Afmælisbörn 6. maí 2023

Nanna Bryndís Hilmarsdóttir

Afmælisbörn Glatkistunnar eru þrjú í dag:

Nanna Bryndís Hilmarsdóttir söngkona, gítarleikari og stofnandi hljómsveitarinnar Of monsters and men er þrjátíu og fjögurra ára gömul í dag. Nanna Bryndís, sem kemur úr Garði, kom fyrst í stað fram sem trúbador undir nafninu Songbird, hún hafði einnig tekið þátt í söngkeppni framhaldsskólanna og verið í hljómsveitinni Pointless en það var ekki fyrr en hún stofnaði OMAM sem hlutirnir fóru að gerast, og í kjölfarið tók við frægð og frami á erlendri grund.

Henni Rasmus (Sigurður Gunnar Sigurðsson (1911-91)) píanóleikari átti einnig þennan afmælisdag, hann starfaði með hljómsveitum eins og Hljómsveit Þóris Jónssonar en hann starfrækti auk þess eigin sveit undir nafninu Blue boys. Henni Rasmus samdi mörg kunn lög eins og Viltu með mér vaka, Anna Maja og Manstu.

Og þá er nefndur Björn Friðriksson verkamaður (f. 1878) en hann var einn af stofnendum Kvæðamannafélagsins Iðunnar sem hefur gefið út og staðið að varðveislu hvers kyns kveðskaps s.s. rímna. Björn var jafnframt formaður og gegndi fleiri störfum í starfsemi félagsins auk þess sem hann var ágætur kvæðamaður sjálfur. Hann lést árið 1946.

Vissir þú að Jón Sigmundsson bóndi á Einfætingsgili á Ströndum var yfir sjötíu ár í kirkjukór Óspakseyrar?