Afsakið! (1983-84)

afsakid

Afsakið að hluta til

Hljómsveitin Afsakið! starfaði allavega á árunum 1983-84 en hún var eins konar systursveit fönksveitarinnar Iceland seafunk corporation. Afsakið! mun hafa innihaldið þegar mest var, tólf til fjórtán manns.

Sveitin var stofnuð vorið 1983 og skráði sig til leiks í Músíktilraunum Tónabæjar um haustið, sem þá voru haldnar í annað skiptið. Aldrei reyndi þó á sveitina því hún mætti ekki til leiks af einhverri ástæðu.

Afsakið! gaf út eitt lag á ferli sínum, lagið Dansaðu, sem rataði á safnplötuna Tvær í takt (1984) en það fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og DV. Meðlimir sveitarinnar voru þá Jón Borgar Loftsson trommuleikari, Þorsteinn Gunnarsson trommuleikari, Styrmir Sigurðsson hljómborðsleikari, Einar Sigurðsson bassaleikari, Hákon Möller gítarleikari, Einar Bragi Bragason saxófónleikari, Birgir Jóhann Birgisson hljómborðsleikari, Pétur Már Jónsson söngvari og Hildur Júlíusdóttir söngvari.

Þess má til gamans geta að lag sveitarinnar var fyrsta íslenska lagið sem vermdi toppsæti vinsældarlista Rásar 2, sem þá var nýr af nálinni.

Aðrir sem nefndir hafa verið sem meðlimir sveitarinnar eru Gulli [?] ásláttarleikari, Anna María [?] og Anna Pála [?] sem sungu raddir, Páll Hreinsson og Helgi Pálsson blásarar og Eiður Arnarsson bassaleikari.