Iceland seafunk corporation (1982-84)

iceland-seafood-corpiration1

Iceland seafunk corporation

Fusion sveitin Iceland seafunk corporation (ISC) skemmti bræðingsþyrstum áheyrendum um tveggja ára skeið en náði þó ekki að gefa út efni á plötu.

Sveitin var stofnuð haustið 1982 og gekk fyrstu vikurnar undir nafninu Friðbjörn og fiskiflugurnar. Meðlimir hennar í byrjun voru Styrmir Sigurðarson hljómborðsleikari, Lárus Árni Wöhler bassaleikari, Óskar Sturluson gítarleikari og Þorsteinn Gunnarsson trommuleikari. Þeir voru allir á aldrinum fimmtán til sautján ára.

Einar Bragi Bragason saxófónleikari bættist í hópinn í desember og fljótlega eftir áramótin 1982-83 hóf sveitin að leika á opinberum vettvangi, oft með Mezzoforte sem þá hafði náð töluverðum alþjóðlegum vinsældum. Sveiti vakti heilmikla athygli fyrir spilamennsku sína en samhliða þessari sveit voru þeir ISC-liðar í hliðarverkefninu Afsakið!.

Margir muna enn eftir því að Iceland seafunk corporation endaði prógram sitt oft á Kántríbæ Hallbjarnar Hjartarsonar en Einar Bragi annaðist sönginn í þeim slagara.

iceland-seafood-corporation2

Iceland seafunk corporation 1983

Um sumarið 1983 bættist annar hljómborðsleikari í hópinn, Birgir Jón Birgisson, en um svipað leyti hættu þeir Óskar og Lárus. Í þeirra stað komu Hákon Möller gítarleikari og Einar Sigurðsson bassaleikari. Mannabreytingum var ekki lokið hjá Iceland seafunk corporation því veturinn 1983-84 bættist þeim liðsauki þegar Gísli Skúlason slagverksleikari gekk í sveitina. Einnig lék Abdou Dhour stundum með þeim en hann var einnig slagverksleikari. Sveitin var mest átta manna.

Iceland seafunk corporation hætti störfum um haustið 1984 og sumir meðlimir hennar áttu síðar eftir að birtast í misþekktum sveitum síðar meir.