Afmælisbörn 7. maí 2023

Alfreð Clausen

Fimm afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum ágæta degi:

Svavar Lárusson söngvari frá Neskaupstað er níutíu og þriggja ára gamall á þessum degi. Svavar söng inn á fjölmargar 78 snúninga plötur hér á árum áður og meðal laga sem urðu vinsæl með honum má nefna Ég vild‘ ég væri og Hreðavatnsvalsinn. Svavar má með réttu telja einn alfyrsta dægurlagasöngvara Íslands.

Ólafur Fannar Vigfússon (Rufaló) frá Kirkjubæjarklaustri er fjörutíu og átta ára gamall í dag, hann var á árum áður í hljómsveitum eins og Fljótið sem rann og Vírus auk fleiri sveita en gaf árið 1998 úr sólóplötuna Sykurveröld undir nafninu Rufaló. Ólafur er menntaður kvikmyndagerðarmaður.

Margrét Rán Magnúsdóttir tónskáld, söngkona og gítar- og hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Vakar er þrjátíu og eins árs gömul í dag. Vök sigraði eins og kunnugt er Músíktilraunir árið 2013 og hefur undanfarið verið að gera frábæra hluti en Margrét hafði áður starfað með hljómsveitinni Wipeout.

Friðþjófur Ísfeld Sigurðsson bassaleikari en fimmtíu og sex ára gamall í dag. Friðþjófur kemur frá Akureyri og lék þar m.a. með sveitum eins og Bandalaginu og Rjúpunni en þekktastur er hann þó sem bassaleikari Sniglabandsins, sem hann hefur leikið með í áratugi, hann hefur einnig leikið með sveitum eins og BP og þegiðu Ingibjörg og Plast. Bassaleik hans er að finna á fjöldanum öllum af plötum.

Alfreð Clausen sem rétt eins og Svavar Lárusson telst með fyrstu dægurlagasöngvurum Íslandssögunnar, hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann var fæddur fullveldisárið 1918. Plötur Alfreð skipta tugum og lög hans hafa sum hver lifað góðu lífi til dagsins í dag, þeirra á meðal má nefna klassíska slagara eins og Manstu gamla daga, Ömmubæn og Gling gló. Alfreð lést árið 1981.

Vissir þú að Sigfús Halldórsson lærði um tíma söng hjá Pétri Á. Jónssyni óperusöngvara?