Óskar Guðmundsson (1929-2013)

Óskar Guðmundsson

Óskar Guðmundsson var mikils metinn hljómsveitarstjóri á Selfossi en þaðan starfrækti hann vinsæla hljómsveit um árabil.

Óskar var frá Blesastöðum á Skeiðum, fæddur 1929, og flutti ungur til Selfoss þar sem hann nam járnsmíði og starfaði við iðn sína. Hann hafði tónlistina í sér og þrátt fyrir að hann nyti ekki tónlistarlegrar menntunar lék hann á ýmis hljóðfæri s.s. trommur, píanó, gítar og harmonikku, auk þess að syngja.

Óskar lék eitthvað á böllum á heimaslóðum áður en hann stofnaði hljómsveit sína, Hljómsveit Óskars Guðmundssonar 1952 en hún naut fádæma vinsælda um allt Suðurlandsundirlendið næstu árin en hljómsveitastúss á borð við þetta hafði ekki tíðkast á svæðinu. Óskar varð hins vegar frumkvöðull á þessu sviði á Selfossi og mun hafa verið ungum tónlistarmönnum hvatning til tónlistariðkunar síðar meir, einkum á sjöunda áratugnum þegar hljómsveiti spruttu upp eins og gorkúlur, og hefur stundum verið talað um hann sem föður sveitaballahljómsveitanna.

Hljómsveit Óskars starfaði til ársins 1969 en þá flutti hann til Svíþjóðar þar sem hann átti eftir að búa í um tvo áratugi, hann starfaði þar við járnsmíði í Malmö og á olíuborpöllum en iðkaði að því er best er vitað ekki tónlist á þeim árum eða eftir að hann heim aftur.

Óskar flutti á höfuðborgarsvæðið fyrst eftir að hann kom aftur heim til Íslands en bjó síðustu árin á Selfossi og Eyrarbakka. Þess má geta að hann hlaut menningarverðlaun Árborgar 2007 fyrir framlag sitt til tónlistarinnar á Suðurlandi.

Óskar lést haustið 2013.