Siggi Johnny (1940-2016)

Siggi Johnnie

Siggi Johnny

Sigurður (Siggi) Johnny Þórðarson, dansk-íslenskur söngvari telst vera einn fyrsti rokksöngvari Íslands, engar plötur komu þó út með söng hans fyrr en 1984 og má rekja það til sterks dansks framburðar hans á yngri árum.

Blómatími Sigurðar Johnny var klárlega síðari hluti sjötta áratugar tuttugustu aldarinnar og fyrri hluti þess sjöunda en það var um það leyti sem rokkið barst til Íslands.

Ferill Sigurðar hófst með þeim hætti að hann tróð upp með Hljómsveit Björns. R. Einarssonar 1955 en þá tíðkaðist að hljómsveitir leyfðu ungum og efnilegum söngvurum að spreyta sig á skemmtunum, þá var kappinn aðeins fimmtán ára. Í kjölfarið fylgdu söngskemmtanir með hljómsveitum Aage Lorange og Jose Riba sem báðar voru vinsælar um þetta leyti.

Snemma árs 1959 var Sigurður farinn að syngja reglulega með Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar og fleiri sveitum eins og Hljómsveit Ólafs Gauks, City sextett og Hljómsveit Svavars Gests og veturinn eftir (1959-60) var hann í fastri stöðu hjá hljómsveitinni Fimm í fullu fjöri. Eftir þetta var hann að mestu lausráðinn hjá sveitum eins og Neo kvartettnum, Taboo kvintettnum, Tonik sextett, Bambínó, KK sextett og Hljómsveit Þorsteins Eiríkssonar veturinn 1962-63. Sigurður mun einnig hafa verið með eigin sveit, The Swingers sem lék reglulega á Keflavíkurflugvelli.

Um það leyti var Sigurður líklega að mestu hættur að syngja en hann var einnig handknattleiksmarkvörður og m.a. í íslenska landsliðinu svo þar þurfti svolítið að velja og hafna. Reyndar mun hann hafa flúið land vegna óþverralegra sögusagna sem gengu um hann og illa gekk að kæfa, sá þráláti og tilbúni orðrómur hafði gengið um hann allt frá unglingsárum að hann misnotaði dýr og svo fór að hann hóf að misnota áfengi ótæpilega um tíma.

Sigurður kom aftur heim og söng m.a. á djasshátíð 1976 en hann birtist síðan á sjónarsviðinu þegar rokkvakningin mikla gekk yfir á fyrstu árum níunda áratugarins, þá var að sjálfsögðu leitað til Sigurðar. Hann söng á flestum þeim stórsýningum tileinkuðum upphafsárum rokksins sem settar voru upp hér á landi að frumkvæði Ólafs Laufdal og annarra, og aftur þegar svipuð bylgja gekk yfir á tíunda áratugnum og enn aftur árið 2006, þannig að hann var síður en svo gleymdur þeim sem muna rokkið eins og það var í upphafi.

Svo fór að lokum að söngrödd Sigurðar Johnny heyrðist á plötu en árið 1984 söng hann lagið HLH ásamt HLH-flokknum á plötunni Í rokkbuxum og strigaskóm, 1993 söng hann svo dúett á plötu Ómars Ragnarssonar, Ómar hittir Gáttaþef, lagið var síðan endurútgefið á safnplötunni Árþúsundajól, árið 2000.

Siguður lést haustið 2016, sjötíu og sex ára gamall.