Björn Stefán Guðmundsson (1939-2018)

Björn Stefán Guðmundsson

Björn Stefán Guðmundsson kennari og skólastjóri úr Dölunum var hljóðfæraleikari og ljóðskáld en vinir og velunnarar gáfu út plötu með lögum við ljóð hans.

Björn var frá Reynikeldu á Skarðsströnd, fæddur 1939 en fluttist tuttugu og fjögurra ára gamall í Dalina þar sem hann starfaði lengst af sem kennari og skólastjóri. Hann lék á harmonikku á sveitaböllum á yngri árum en ekki liggur fyrir hvort hann starfaði með hljómsveitum, hann spilaði einnig á píanó og trommur. Hann söng í kirkju- og karlakórum mest alla tíð, stjórnaði barnakórum og var einn af stofnendum Tónlistarskóla Dalasýslu og kenndi þar á harmonikku svo dæmi séu nefnd um tónlistartengingu. Þá var hann öflugur í öllu félagslífi í sinni sveit.

Björn var ljóðskáld, sendi frá sér tvær ljóðabækur og ljóð hans birtust stundum í dagblöðum. Árið 1991 var gefin út plata sem hafði að geyma lög ýmissa lagahöfunda við ljóð hans en meðal þeirra sem stóðu fyrir því verkefni var Friðrik Sturluson sem hafði verið einn af nemendum Björns í skólanum í Búðardal. Platan fékk titilinn Birtir af degi: Lög við ljóð eftir Björn Stefán Guðmundsson frá Reynikeldu og innihélt tólf lög. Ýmsir þjóðþekktir söngvarar og tónlistarmenn komu við sögu á plötunni og má þar m.a. nefna Kristjönu Stefánsdóttur, Jóhann Hjörleifsson, Jón Ólafsson, Örvar Kristjánsson, Björgvin Gíslason og fleiri.

Þekktast ljóða Björns var Vinur minn missti vitið, sem Bjarni Hjartarson hafði samið lag við og gefið út árið 1984 á plötunni Við sem heima sitjum, og Pálmi Gunnarsson sungið við nokkrar vinsældir. Það lag var aukalag á geislaplötuútgáfu plötunnar Birtir af degi en hún kom einnig út á vínylplötuformi.

Björn Stefán lést vorið 2018 rétt tæplega áttræður að aldri.

Efni á plötum