Sigfús Halldórsson (1920-96)

Sigfús Halldórsson

Sigfús Halldórsson er án nokkurs vafa meðal allra fremstu dægurlagahöfunda sem Ísland hefur alið og enn í dag þekkja flestir landsmenn lagasmíðar hans þótt þær séu sumar hverjar frá því fyrir seinna stríð, eitt vinsælasta lag hans Litla flugan hefur við lauslega athugun t.d. verið gefið út í yfir þrjátíu mismunandi útgáfum og engin ein útgáfa hefur verið áberandi vinsælli en önnur. Meðal annarra laga Sigfúsar sem flestir þekkja má nefna Við eigum samleið, Tondeleyó, Dagný, Játning (Enn birtist mér í draumi), 79 af stöðinni (Vegir liggja til allra átta) og Lítill fugl en öll þessi lög eiga það sammerkt að hafa komið út í meðförum fjölda söngvara og kóra í gegnum tíðina. Sigfús flutti oft sjálfur lög sín og söng með en kom jafnframt oft fram með hljómsveitum og mun líklega vera einn allra fyrsti ef ekki sá fyrsti dægurlagasöngvari okkar Íslendinga. Þá var hann einnig liðtækur málari og hélt fjölda málverkasýninga um ævi sína.

Sigfús Halldórsson var Reykvíkingur, fæddur haustið 1920. Hann var alinn upp við tónlist og móðir hans lék á gítar og söng, aukinheldur voru þekkt nöfn tónlistarmanna í ætt hans og má þar nefna Björgvin Guðmundsson tónskáld og Þórhall Árnason sellóleikara. Tónlistarhæfileikar Sigfúsar komu fljótlega í ljós því hann var farinn að spila á píanó um tveggja ára aldur. Hann sagði frá því síðar í viðtali að honum hefði verið sagt að hann hefði verið farinn að semja tónlist fljótlega eftir það eða um 3-4 ára aldur en sjálfur mundi hann eftir að hafa samið sitt fyrsta lag þegar hann var átta ára, það var við ljóð Þorsteins Erlingssonar Hreiðrið mitt (Þér frjálst er að sjá). Sigfús lærði því á píanó og tónfræði og meðal kennara hans í faginu voru Anna Pjeturs, Katrín Viðar og Fritz Weisshappel, á unglingsárum sínum lærði hann einnig söng í nokkur ár hjá Pétri Á. Jónssyni óperusöngvara en Sigfús lék jafnframt á fleiri hljóðfæri s.s. flautu og gítar. Tónlistin var þó aðeins eitt af áhugamálum hans á yngri árum því einnig stundaði hann íþróttir, m.a. fimleika og knattspyrnu en hann varð Íslandsmeistari með Val í þriðja flokki og var reyndar alla tíð mikill Valsari.

Sigfús varð snemma þekktur fyrir tónsmíðar sínar og löngu fyrir tvítugt var hann orðinn kunnur einnig fyrir píanóleik, söng og þátttöku í kabarettsýningum en hann söng fyrst á sviði aðeins sextán ára gamall. Fyrsta frumsamda lagið sem hann kom á framfæri var Við eigum samleið en hann samdi það einungis sextán ára gamall, og reyndar frumflutti hann „göngulag“ fyrir félag ungra þjóðernissinna það sama ár en ekki liggur fyrir hvort það lag varð síðar meðal hans þekktustu.

Sigfús ásamt Pétri Á. Jónssyni óperusöngvara og söngkennara

Strax á þessum unglingsárum hafði komið fram áhugi Sigfúsar á leiklist og árið 1937 lék hann lítið hlutverk í leikritinu Þorláki þreytta sem Leikfélag Reykjavíkur setti á svið í Iðnó, fljótlega eftir það lék hann í revíunni Fornar dygðir og síðar meir átti hann eftir að koma reglulega fram í slíkum revíu- og kabarettsýningum, oft sem píanóleikari og söngvari með eigin lög en einnig sem leikari.

Vinsældir lagasmíða Sigfúsar breiddust hratt út og þegar hann lék rétt tæplega nítján ára gamall frumsamin lög á skemmtun Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur sumarið 1939 var það auglýst sérstaklega að nýtt lag yrði á dagskránni. Um það leyti hafði hann samið nokkur lög sem komið höfðu út á nótum og þeirra á meðal var fyrrnefnt Við eigum samleið en einnig Íslands hrafnistumenn sem var fyrsta lag Sigfúsar sem var helgað sjómönnum, þeim átti eftir að fjölga verulega. Þess má geta að algengt var á þessum tíma að gefa út nótnahefti með lögum og nýtti Sigfús sér þá aðferð töluvert þótt það kostaði sitt, Við eigum samleið varð fyrst til að koma út á því formi og er þar af leiðandi fyrsta útgefna lag Sigfúsar – lagið kom hins vegar ekki út á plötu fyrr en 1955, þá sungið af Maríu Markan og Sigurði Ólafssyni við undirleik Tríós Jan Morávek.

Sigfús var þarna farinn að láta að sér kveða sem lagahöfundur en óvenjulegt var að höfundar laga flyttu lög sín sjálfir á þeim tíma, hann flutti m.a. lag sitt Dagný á skemmtunum á Hótel Borg og var það svo kjörið besta lagið í atkvæðagreiðslu á Hótel Íslandi um besta danslagið haustið 1939. Lagið naut það mikilla vinsælda í kjölfarið að Dagnýjar-nafnið varð mun algengara skírnarnafn næstu árin. Og fleiri lög litu dagsins ljós, Við tvö og blómið og Stjáni blái en síðarnefnda lagið tileinkaði Sigfús Sjómannadeginum.

Sigfús Halldórsson 1939

Sigfús var þarna í kringum upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari töluvert farinn að koma fram og skemmta bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, auk revíu- og kabarettsýninga sem fyrr eru nefndar kom hann ýmist fram einn sem söngvari og píanóleikari eða að hann söng ásamt hljómsveit, t.d. Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar og Hljómsveit Guðmundar H. Norðdahl á Hótel Borg, Iðnó og fleiri stöðum, með nokkurri vissu mætti segja að Sigfús hafi verið fyrstur allra hér á landi til að vera kallaður dægurlagasöngvari. Sigfús söng aukinheldur tenór rödd með kórum og var t.d. meðal einsöngvara í stórri uppfærslu á Jóhannesar-passíunni eftir Bach undir stjórn Victors Urbancic vorið 1943. Hann kom jafnframt stundum fram sem undirleikari, t.d. ásamt Alfreð Alfreðssyni gamanvísnasöngvara en einnig ásamt dansaranum Báru Sigurjónsdóttur (sem síðar var kennd við Jazzballetskóla Báru) en þau Sigfús voru par um þriggja ára skeið.

Sigfús hafði nokkuð fengist við leiklist sem fyrr er nefnt en hann var á stríðsárunum einnig farinn að mála leiktjöld og árið 1944 fór hann til Bretlands til að nema leiktjaldamálun. Hann fékk styrk til þess frá Útvegsbankanum en þar hafði hann starfað um nokkurra ára skeið. Verkefni hans í Bretlandi urðu reyndar töluvert fjölbreyttari en til stóð því auk þess að nema sín fræði lék hann lítillega á sviði auk þess sem hann söng í nokkur skipti í útvarpi það ár sem hann dvaldi ytra.

Fjögur ný lög eftir hann komu út á nótum 1945, Í dag er ég ríkur, Til Unu, Vögguljóð og Þú komst en Sigfús var duglegur að koma lögum sínum á framfæri með þeim hætti sem fyrr segir, dægurlagasöngur á plötum var þarna ekki kominn til sögunnar. Það ýtti einnig undir vinsældir laganna að hann söng stöku sinnum lög sín í Útvarpinu.

Aðal starf Sigfúsar næstu misserin var í leikhúsinu, bæði sem leikari og við leiktjaldamálun en kom einnig við sögu í kabarettsýningum eins og áður.

Árið 1947 hélt hann svo sína fyrstu leiktjalda- og málverkasýningu sem jafnframt var fyrst leiktjaldasýningin hér á landi, málverkasýningar hans áttu svo eftir að skipta tugum. Hann fór það sama ár til Svíþjóðar þar sem hann starfaði um eins árs skeið og kynnti sér leiktjaldafræðin betur en hann var þá hættur að starfa í Þjóðleikhúsinu, líkaði illa við starfsandann þar.

Aðal samstarfsmenn Sigfúsar í tónlistinni voru þeir Tómas Guðmundsson og Vilhjálmur frá Skáholti en hann samdi lög við fjölmörg ljóð þeirra, þeir voru jafnframt vinir og þótti gott að fá sér saman í staupinu. Samstarf þeirra var einnig með annars konar hætti og til að mynda myndskreytti Sigfús ljóðabók eftir Vilhjálm.

Sigfús Halldórsson tuttugu og tveggja ára gamall

Næstu árin bættust í hóp nýrra laga Sigfúsar nokkur sem síðar urðu klassísk, þetta voru lög eins og Tondeleyó (sem hafði verið samið í tengslum við samnefnda leiksýningu), Við Vatnsmýrina og síðast en ekki síst lagið sem líklega varð það þekktasta af þeim öllum, Litla flugan. Tilurð þess lags var var með þeim hætti að hann dvaldist í desember mánuði 1951 á Reykhólum í Barðastrandarsýslu þar sem hann var að jafna sig eftir slys, þar átti hann tal við Sigurð Elíasson sem var tilraunastjóri búsins á Reykhólum, sem sýndi honum kvæðabálk sem hann hafði samið, þar inni í var að finna vísurnar tvær um Litlu fluguna sem Sigfús samdi lag við nánast um leið og hann las kvæðið. Fáeinum dögum síðar skemmti Sigfús á jólaballi fyrir börn í Reykholti og flutti þá lagið og kunnu krakkarnir strax að meta lagið og sungu hástöfum með. Sigfús áttaði sig á að hann væri kominn með stórsmell og fáeinum vikum síðar, snemma árs 1952 þegar hann var gestur Péturs Péturssonar í útvarpsþætti flutti hann Litlu fluguna. Einhverjar rafmagnstruflanir urðu á meðan á þættinum stóð og fékk Pétur því Sigfús til að flytja lagið aftur í lok þáttarins þannig að það heyrðist tvívegis og það varð klárlega til þess að gjörvöll þjóðin sem sat límd við viðtækin lærði Litlu fluguna á þessari kvöldstund og varð lagið upp frá því stórsmellur og þurfti þá ekki plötuútgáfu eða fleiri miðla til – Sigfús var eftir þetta iðulega kallaður Fúsi fluga.

Árið 1952 varð reyndar töluvert gæfuríkt fyrir Sigfús, á fyrri hluta ársins söng Ævar Kvaran sjö laga hans á plötur fyrir Ríkisútvarpið, ekki var um opinbera plötuútgáfu að ræða heldur einungis plötur sem spilaðar voru í útvarpinu en þær voru óspart spilaðar þar, um sumarið fór einnig af stað revía sem farið var með hringinn í kringum landið undir nafni leikhópsins Litlu flugunnar. Um veturinn 1952-53 voru síðan tíu laga Sigfúsar gefin út á fimm 78 snúninga plötum af Íslenzkum tónum sem var útgáfufyrirtæki í eigu Tage Ammendrup og voru plötur þessar meðal þess fyrsta sem þar kom út. Lögin átta á plötunum fimm voru Litla flugan / Tondeleyó, Í dag / Við Vatnsmýrina, Játning / Við tvö og blómið, Til Unu / Þú komst og Dagný / Íslenzkt ástarljóð en Sigfús söng þau öll sjálfur við eigin píanóundirleik. Sjálfsagt hefur engan á þeim tímapunkti grunað að flest laganna yrðu að sígildum dægurlagaperlum í íslenskri tónlistarsögu. Revíusöngkonan Soffía Karlsdóttir hafði reyndar verið fyrst til að syngja Játningu á opinberum vettvangi og þá með öðrum texta (eftir Reinholt Richter) en nýi textinn var eftir Tómas Guðmundsson.

Á forsíðu Útvarpstíðinda

Plöturnar fimm seldust gríðarlega vel og Sigfús varð þarna þjóðþekktur og vinsæll hafi hann ekki þá þegar náð þeim stalli. Og orðspor laga hans dreifðist víða því fréttir þess eðlis bárust að Litla flugan nyti vinsælda í Danmörku og Noregi en fjögur lög eftir Sigfús voru í kjölfarið hljóðrituð af dönskum tónlistarmönnum, líklega komu þó aðeins tvö þeirra út 1953, Litla flugan og Játning, fyrrnefnda lagið kom svo einnig út í Noregi ásamt Hreðavatnsvalsinum (e. Knút R. Magnússon) sama ár.

Fleiri lög komu út á plötum, Játning kom aftur út en að þessu sinni með Ingibjörgu Þorbergs og Smárakvartettnum, þau Ingibjörg og Alfreð Clausen sendu svo frá sér plötu með tveimur nýjum lögum Sigfúsar, Ég vildi að ung ég væri / Þín hvíta mynd, við undirleik hans og Litla flugan kom út í syrpu í meðförum Tríós Jan Morávek. Þannig mætti áfram telja og þegar 45 snúninga plöturnar birtust um miðjan sjötta áratuginn sem höfðu þann kost að geta innihaldið fleiri lög voru mörg þessara laga endurútgefin, m.a. þau sem Sigfús hafði fyrst sent frá sér á plötum, undir titlinum Sigfús Halldórsson leikur og syngur eigin lög og Sigfús Halldórsson leikur og syngur eigin lög nr. 2. Með þessum 45 snúninga plötum komu plötuumslög til sögunnar og það útskýrir þessa titla.

Sumarið 1954 fór Sigfús Halldórsson ásamt leikkonunum Áróru Halldórsdóttur, Emilíu Jónsdóttur og Nínu Sveinsdóttur með skemmtidagskrá um landið sem að mestu var byggð á tónlist Fúsa en hópurinn var auglýstur undir nafninu Frúrnar þrjár og Fúsi. Ári síðar var svipuð dagskrá á ferðinni en þá hafði Gestur Þorgrímsson tekið við af Áróru og hópurinn hlaut nafnið Frúrnar, Fúsi og Gestur, þessar uppákomur nutu mikilla vinsælda á landsbyggðinni enda var ekki hlaupið að því hjá fólki í dreifbýlinu að sjá landskunna skemmtikrafta á sviði á þessum árum.

Eftir miðjan sjötta áratuginn fór nokkuð minna fyrir Sigfúsi þótt hann héldi eitthvað áfram að skemmta og mála leiktjöld um tíma, hann hafði hætt að starfa nokkru fyrr við leikhúsið og vann um áraskeið hjá Skattstofunni. Hann hélt þó áfram að senda reglulega frá sér ný lög þótt ekki kæmi þau öll út á plötum strax, Amor og asninn var meðal þeirra sem og Hvers vegna? sem Erla Þorsteins sendi frá sér á plötu 1958 en einnig sungu fleiri söngvarar lög hans á plötum s.s. Guðrún Á. Símonar (Þín hvíta mynd) og karlakórinn Fóstbræður (Stjáni blái).

Sigfús 1962

Það var svo árið 1962 að stórsmellurinn 79 af stöðinni (Vegir liggja til allra átta) kom út í meðförum Elly Vilhjálms en það var titillag samnefndrar kvikmyndar við texta Indriða G. Þorsteinssonar en óhætt er að segja að þar sé á ferð fyrsta sungna íslenska kvikmyndalagið. Reyndar var Sigfús aldrei fyllilega sáttur við lagið í útsetningu Jóns Sigurðssonar því hann hafði samið lagið sem tangó en lagið varð gríðarlega vinsælt. Elly var þarna ung og efnileg söngkona sem hafði þá vakið athygli með KK sextettnum og hafði sungið inn á sína fyrstu plötu tveimur árum fyrr en þessi nýja plata ýtti verulega undir vinsældir hennar. Hitt lagið á plötunni var svo lagið Lítill fugl sem einnig var eftir Sigfús og það lag þekkja auðvitað flestir einnig.

Um 1960 höfðu um tuttugu lög Sigfúsar komið út á plötum og um þrjátíu talsins á nótum, árið sem hann varð fertugur. Með tilkomu rokksins um miðjan sjötta áratuginn hafði Sigfús dregið sig í hlé sem dægurlagasöngvari en hann var síður en svo hættur að koma fram og skemmti reglulega með söng og píanóleik, og var auk þess í karlakórnum Fóstbræðrum sem einmitt hafði flutt Stjána bláa á plötu sinni árið 1960.

Ýmsir listamenn héldu áfram að syngja lög hans á plötum næsta áratuginn, þeirra á meðal má nefna Magnús Jónsson óperusöngvara, Heimi og Jónas og Þóri Baldursson og svo Elly Vilhjálms sem árið 1964 sendi frá sér tveggja laga plötu ásamt hljómsveit Svavars Gests með lögunum Sumarauki / Í grænum mó, fyrrnefnda lagið mun hafa verið auglýsingalag samið fyrir og tileinkað Gullfossi, fyrsta sinnar tegundar en textann gerði Guðjón bróðir Sigfúsar. Þess má og einnig geta að árið 1966 gaf Ómar Ragnarsson út lag eða lagasyrpu sem hét Halló Dagný og í því lagi kemur fyrir þetta textabrot „Ertu Dagný, ennþá með Fúsa?“ þar sem Ómar syngur í gervi Louis Armstrong, augljóslega um Sigfús Halldórsson.

Sigfús sem um þetta leyti var fluttur í Kópavoginn lauk árið 1968 námi við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands, hlaut þar með kennsluréttindi og hóf að kenna myndlist við Langholtsskóla sem hann gerði til ársins 1981, hann hélt jafnframt reglulega myndlistasýningar og samdi tónlist sem fyrr – hann var t.a.m. með óperettu í smíðum en virðist ekki hafa lokið við hana. Haustið 1966 hafði Sjónvarpið tekið til starfa og að sjálfsögðu kom Sigfús við sögu þess á fyrstu árunum með söng og píanóleik en varð síðar aufúsugestur þar allt til æviloka, birtist reglulega í spjallþáttum í sjónvarpinu þar sem hann tók gjarnan lagið.

Tómas Guðmundsson og Sigfús Halldórsson

Við lok sjöunda áratugarins stóð til að Svavar Gests sem þá rak SG-hljómplötur myndi gefa út breiðskífu með Sextett Ólafs Gauks og söngvurunum Svanhildi Jakobsdóttur og Rúnari Gunnarssyni þar sem þau myndu flytja lagasmíðar Sigfúsar með svipuðum hætti að þau höfðu gert við Vestmannaeyjalög Oddgeir Kristjánssonar við miklar vinsældir. Ekki varð úr þeim áformum með Gauknum en þess í stað kom út plata 1970 þar sem systkinin Elly og Vilhjálmur Vilhjálms sungu, undir titlinum Vilhjálmur og Elly Vilhjálms syngja kunnustu lög Sigfúsar Halldórssonar. Platan naut að sjálfsögðu mikilla vinsælda og þótt flest laganna hefðu áður komið út voru þau í nýjum og poppaðri útsetningum en þau höfðu áður heyrst í, sem m.a. höfðu að geyma blásturs- og strengjahljóðfæri. Tilefni þessarar plötu var fimmtugs afmæli Sigfúsar en einnig var við það tækifæri gefið út veglegt sönglagahefti sem hafði að geyma um fimmtíu lög tónskáldsins. Sagan segir að Sigfús hafi ekki verið sáttur við útgáfu þeirra systkina á Vegir liggja til allra átta en það var þá í annað skipti sem útgáfa lagsins var honum ekki að skapi.

Þótt Sigfús væri kominn á sextugs aldur dró síður en svo úr afköstum hans og e.t.v. má rekja það beint til þess að hann hætti sambandi sínu við Bakkus sem hann hafði átt samleið með um árabil, hann skemmti áfram með söng og undirleik, og hélt áfram að semja þótt ekki kæmi stórsmellirnir í stríðum straumum eins og áður. Árið 1973 kom t.d. út plata með Kór Barnaskóla Akureyrar þar sem önnur hlið plötunnar hafði að geyma Sigga og Loga, sögu í ljóðum eftir Margréti Jónsdóttur við lög Sigfúsar. Gömul lög fengu aukinheldur andlitslyftingu í meðförum nýrra listamanna, hljómsveitin Pelican gerði t.a.m. nýstárlega útgáfu af Litlu flugunni, Garðar Cortes, Þú og ég, Youshiyuki Tao og Jónas Þórir gerðu lögum hans skil og einnig komu út endurútgáfur af lögum sem söngvarar eins og Sigurður Ólafsson og Alfreð Clausen höfðu sungið á sjötta áratugnum en Svavar Gests hafði þá eignast útgáfurétt þeirra laga. Svavar notaði þá tækifærið og setti saman tólf laga plötu úr þeim lögum sem Sigfús hafði áður sungið á 78 snúninga plötum og höfðu verið ófáanlegar í áratugi, undir titlinum Sigfús Halldórsson syngur eigin lög en aukahljóðfærum var bætt inn í þær upptökur sem áður höfðu einungis haft að geyma píanóleik höfundarins. Önnur slík plata kom úr ranni Svavars um líkt leyti, hún bar titilinn Revíuvísur og á henni var að finna upptökur úr fórum Ríkisútvarpsins frá gullaldarárum revíu- og kabarettsýninganna sem Sigfús hafði leikið stórt hlutverk í sem píanóleikari, lagahöfundur, söngvari og leikari, og á þeirri tólf laga plötu lék hann á píanó í fimm laganna og var líklega lagahöfundur einhverra þeirra.

Sigfús ásamt Guðmundi Guðjónssyni

Um miðjan áttunda áratuginn hófst ennfremur samstarf þeirra Sigfúsar og Guðmundar Guðjónssonar tenórsöngvara en þeir fóru víða um land og héldu tónleika en sendu einnig frá sér tvær skífur með lögum Sigfúsar, sú fyrri kom út árið 1976 undir heitinu Guðmundur Guðjónsson syngur lög eftir Sigfús Halldórsson við undirleik höfundar en hin síðari kom út tveimur árum síðar undir titlinum Fagra veröld. Alls höfðu plöturnar tvær að geyma þrjátíu og eina perlu Sigfúsar. Þeir félagar fóru mjög víða með dagskrá sína og allt fram á níunda áratuginn, t.d. skemmtu þeir eitt sinn á þjóðhátíð og fóru einnig í nokkurra vikna ferð til Íslendingabyggða í Vesturheimi, og komu þar fram á tuttugu og fimm tónleikum. Þess má einnig geta að þeir Sigfús og Guðmundur komu m.a.s. fram á Vísnakvöldi Vísnavina og voru meðal flytjenda á kassettu sem kom út á vegum félagsskaparins.

Fleiri nótnabækur komu út með lögum Sigfúsar, aukin og endurbætt útgáfa af bókinni frá 1970 kom út 1974 og enn fleiri áttu eftir að koma síðar, um svipað leyti sagðist hann í blaðaviðtali hafa samið um tvö hundruð lög – flest þeirra auðvitað sönglög af ýmsu tagi en einnig hljómsveitaverk. Þá hafði verið settur á svið í tilefni af Listahátíð í Reykjavík 1974 söngkabarettinn Litla flugan, rómantískur kabarett saminn í kringum lagasmíðar Sigfúsar.

Á níunda áratugnum tóku svo við söngdagskrár með Friðbirni G. Jónssyni en einnig kom Sigfús fram með tónlistarfólki eins og söngkonunum Sigurveigu Hjaltested og Elínu Sigurvinsdóttur, og Graham Smith fiðluleikara. Og aðrir tónlistarmenn voru sem fyrr duglegir að gefa út lög Sigfúsar gömul og ný, árið 1983 kom út plata með Kristni Bergþórssyni í litlu upplagi þar sem hann söng fáein lög eftir Sigfús og Sigvalda Kaldalóns en þar voru á ferð minna þekkt lög, Sigfús lék sjálfur undir í sínum lögum. Árið 1981 kom Litla flugan út í flutningi Björgvins Halldórssonar á Valsplötunni Léttir í lund en Sigfús var sem fyrr segir mikill Valsari og studdi félag sitt alltaf vel. Hann var líka ánægður með þessa útgáfu af laginu en var ekki alveg eins ánægður með útgáfu Bubba Morthens á laginu Vegir liggja til allra átta sem til stóð að kæmi út á plötunni Hver er næstur? (1989) og lagði blátt bann við því. Ekki varð því úr að lagið heyrðist á plötunni en sættir tókust síðar í málinu og lagið kom út á safnplötunni Bubbi – Sögur 1980-90 sem kom út við lok aldarinnar en það var þá í þriðja sinn sem Sigfús var ósáttur við meðferð annarra á laginu. Sigfús var öllu sáttari við lagið í meðförum Björgvins og HLH-flokksins á plötu þeirra sem kom út 1989 en þar fór hann tangó-leiðina sem Sigfús lagði upp með í upphafi. Ekki fara sögur af því hvernig honum fannst lagið í flutningi t.d. Youshiyuki Tao og Þú og ég en fjölmargir aðrir hafa reyndar spreytt sig á þessu þekkta lagi í seinni tíð og hér má nefna ólíka flytjendur eins og hljómsveitina Brim, Frændkórinn, Guðrúnu Gunnars, Hönsu og Friðrik Karlsson, Helga Björns og Hermigervil.

Friðbjörn G. Jónsson, Sigfús og Elín Sigurvinsdóttir

Í tengslum við sextugs afmæli Sigfúsar haustið 1980 kom út samtalsbók skráð af Jóhannesi Helga en hún bar yfirskriftina Sigfús Halldórsson opnar hug sinn, sú seldist ágætlega og í anda vinsælda hans sjálfs. Á sjötugs afmæli hans var enn blásið í lúðra og var það með sérstaklega veglegum hætti en bæði Reykjavíkurborg og Kópavogsbær heiðruðu tónskáldið á þeim tímamótum, útgáfa bókarinnar Kveðja mín til Reykjavíkur var styrkt af Reykjavíkurborg en um var að ræða listaverka- og samtalsbók Jónasar Jónassonar við Sigfús en bókinni fylgdi jafnframt safnplata samnefnd henni með blöndu gamals og nýs efnis. Kópavogsbær lét ekki sitt eftir liggja og gaf út nótnabókina Sönglög Sigfúsar sem innihélt 32 lög, hugsanlega kom einnig út plata í tengslum við þá útgáfu en upplýsingar finnast ekki um hana. Og Sigfús kom við sögu á fleiri útgefnum bókum því hann var einn af viðmælendum Þóris S. Guðbergssonar í bókinni, Lífsgleði. Reyndar var Sigfús töluvert vinsæll viðmælandi enda skemmtilegur í tilsvörum og var því oft fenginn í skemmti- og spjallþætti bæði í útvarpi og sjónvarpi, þar sem píanóið og söngurinn var sjaldnast langt undan.

Tónlistafólk hélt áfram að heiðra tónskáldið með einum eða öðrum hætti. Árið 1993 kom til dæmis út þrettán laga plata með söng Egils Ólafssonar og Guðrúnar Gunnarsdóttur, sem bar nafnið Fagra veröld – platan hafði að geyma sex lög eftir Sigfús en hún var helguð Tómasi Guðmundssyni skáldi góðvini Sigfúsar.

Sigfús á forsíðu Vikunnar

Tveimur árum síðar, á sjötíu og fimm ára afmælinu kom út tvöföld plata með nokkrum einsöngvurum undir titlinum Blítt lét sú veröld: Sigfús Halldórsson 75 ára, alls fjörutíu og átta lög. Fyrri platan hafði að geyma söng ýmissa söngvara en síðari platan var sungin af Friðbirni G. Jónssyni einum en þeir Sigfús höfðu þá átt í góðu samstarfi um tíma, platan var hljóðrituð í Gerðarsafni í Kópavogi sem þá hafði nýlega verið opnað. Einnig voru haldir þar veglegir afmælistónleikar í tilefni 75 ára afmælisins, sem reyndar urðu tólf talsins vegna góðrar aðsóknar.

Ári síðar, á sjómannadaginn 1996 sendi svo DAS frá sér plötuna Við eigum samleið: Lög eftir Sigfús Halldórsson, eins konar safnplötu með sjómannalögum Sigfúsar en hann hafði samið fjölda laga sem hann ýmist tileinkaði eða samdi um sjómenn og baráttu þeirra. Með þessari plötu vildu sjómenn þakka fyrir sig en á henni komu við sögu Karlakór Reykjavíkur og félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands auk Sigfúsar sjálfs en það voru óútgefnar upptökur frá því um 1960.

Sjálfur var Sigfús ennþá að semja og skemmta nánast til síðasta dags en hann lést rétt fyrir jólin 1996 eftir að hafa þá átt í veikindum um nokkurra vikna skeið, hann hafði þá fengið hjartaáfall árið á undan og var ekki alveg heill heilsu eftir það.

Sigfúsar var minnst með margs konar hætti og haustið 1997 voru haldnir minningartónleikar um hann í Háskólabíói, á þeim tónleikum voru þrjú áður óbirt lög eftir hann frumflutt. Á heilu áratugunum hafa síðan þá komið út plötur tileinkaðar honum og stórafmælum hans, árið 2000 kom t.d. út platan Við eigum samleið þar sem þekktir dægurlagasöngvarar á borð við Egil Ólafsson, Helga Björns, Pál Rósinkrans og Ernu Gunnarsdóttur sungu þekktustu laga hans og 2010 kom út plata undir svipuðum formerkjum og með sömu söngvurum að hluta, sú plata bar titilinn Fúsi Halldórs: Vinsælustu lögin, og kom út í tilefni þess að hann hefði orðið níræður. Lögin voru þar í djassútsetningum Björns Thoroddsen gítarleikara en hann hafði þá verið með tónleikaröð í Salnum í Kópavogi í tilefni afmælisins en einnig voru tónleikar með Diddú og Bergþóri Pálssyni ásamt Jónasi Ingimundarsyni píanóleikara í Salnum, þá heiðraði Árnesingakórinn tónskáldið með tónleikum í Guðríðarkirkju og Tónlistarsafn Íslands sem þá var staðsett í Kópavogi tileinkaði sýningu sína Sigfúsi af sama tilefni. Þá eru enn ónefndir tónleikar sem Nemendaópera Söngskólans í Reykjavík stóð fyrir um líkt leyti.

Sigfús Halldórsson við píanóið

Minna varð en ella úr tónleikahaldi og útgáfumálum í tilefni af aldar afmæli Sigfúsar Halldórssonar haustið 2020 og á Covid-19 heimsfaraldurinn stærstan þátt í því en þó voru nokkrir tónleikar haldnir til að minnast þeirra tímamóta, Kammerkór Bústaðakirkju stóð t.d. fyrir slíkum tónleikum í Bústaðakirkju og einnig voru haldnir einsöngstónleikar í Borgarneskirkju, tónleikum í Salnum í Kópvogi þurfti að fresta sökum faraldursins.

Margar plötur komu út með lögum Sigfúsar Halldórssonar í lifanda lífi eins og fram hefur komið og á því hefur engin breyting orðið þótt hann sé sjálfur fallinn frá, árið 2004 sendi Landsvirkjunarkórinn frá sér plötuna Við eigum samleið: Lög eftir Sigfús Halldórsson (sem var þá þriðja platan með því nafni tileinkuðum lagasmíðum hans) en um var að ræða átján lög sem kórinn söng undir stjórn Páls Helgasonar, og árið 2007 sendi Tríó Reynis Sigurðssonar frá sér plötuna TRES: Sigfús Halldórsson, sextán lög tónskáldsins í djassútsetningum. Gera má ráð fyrir að slíkum heiðursútgáfum sé hvergi nærri lokið.

Sigfús hafði verið heiðraður með margvíslegum hætti um lífsleiðina, hann hafði verið gerður að heiðursborgara í Kópavogi 1994 og hlaut um tíma heiðurslistamannalaun, hann hafði einnig hlotið fálkaorðuna fyrir framlag sitt, verið heiðraður af knattspyrnufélaginu Val og sjómannadagsráði, hlotið heiðursverðlaun Landslagsins og hafði verið gerður að heiðursfélaga í The Icelandic Canadian Club of British Columbia.

Sönglög Sigfúsar Halldórssonar hafa haldið nafni hans á lofti, og eins og segir hér í upphafi er einkenni laga hans að engin ein útgáfa hefur stuðlað fremur að því að gera þau sígild fremur en önnur útgáfa, þannig eru til ótal útgáfur af Litlu flugunni, Við eigum samleið, Dagnýju, Tondeleyó og Játningu svo nokkur lög séu nefnd og eru þær allar góðar og gildar, sem sýnir fyrst og fremst að um tímalausar lagasmíðar er að ræða óháð vinsældum eða tónlistarsmekk hverrar kynslóðar fyrir sig.

Myndlist Sigfúsar er ekki eins þekkt og tónlistin en hana, einkum þó Reykjavíkurmyndir hans má sjá víða á veggjum heimila og stofnana um land allt. Þá myndskreytti Sigfús fjölda barna- og ljóðabóka, og jafnvel plötuumslög en í því samhengi má nefna plötuna Haustlauf með Jóni Kr. Ólafssyni. Sigfús myndskreytti nótnahefti sín gjarnan sjálfur og þá var hann jafnframt góður skrautskrifari og þekktur sem slíkur.

Lög Sigfúsar eru líkast til um tvö hundruð talsins og hafa líklega hátt í tuttugu þeirra komist á þann stall sem kalla mætti klassískar dægurperlur og í ótal útgáfum í gegnum tíðina, fjölmargir söngvarar, kórar og annað tónlistarfólk hefur gert þessum lögum skil og það eru engar ýkjur að segja að plöturnar skipta hundruðum sem geyma lög hans, hér má telja nokkur nöfn sem ekki hafa verið nefnd hér að framan eins og Skagfirsku söngsveitina, Léttsveit Reykjavíkur, André Bachmann, Björk Guðmundsdóttur, Toralf Tollefsen, Ólaf Magnússon frá Mosfelli, Andreu Gylfadóttur, Þorgeir J. Andrésson og Jóhann Már Jóhannsson svo einungis fáein nöfn eru nefnd en þá eru enn ótalin allir þeir kórar og tónlistarfólk sem hefur sungið lög tónskáldsins á tónleikum. Það er því ljóst að þótt ekki geti allir landsmenn í dag sungið lög Sigfúsar nótu fyrir nótu eða þekkt nafn tónskáldsins á bak við lögin þá þekkja samt sem áður allir lögin og þannig verður það sjálfsagt fyrir lífstíð.

Efni á plötum