Experiment (1970-77)

Experiment

Experiment

Hljómsveitin Experiment starfaði í nokkuð langan tíma á áttunda áratug síðustu aldar og höfðu margir viðkomu í þessari danshljómsveit.

Reyndar hét sveitin upphaflega Hljómsveit Önnu Vilhjálms, stofnuð í upphafi árs 1970 en starfaði aðeins í fáeina mánuði undir því nafni áður en þau breyttu nafni sínu í Experiment.

Framan af lék sveitin eingöngu fyrir hermenn á Keflavíkurflugvelli og var fyrrnefnd Anna Vilhjálms söngkona sveitarinnar en aðrir meðlimir voru Helgi Hermannsson [?], Baldur Már Arngrímsson gítarleikari, Hannes Jón Hannesson [?], Guðmundur Ingólfsson píanóleikari, Erlingur Björnsson gítarleikari, Pétur Pétursson trommuleikari, Sævar Árnason gítarleikari og Ásgeir Hólm saxófónleikari. Ekki léku þeir þó allir samtíma í sveitinni, t.d. hætti Helgi um sumarið 1970 og aðrir komu og fóru. Ásgeir saxófónleikari var einn meðlima Experiment allan tímann í sveitinni.

Anna hætti í sveitinni 1972 og flutti til Bandaríkjanna og í kjölfarið breyttust áherslur nokkuð, sveitin hætti fljótlega upp frá því að leika á Vellinum (líklega eftir að hún var bönnuð af einhverjum ástæðum) og varð hún djasstengdari upp frá því.

Meðlimir komu og fóru, og 1973 voru meðlimir hennar auk Ásgeirs, Ólafur Torfason söngvari og gítarleikari, Gunnar Ingólfsson (bróðir Guðmundar fyrrum píanóleikara sveitarinnar) trommuleikari og söngvari, Gunnar Bernburg bassaleikari og síðan Ingvi Þór Kormáksson píanóleikari sem kom í sveitina í lok ársins eða í upphafi árs 1974.

Heilmiklar mannabreytingar áttu síðan eftir að verða 1974 og 75, Sveinn Björgvinson (Svenni Björgvins) tók sæti Ólafs sem gítarleikari (og lék einnig á trommur), Sigurður Björgvinsson bassaleikari (og söngvari) og bróðir Sveins kom í stað Gunnars Bernburg og Pétur Hallgrímsson tók við trommunum af Gunnari Ingólfssyni. Guðmundur Hermannsson (Mummi Hermanns) kom inn sem söngvari sveitarinnar en lék einnig á gítar.

Eitthvað var um að menn hættu en byrjuðu aftur í Experiment, til að mynda var Pétur Pétursson trommuleikari (sem hafði verið í sveitinni á upphafsárum hennar) kominn aftur í hana 1976, og Guðmundur Hermannsson sem var í sveitinni 1975, ekki 1976 en var kominn í sveitina aftur í lokin, 1977 um það leyti sem hún hætti störfum. Þá var Anna Vilhjálms aftur gengin til liðs við Experiment, að minnsta kosti um tíma meðan hún var í heimsókn hér á landi vorið 1977.

Experiment hætti störfum 1977 og meðlimir hennar birtust í kjölfarið í sveitum eins og Goðgá.