Afmælisbörn 5. maí 2023

Haraldur og Dóra Sigurðsson

Þrjú tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar að þessu sinni:

Herbert Viðarsson bassaleikari frá Selfossi er fjörutíu og sjö ára gamall á þessum degi. Hebbi er í hljómsveitinni Skítamóral eins og flestir vita en hann hefur einnig leikið með sveitum eins og Boltabandinu á Selfossi, Boogie knights, Ceres 4, Miðnesi, The Sushi‘s og Kántrýsveitinni Klaufum.

Óskar Guðmundsson hljómsveitastjóri á Selfossi (f. 1929) hefði einnig átt afmæli í dag en hann starfrækti ballhljómsveitir undir eigin nafni á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, ýmist sem Hljómsveit Óskars Guðmundssonar eða Bigband Óskars Guðmundssonar. Óskar lést 2013.

Haraldur Sigurðsson píanóleikari og háskólaprófessor frá Kaldaðarnesi (f. 1892) átti ennfremur afmæli á þessum degi. Hann nam í Danmörku og Þýskalandi en bjó og starfaði mestmegnis í Danmörku ásamt austurrískri eiginkonu sinni Dóru Sigurðsson söngkonu. Hann lék á píanó undir söng hennar, Maríu Markan og Stefáns Íslandi á nokkrum plötum á sínum tíma. Haraldur lést 1985.

Vissir þú að Siggi Johnny, einn af fyrstu rokksöngvurum Íslands var einnig landsliðsmarkvörður í handbolta?