Afmælisbörn 4. maí 2023

Bjarni Björnsson

Afmælisbörn dagsins á Glatkistunni eru sex talsins að þessu sinni:

Jakob Frímann Magnússon á stórafmæli á þessum degi en hann er sjötugur. Hann er auðvitað einna þekktastur fyrir framlag sitt með Stuðmönnum en Jakob á ennfremur sólóferil sem spannar um tug platna. Hann lék á árum áður með öðrum sveitum eins og Rifsberju, Bone symphony, Hvítárbakkatríóinu (White Bachman trio), Madrigal, Razzmatazz, Sköpum, Change og fleiri sveitum auk þess að koma að ótal öðrum tónlistartengdum verkefnum hérlendis og erlendis.

Móeiður Júníusdóttir söngkona er fimmtíu og eins árs gömul í dag. Hún vakti fyrst athygli með framlagi sínu til fyrstu söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin var 1990. Síðar átti hún eftir að syngja í hljómsveitum eins og Jazzbandi Reykjavíkur [2] (ásamt Páli Óskari), Bong, Jetz og Lace, auk þess að gefa út sólóplötur. Móeiður er guðfræðingur í dag og hefur minna fengist við sönglistina hin síðari ár en birtist óvænt í undankeppni Eurovision 2023.

Leikkonan Margrét Helga Jóhannsdóttir fagnar í dag áttatíu og þriggja ára afmæli sínu. Margréti Helgu þekkja auðvitað flestir fyrir frammistöðu sína á leiksviðinu en hún hefur jafnframt sungið inn á nokkrar plötur tengdar leikhúsinu, hér má t.a.m. nefna Saumastofuna, Land míns föður, Sannar sögur og síðast en ekki síst Áfram stelpur en á þeirri plötu söng hún lagið Framtíðardraumar sem naut töluverðra vinsælda á sínum tíma.

Adda Örnólfs (Arnbjörg Auður Örnólfsdóttir) söngkona (1935-2020) hefði átt afmæli á þessum degi en hún er kunnust fyrir upphaflegu útgáfuna af laginum um Bellu símamær. Adda kom upphaflega frá Suðureyri en fluttist á unglingsárunum til höfuðborgarsvæðisins, þar sem hún vakti fljótlega athygli fyrir söng sinn. Hún söng inn á nokkrar 78 snúninga hljómplötur en oftast var það ásamt Ólafi Briem. Söngferill Öddu var stuttur og hætti hún að mestu að syngja opinberlega fyrir 1960.

Ingólfur (Ingó) Júlíusson gítar-, bassa- og hljómborðsleikari og ljósmyndari (f. 1970) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2013. Meðal hljómsveita sem Ingólfur lék með voru pönksveitirnar Q4U og Niður en hann var einnig kvikmyndagerðarmaður og vann m.a. að gerð tónlistarmyndbanda.

Þá er hér að síðustu nefndur Bjarni Björnsson gamanvísnasöngvari (1890-1942). Bjarni var fjölhæfur, hann var leiktjaldamálari, eftirherma, leikari og gamanvísnasöngvari en reyndi einnig fyrir sér sem kvikmyndaleikari í Danmörku og Bandaríkjunum með ágætum árangri. Hann varð fyrstur hérlendis til að gefa út plötur með gamanefni en nokkrar slíkar plötur komu út með honum.

Vissir þú að íslenska hljómsveitin Shima var kjörin besta erlenda hljómsveitin á tónlistarhátíð í Kanada 2005?