á nokkrar lakkplötur hjá Ríkisútvarpinu og voru þær nokkuð spilaðar í útvarpinu, þær teljast vera elstu upptökur sem til eru með íslenskri djasstónlist en þess má geta að sveitin gekk undir ýmsum nöfnum meðan hún starfaði s.s. Danshljómsveit Björns R. Einarsson, Dixielandhljómsveit Björns R. Einarssonar og jafnvel Dixielandhljómsveit Íslands.

Árið 1948 kom upp leiðindamál varðandi hljómsveit Björns og Björn sjálfan en Tage Ammendrup hafði tekið upp tvö lög með sveitinni í Radíóstofunni við Óðinsgötu og stóð Björn í þeirri meiningu að um prufuupptökur væru að ræða, um haustið kom hins vegar út plata á vegum útgáfufyrirtækis Tages, Íslenskra tóna sem hafði að geyma upptökurnar og var Björn ekki sáttur við það enda hafði hann sjálfur ekki verið ánægður með þær. Hann fékk lögbann sett á plöturnar nokkru eftir að þær voru farnar í sölu en megnið af upplaginu hafði þá verið selt. Platan er sjaldséður safngripur í dag en þykir ekki síður merkileg fyrir að vera fyrsta platan sem gefin var út á Íslandi með danstónlist.

Þetta sama ár naut sveitin áfram sömu vinsælda, lék mest í Breiðfirðingabúð en einnig í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll, Tívolíinu í Vatnsmýrinni og Hótel Borg og kom auk þess fram á stórum tónleikum í Austurbæjarbíói, þá lék sveitin einnig úti á landi um sumarið, svo næg voru verkefnin.

Hljómsveit Björns R. Einarssonar

Vorið 1949 voru í sveitinni þeir Björn, Guðmundur, Árni, Axel og Gunnar Ormslev saxófónleikari sem þá var tiltölulega nýkominn frá Danmörku þar sem hann hafði búið frá fæðingu, hann hætti fljótlega þar sem hann var ekki kominn með atvinnuleyfi. Um sumarið kom svo gítarleikarinn Ólafur Gaukur Þórhallsson inn í hljómsveitina og þá færði Axel sig yfir á kontrabassa svo hún var sextett um tíma. Sveitin var þá sterk sönglega séð því Björn, Gunnar og Ólafur gátu allir sungið og jafnvel þríraddað, og ýmsir aðrir söngvarar komu fram með henni um þetta leyti, má þar m.a. nefna Hauk Morthens, Sigrúnu Jónsdóttur, Jóhönnu Daníelsdóttur, Eddu Skagfield og jafnvel Jón Múla Árnason en þeir félagar komu töluvert fram á æskulýðshátíðum sem haldnar voru víðs vegar um landið um sumarið s.s. í Vestmannaeyjum, Akureyri og Neskaupstað, þó aðallega í Breiðfirðingabúð. Á dansleikjum sveitarinnar þurfti að bjóða upp á fjölbreytilega tónlist og t.a.m. gömlu dansana en Björn lék sjálfur á harmonikku í þeim lögum. Þeir félagar fengu svo almennilega útrás fyrir djassáhugann á jam sessionum sem haldin voru reglulega á höfuðborgarsvæðinu.

Um haustið hafði aftur fækkað í sveitinni, þá var hún orðin að kvartett en Gunnar og Ólafur voru horfnir á braut. Þarna í kringum 1950 hafði hljómsveit Björns leikið inn á um sextíu lakkplötur hjá Ríkisútvarpinu og heyrðist því leikin reglulega þar þótt þeir félagar væru ekki að leika í beinni útsendingu sem gerðist þó einnig reglulega.

Árið 1950 fjölgaði aftur í Hljómsveit Björns R. Einarssonar og þegar hún fór í stóra tónleika- og dansleikjatúr um landsbyggðina um sumarið var sveitin orðin sjö manna, Björn, Guðmundur, Árni og Gunnar Ormslev (aftur) og svo höfðu Guðmundur Finnbjörnsson fiðlu- og saxófónleikari, Vilhjálmur Guðjónsson saxófón- og klarinettuleikari og Jón Sigurðsson trompetleikari bæst í hópinn. Um það leyti var starfrækt lítið tríó innan hljómsveitarinnar sem var eins konar „pásuband“ hennar og gekk undir nafninu GÁG tríóið (Gunnar Ormslev, Árni Elfar og Guðmundur R.). Sveitin mun jafnvel hafa verið átta manna um tíma því Magnús Pétursson píanóleikari var líka í henni um hríð. Þessi hópur fór um sumarið ásamt Hauki Morthens söngvara og Pétri Guðjónssyni rakara um norðanvert landið en Pétur var þá að stíga sín fyrstu spor í umboðsmennsku hljómsveita, sveitin lék m.a. á Akureyri, Sauðárkróki, Skagaströnd og Dalvík og reyndar hafði einnig staðið til að leika á austanverðu landinu en þeir urðu að hverfa frá því það snjóaði á því svæði þarna um sumarið, þeir frestuðu Austfjörðunum því fram í ágúst en fóru þá í hálfs mánaðar ferð m.a. til Vopnafjarðar, Egilsstaða, Seyðisfjarðar og Norðfjarðar. Annars lék sveitin töluvert á Hótel Borg um sumarið og um haustið lék hún eins og svo oft á stórum tónleikum ásamt fleiri sveitum í Austurbæjarbíói.

Hljómsveit Björns 1954

Skipan hljómsveitarinnar var margbreytileg næstu árin og stundum voru jafnvel tvær útgáfur til af henni samtímis, þannig var hún t.d. skipuð sex manns þegar hún lék í Breiðfirðingabúð veturinn 1950-51 og voru þá án Guðmundar Finnbjörnssonar og Vilhjálms Guðjónsson en þegar sveitin lék í Útvarpinu (einu sinni í viku), Á Borginni eða úti á landsbyggðinni var hún fullskipuð (átta manna). Þannig var hún t.d. þegar hún fór til Vestfjarða með strandferðaskipinu Esju um sumarið 1951 þar sem hún lék á Ísafirði, Bolungarvík, Suðureyri, Flateyri og víðar, og svo í tuttugu og fimma daga ferð síðsumars um norðan- og austanvert landið þar sem hún lék á tuttugu dansleikjum og þrennum tónleikum. Tónleikar þeirra félaga á Ísafirði voru fyrstu djasstónleikarnir sem haldnir hafa verið á Vestfjörðum. Sveitin var þá skipuð þeim bræðrum Birni og Guðmundi, Vilhjálmi, Gunnari Ormslev og Egilson, Magnúsi Péturssyni og þeim alnöfnum Jónum Sigurðssonum sem léku á trompet og bassa. Hvergi var slegið af enda naut sveitin gríðarmikilla vinsælda og var án nokkurs vafa vinsælasta hljómsveit landsins en var um það leyti kjörin vinsælasta hljómsveit landsins fimmta árið í röð hjá Jazzblaðinu. Um haustið hélt hljómsveitin stóra djasstónleika í Austurbæjarbíói, lék á sýningum hjá Cirkus Zoo sem SÍBS flutti inn til landsins og um það leyti tók SKT skemmtistaðinn Röðul á leigu og réði sveitina sem húshljómsveit þar.

Veturinn 1951-52 var hljómsveit Björns á Röðli og sumarið á eftir fór hún í enn eina landsbyggðarferðina en þá bar svo við að þeir voru einungis fjórir – Björn, Guðmundur, Magnús og Jón bassi, skýringin var sú að eitthvað var farið að fjara undan djasstónlistaráhuganum úti á landi og hefðbundnar hljómsveitir með dægurlagasöngvurum og gömlu dönsunum voru að taka við auk þess sem farið var að styttast í rokkið svokallaða. Einhverjar breytingar urðu enn á sveitinni um haustið en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu hana þá, Ólafur Gaukur og Jón Páll Bjarnason voru t.a.m. báðir í sveitinni á þeim tíma en upplýsingar liggja ekki fyrir um aðra meðlimi – um veturinn lék sveitin í Þórscafe. Árið 1952 lék sveitin inn á tveggja laga plötu með Brynjólfi Jóhannessyni gamanleikara en ekki liggja fyrir upplýsingar um hverjir skipuðu sveitina á þeirri skífu.

Minna fór fyrir hljómsveit Björns R. Einarssonar næstu árin enda var landslagið í tónlistinni heldur betur að breytast, þar spilar sjálfsagt einnig inn í að KK sextettinn naut orðið mikilla vinsælda og hafði e.t.v. að einhverju leyti tekið við af hljómsveit Björns. Sveitin var þó áfram í fullu fjöri og misstór eftir tilefninu hverju sinni, í janúar 1954 var hún t.d. stækkuð upp í átta manna sveit eftir hafa verið minni um tíma, þá voru meðlimir hennar Björn, Guðmundur, Gunnar Egilson og Ormslev, Jón trompetleikari, Magnús píanóleikari, Ólafur Gaukur og Axel Kristjánsson sem kom þarna inn aftur eftir nokkurt hlé, hann hefur líkast til leikið á bassa. Björn söng sem áður en einnig söng Sigrún Jónsdóttir heilmikið með sveitinni sem lék töluvert á Suðurnesjunum á þessum árum en herstöðin var þá risin á Miðnesheiði. Sveitin lék heilmikið í Þórscafe en einnig á árshátíðum og þess konar einkasamkomum sem þá voru að færast í vöxt, sem fyrr fékk landsbyggðin að njóta spilamennsku sveitarinnar meira á sumrin enda voru vegasamgöngur smám saman að komast í betra lag eftir því sem árin liðu, þannig lék sveitin (fimm manna) t.d. á fjölmörgum héraðsmótum sjálfstæðismanna sumarið 1956 en einnig hafði hún haft fasta viðveru í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll veturinn á undan ásamt söngkonunni Ingibjörgu Smith.

Björn R. Einarsson og félagar

Á árunum 1954 til 56 komu út sex plötur með leik sveitarinnar undir söng Björns, Öddu Örnólfs og Smárakvartettsins en Tónika og Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur gáfu þær plötur út – þetta voru allt 78 snúninga plötur en þær voru um þetta leyti að líða undir lok.

Liðsmenn hljómsveitarinnar voru komnir á fertugsaldurinn og töldust því tæplega nein unglömb lengur þegar hér var komið sögu, rokkið var hins vegar mætt upp á Ísland og á þessum fyrstu árum rokksins tíðkaðist að ungir og efnilegir „rock-söngvarar“ eins og Óli Ágústsson (stundum nefndur Óli Prestley) tóku lagið með starfandi hljómsveitum. Og í hönd kom tímabil þar sem erlendir söngvarar komu til landsins og sungu með hljómsveitinni á Hótel Borg en sveitin starfaði þar mikið á þeim árum, landsbyggðin var sem fyrr í forgrunni á sumrin en einnig lék sveitin í Silfurtunglinu, Þórscafe og víðar. Þá lék sveitin á vinsælum skemmtunum Félags íslenskra einsöngvara – Syngjandi páskar, í Austurbæjarbíói þrjú ár í röð á árunum 1956-58.

Takmarkaðar upplýsingar er að finna um skipan sveitarinnar á síðustu árum sjötta áratugarins en í byrjun árs 1959 voru liðsmenn hennar á Borginni þeir Björn, Steinþór Steingrímsson píanóleikari, Erwin Koeppen bassaleikari og Torfi Baldvinsson gítarleikari, ekki virðist vera trymbill með sveitinni á þeim tíma. Fljótlega eftir þetta tók Sigurbjörn Ingþórsson við bassanum og Viðar Alfreðsson trompetleikari bættist í hópinn og um sumarið kom söngvarinn Ragnar Bjarnason einnig inn í sveitina þegar hún skemmti fólkinu í dreifbýlinu. Enn fleiri breytingar urðu þá á sveitinni og segja má að skipt hafi verið alveg um liðsmenn hennar þegar Kristján Magnússon píanóleikari, Ólafur Gaukur gítarleikari, Árni Egilsson bassaleikari og Guðjón Ingi Sigurðsson trommuleikari skipuðu hana með Birni.

Hljómsveit Björns R. Einarssonar

Vorið 1960 urðu enn breytingar á hljómsveit Björns og einhver dagblaðanna töluðu um upplausn í sveitinni, Guðmundur bróðir Björns gekk þá aftur í sveitina í stað Guðjóns Inga og Sigurbjörn var einnig hættur en Magnús Ingimarsson píanóleikari var genginn til liðs við þá félaga, ekki liggur fyrir hverjir aðrir skipuðu sveitina á þeim tímapunkti. Um haustið var sveitin átta manna þegar hún lék á tónleikum í Austurbæjarbíói og um svipað leyti virðist breski píanóleikarinn Cy Payne vera genginn í hana. Á öðrum tímapunkti það sama ár er sveitin skipuð þeim Birni, Guðmundi, Vilhjálmi Guðjónssyni, Viðari Alfreðssyni, Erwin Koeppen og Gunnari Ormslev þannig að erfitt er að henda reiður á skipan sveitarinnar hverju sinni. Heimildir eru jafnframt til um að Rúnar Georgsson saxófónleikari, Karl Geirmundsson gítarleikari og Trausti Thorberg gítarleikari hafi leikið með hljómsveit Björns á einhverjum tímapunkti en engar upplýsingar er hins vegar að finna hvenær það var.

Hljómsveitin átti eftir að starfa rétt fram yfir áramótin 1963-64 og á síðustu starfsárum hennar komu við sögu trompetleikarinn Jónas Dagbjartsson, Guðjón Pálsson, Andrés Ingólfsson saxófónleikari og jafnvel fleiri en sveitin virðist ekki hafa verið fastráðin neins staðar, hún lék t.a.m. á Hótel Borg, Lídó, Hótel Sögu og víða um landsbyggðina yfir sumartímann. Smám saman fjaraði undan sveitinni, hún lék lítið haustið 1963 af því er virðist og hætti svo alveg í ársbyrjun 1964 – þá hafði hún verið starfrækt líklega alveg samfleytt frá því um sumarið 1945.

Þess má að lokum geta að þegar verið var að vinna að útgáfu plötunnar Jazz í 30 ár, sem gefin var út í minningu Gunnars Ormslev árið 1983 fundust upptökur með hljómsveit Björns R. Einarsson þar sem Gunnar lék með sveitinni, og rötuðu tvö lög inn á þá plötu.

Efni á plötum