Ósmenn (1967-72)

Ósmenn 1971

Hljómsveitin Ósmenn starfaði á Blönduósi um 1970, þetta var ballsveit sem lék einkum í Húnaþingi og var m.a. fastur gestur á Húnavöku, en fór stundum út fyrir heimabyggðina og lék t.a.m. í einhver skipti um verslunarmannahelgar í Vaglaskógi.

Ósmenn voru stofnaðir vorið 1967 og störfuðu þá fyrst aðeins yfir sumarið en fóru þá í pásu. Meðlimir sveitarinnar þá voru Sigurður Baldursson trommuleikari, Matthías L. Sigursteinsson söngvari og gítarleikari, Þórir Jóhannsson orgel- og harmonikkuleikari, Pétur Hjálmarsson bassaleikari og Sigurður Hermannsson söngvari og gítarleikari. Á miðju sumri hættu Sigurður Hermannsson og Matthías í sveitinni en Hannes Sigurgeirsson gítarleikari kom í þeirra stað.

Sveitin var endurvakin um áramótin 1968-69 og var Þórir þá sá eini úr upprunalegu sveitinni en aðrir meðlimir voru Haukur Ásgeirsson gítarleikari, Baldur Jónsson trommuleikari og Guðmundur Víðir Vilhjálmsson söngvari og gítarleikari. Sá síðast taldi hætti fljótlega en Pétur fyrrverandi bassaleikari gekk í sveitina í hans stað.

Þannig skipuð störfuðu Ósmenn þar til að Baldur trymbill sagði skilið við sveitina og tók Páll Valgeirsson þá við trommunum um tíma eða þar til Baldur kom aftur inn um vorið. Sveitin virðist hafa haft óbreytta liðsskipan þar til hún hætti störfum um haustið 1972.

Þar með var sögu Ósmanna frá Blönduósi lokið en hún kom þó saman aftur árið 1999.