Björn Friðriksson (1878-1946)

Björn Friðriksson

Kvæðamaðurinn Björn Friðriksson á stóran þátt í varðveislu kveðskapar í ýmsu formi en hann var maðurinn á bak við stofnun Kvæðamannafélagsins Iðunnar.

Björn fæddist 1878 í Vestur-Húnavatnssýslu þar sem hann sleit barnsskónum og bjó reyndar þar til hann var kominn á fimmtugs aldur. Þar vann hann ýmis störf við sjós og land en árið 1924 reif hann sig og fjölskyldu sína upp og flutti til Reykjavíkur þar sem hann bjó síðan, og starfaði við verkamannastörf hjá Mjólkurfélagi Reykjavíkur og síðan Hafnargerð Reykjavíkur.

Björn hafði alist upp við hvers kyns kveðskap, hann var þrátt fyrir enga formlega skólagöngu sagður fjölfróður og var sjálfur hagmæltur og áhugamaður um varðveislu alls þjóðlegs efnis. Í skemmtiferð á Þingvöllum þar sem hann var ásamt fjölskyldu sinni og fleirum kom upp sú hugmynd að stofna félag tengt varðveislu kveðskapar. Systir hans sem þar var með í för kynnti Björn Kjartani Ólafssyni sem þarna var einnig staddur og ræddu þeir hugmyndina nánar. Varð úr að Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað um haustið 1929 og gegndi Björn þar stjórnarstörfum um árabil, sem ritari og einnig í nokkur ár sem formaður. Þrjár systur Björns, Sigríður, Ingibjörg og Þuríður voru einnig meðal stofnfélaga sem voru á fjórða tug. Rósa, dóttir Björns átti síðar eftir að vera áberandi í félagsstarfinu en heimili Björns og fjölskyldu hans varð eins konar miðstöð hagyrðinga og kvæðamanna meðan hann lifði.

Kvæðamannafélagið Iðunn varð öflugt undir forystu Björns og annarra, það stóð fyrir fjölmennum samkomum þar sem kveðið var, auk þess sem varðveisla eldri kvæða var gert hátt undir höfði. Félagið stóð ennfremur fyrir upptökum til varðveislu kveðskapar af ýmsu tagi og er rödd Björns ein þeirra sem heyra má á útgefnum Silfurplötum Iðunnar.

Björn lést 1946, á sextugs aldri.