Helga Jóhannsdóttir (1935-2006)

Helga Jóhannsdóttir

Helga Jóhannsdóttir tónlistarfræðingur var framarlega í söfnun þjóðlegs efnis en fleiri hundruð klukkustundir af slíku efni liggur eftir hana á segulböndum, hún á því stóran þátt í varðveislu þjóðlaga, gamalla sálma og annars eldra tónlistarefnis.

Helga Jóhannsdóttir fæddist í árslok 1935 í Reykjavík en bjó um tíma sem barn í Svíþjóð þar sem hún kynntist tónlistinni en hún lærði þar aðeins á píanó, reyndar átti hún ekki langt að sækja tónlistaráhugann því hún var barnabarn Árna Thorsteinssonar tónskálds. Að loknu stúdentsprófi hér heima hélt hún til Kaupmannahafnar ásamt Jóni Samsonarsyni eiginmanni sínum sem þar starfaði sem fræðimaður í handritafræðum en Helga fór sjálf í nám í tónlistarfræðum við Kaupmannahafnarháskóla og þar með var búið að marka lífsleiðina.

Þegar heim var komið var Helga ráðin til tónlistardeildar Ríkisútvarpsins til að halda utan um þjóðlegt efni en hún hafði ásamt eiginmanni sínum farið á sumrin á námsárunum í ferðir um sveitir Íslands til að safna á segulbönd ýmsum þjóðlegum fróðleik, m.a. í formi gamalla sálmalaga, þjóðlaga, rímna, stemma og annars sem eldri borgarar landsbyggðarinnar lumuðu á og voru nú að hverfa af sjónarsviðinu – hún hafði þá einnig unnið útvarpsþætti um efnið og var það sjálfsagt kveikjan að því að henni bauðst starfið hjá Ríkisútvarpinu.

Margt af því sem safnaðist í þessum ferðum hafði sr. Bjarni Þorsteinsson þjóðlagasafnari á Siglufirði þegar varðveitt niðurskrifað áratugum fyrr en munurinn var nú sá að segulbandið var komið til sögunnar og lögin því varðveitt nákvæmlega eins og þau voru sungin. Þau hjónin héldu áfram slíkum ferðum um landið yfir sumartímann samhliða störfum Helgu við Ríkisútvarpið og mun hafa safnast á milli sex og sjö hundruð klukkustundir á efni vegna þessa.

Helga Jóhannsdóttir

Síðar starfaði Helga hjá Stofnun Árna Magnússonar við hliðstæð verkefni og hjá Ríkisútvarpinu, og hélt hún reglulega fyrirlestra um efnið t.d. í Norræna húsinu – þess konar fræðsluerindi voru oft flutt á dönsku og sænsku auk íslenskunnar en jafnframt ritaði Helga greinar um efnið í fagtímarit svo hróður hennar barst víða. Þá má geta þess að heilmikið að aðgengilegu efni er geymt á vef Ísmús með henni, bæði viðtöl hennar við aðra og tóndæmi sem og viðtöl við hana sjálfa.

Helga var ekki einungis þekkt fyrir þjóðfræðiáhuga og -störf en hún var einnig framarlega í kvenréttindamálum hér á landi, var virk í kvennahreyfingunni og kom að stofnun kvennalistans einnig – þá var hún þekktur friðarsinni og barðist fyrir þann málstað. Helga varð ekki langlíf, lést snemma sumars 2006 sjötug að aldri en hafði þá átt í langvarandi veikindum allt frá árinu 1983 og náði því ekki að starfa við hugðarefni sín eins lengi og hún hefði viljað.

Árið 2009 kom út plata sem hafði að geyma efni sem Helga, Jón eiginmaður hennar og Hallfreður Örn Eiríksson höfðu safnað frá Vestfjörðum en hún bar titilinn Heyrði ég í hamrinum: kveðandi og þjóðlegur fróðleikur kvenna úr Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu í segulbandasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Fleiri plötur hafa litið ljós þar sem tengingu er að finna við fræðistörf Helgu.

Efni á plötum