Alfreð Clausen (1918-81)

Alfreð Clausen2

Alfreð Clausen

Alfreð Clausen (f. 1918) er einn af frumkvöðlunum í íslenskum dægurlagasöng ásamt Hauki Morthens, Svavari Lárussyni og Sigurði Ólafssyni svo nokkrir séu nefndir en hann var jafnframt fyrstur þeirra til gefa út hljómplötu.

Alfreð var farinn að koma fram í söngkvartett ríflega tvítugur að aldri um 1940 og var auk þess í sönghópnum Kátum piltum þar til þeir sameinuðust Fóstbræðrum árið 1944, nokkru síðar hóf hann að syngja opinberlega á söngskemmtunum og jafnvel í útvarpi ásamt öðrum efnilegum söngvara, Hauki Morthens en Alfreð lék þá iðulega undir á gítar. Brátt vöktu þeir það mikla eftirtekt að Bjarni Böðvarsson bauð þeim að syngja með hljómsveit sinni sem þeir og gerðu um tíma. Í kjölfarið hóf Alfreð að syngja með öðrum sveitum, eins og hljómsveitum Björns R. Einarssonar, Magnúsar Randrup, Svavars Gests, Aage Lorange og fleirum.

Alfreð varð fljótlega virtur dægurlagasöngvari en fram að því hafði söngur við hljómsveitaundirleik lítt tíðkast hérlendis, kór- og einsöngslög höfðu til að mynda eingöngu komið út á hljómplötum og því varð það sögulegur atburður hérlendis þegar Alfreð (þá orðinn þrjátíu og fjögurra ára) söng inn á fyrstu plötu sína 1952 en hún var fyrsta platan með dægurlagasöng, sem gefin var út hérlendis og markaði þannig tímamót. Á þessari plötu, sem var 78 snúninga og gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur, voru tvö lög, lagið Kveðjustund sem Alfreð söng og hins vegar ósungið lag, Frá Vermalandi þar sem Gunnar Ormslev saxófónleikari lék aðalhlutverkið, þess má geta að það lag var hið eina með Gunnari sem gefið var út á meðan hann lifði. Síðar sama ár kom út önnur tveggja laga plata með honum sem hafði að geyma lögin Æskuminning og Manstu gamla daga sem varð æ síðan eitt af einkennislögum Alfreðs. Bæði nutu þau þó nokkurra vinsælda, einkum fyrrnefnda lagið í upphafi.

Áður en árið var úti (1952) kom þriðja platan út og á næstu tveimur árum komu út vel á þriðja tug platna með söng Alfreðs, plötur sem styrktu vinældir hans og urðu stórsmellir þess tíma, þetta voru lög sem urðu sígild eins og Luktar-Gvendur, Ágústnótt, Ömmubæn (sem Bjarni Ara gerði aftur vinsælt löngu síðar), Lagið úr „Rauðu myllunni“ [Moulan rouge] og Þórður sjóari, svo dæmi séu tekin en einnig var þar að finna lagið Gling gló sem Björk Guðmundsdóttir gerði ódauðlegt mörgum áratugum síðar. Einhverjar plötur með Alfreð komu ennfremur út á Norðurlöndunum. Nokkrar þeirra platna sem komu út á þessum árum voru reyndar endurútgáfur en um miðjan sjötta áratuginn voru einmitt 45 snúninga plöturnar (7 tommurnar) að koma til sögunnar og því voru lög sem áður höfðu komið út á 78 snúninga plötum endurútgefnar á 45 snúninga plötum, og voru fjögurra laga í stað tveggja áður. Fjögurra laga plata (Íslenzkir tónar EXP-IM 1) með söng Alfreðs og kom út 1954 er að öllum líkindum sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og jafnvel öllum Norðurlöndunum.

Söngur Alfreðs naut sem fyrr segir mikilla vinsælda og varð til að auka virðingu fyrir þessu nýja söngformi, dægurlagasöng og má segja að hann hafi þannig rutt brautina fyrir Hauk Morthens og aðra sem komu í kjölfarið og var Alfreð til að mynda kjörinn dægurlagasöngvari ársins 1953. Og það er ákveðinn samhljómur sem birtist í umfjöllun um söng hans, þar sem þægileg rödd hans er sögð algjörlega laus við tilgerð ólíkt mörgum þeirra sem voru að koma á sjónarsviðið um þetta leyti en heilt yfir naut dægurlagasöngur almennt ekki mikillar virðingar til að byrja með þótt hún nyti vinsælda, að Alfreð og Hauki undanskildum.

Alfreð ásamt Hauki Morthens (t.v.)

Alfreð ásamt Hauki Morthens (t.v.)

Á næstu árum sendi Alfreð frá sér enn fleiri plötur þótt fjöldi þeirra væri ekki í líkingu við þann sem kom út á árunum 1953 og 54 en þá tíðkaðist einnig að söngvarar skiptu með sér plötum, þannig komu út vinsælar plötur þar sem Alfreð söng með Ingibjörgu Þorbergs, Sigrúnu Jónsdóttur, Sigurð Ólafsson, Svavar Lárusson og fleirum, og ekki má gleyma samstarfi hans við búktalarann Baldur Georgs Tackás (Baldur og Konna) en þeir gáfu út nokkrar plötur sem nutu mikilla vinsælda meðal barna (og fullorðinna), fullyrða má að þar er um að ræða fyrsta barnaefnið sem gefið var út á plötum hérlendis. Allar voru þessar plötur gefnar út af Íslenzkum tónum og Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur sem áður er nefnd. Alfreð Clausen hætti að mestu dægurlagasöng í lok sjötta áratugarins þegar aðrir söngvarar eins og títtnefndur Haukur Morthens, Ragnar Bjarnason, Erla Þorsteins og fleiri tóku við keflinu, en á árunum 1962-64 komu út nokkrar litlar plötur með honum þar sem hann söng m.a. syrpur með Sigrúnu Ragnarsdóttur.

Með réttu mætti segja að Alfreð hafi fallið í gleymsku hjá þjóðinni eftir miðjan sjöunda áratuginn þegar bítla- og síðar hippatónlistin tók yfir en með útgáfu safnplötunnar Manstu gamla daga (1978) var nafn hans hafið upp til virðingar á nýjan leik, önnur samnefnd safnplata kom út 1996 og hafa lög hans aukinheldur komið út á ýmsum safnplötuseríum á síðari árum eins og Óskastundinni, Óskalögum, Aftur til fortíðar, Stóru bílakassettunum, og Svona var…, sem og safnplötunum Gullmolum (1997), Manstu gamla daga (2007), Óskalögum sjómanna (2007), Rökkurtónum (1987), Síldarævintýrinu (1992), Strákunum okkar (1994), Það gefur á bátinn (1981), Þrjátíu vinsælum lögum frá 1950-60 (1977) og Þrjátíu vinsælustu söngvurunum 1950-75 (1978) en einnig kom söngur hans út á plötunni Útvarpsperlum með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, sem kom út 1999.

Alfreð var tvígiftur og átti sjö börn en engin þeirra hafa þó lagt fyrir sig sönginn svo kunnugt sé. Alfreð samdi ennfremur sjálfur tónlist en ekki er víst að nokkur lög eftir hann hafi komið út á plötum. Sem fyrr segir hætti hann að syngja um eða nokkru eftir 1960 og sneri sér þá að iðn sinni en hann var málari. Alfreð lést haustið 1981, sextíu og þriggja ára gamall.

Efni á plötum