Svavar Lárusson (1930-)

Svavar Lárusson3

Svavar Lárusson

Þótt söngferill Svavars Lárussonar hafi spannað fremur stuttan tíma er hann einn af frumkvöðlum dægurlagatónlistar á Íslandi, en hann varð þeim mun meira áberandi á öðrum sviðum.

Norðfirðingurinn Svavar Lárusson (f. 1930) var orðinn nokkuð þekktur söngvari með danshljómsveitum (m.a. með Hljómsveit Gunnars Egilson) þegar honum bauðst vorið 1952 að syngja inn á plötur hjá Tage Ammendrup sem þá rak hljómplötuútgáfuna Íslenzka tóna en hún hafði þá starfað í stuttan tíma.
Svavar fór í þeim tilgangi til Noregs og þar voru tekin upp sex lög sem komu út um haustið. Lögin, sem komu út á þremur 78 snúninga plötum, voru auglýst sem fyrstu íslensku danslagaupptökurnar sem gefnar væru út, og nutu þær strax nokkurra vinsælda en undirleik annaðist norsk hljómsveit, Sy-We-La-kvintettinn. Ein platnanna, sem hafði að skarta lögum á ensku (Cara, Cara Bella / On the morning side of the mountain), var ennfremur gefin út í Noregi. Hin lögin fjögur sem öll voru á íslensku, voru Fiskimannaljóð frá Capri, Sólskinið sindrar, Ég vildi ég væri og Hreðavatnsvalsinn.

Að minnsta kosti ein plata kom út til viðbótar áður en árið var úti (1952) en hún hafði að geyma lögin Í Mílanó og Út við Hljómskála, þar var kvartett Jan Morávek sem lék undir en sú plata markaði það upphaf að vera sú fyrsta sem pressuð var á Íslandi eða „sem tekin er til herðingar“ eins og sagt var í blöðum þess tíma.

Snemma árs 1953 bárust þær fréttir að lög Svavars hefðu verið leikin í norska ríkisútvarpinu og að Hreðavatnsvalsinn nyti vinsælda hjá norskum sjómönnum, í þarlendum óskalagaþætti. Hreðavatnsvalsinn var síðar gefinn út í Noregi með norskum söngvara.

Fleiri plötur komu út, m.a. með lögunum Svana í Seljadal og Til þín en þar lék kvartett Aage Lorange undir, sú plata var tekin upp á heima eins og áðurnefnd plata með kvartett Jan Morávek. Einnig komu út endurútgáfur af lögunum sem tekin voru upp í Noregi.

Þekktasta uppákoman í kringum Svavar og tónlistarferil hans er án nokkurs vafa þegar plata með laginu Ég vildi ég væri, var brotin í beinni útsetningu í útvarpinu. Ástæðan var sú að hlustendur kusu um vinsældir og óvinsældir lags í útvarpsþætti sem Benedikt Gröndal (síðar forsætisráðherra) sá um en þetta lag (Ég vildi ég væri) varð fyrir því að vera kosið það óvinsælasta, skýringuna er líklega að finna í textanum þar sem orðið „hænuhanagrey“ kemur fyrir. Svavari sárnaði þetta nokkuð enda lagið sungið af honum og margir voru aukinheldur á því að hann hefði sjálfur samið textann, sem var þó ekki heldur sjálfur dagskrárgerðarmaðurinn – Benedikt Gröndal. Það breytir því þó ekki að lagið var mjög vinsælt og varð reyndar einnig í öðru sæti keppninnar sem vinsælasta lagið.

Svavar hafði verið í íþróttum og til þeirra hneigðist hugur hans, að loknu íþróttakennaranámi hér heima fór hann í nám til Þýskalands í íþróttafræðum 1953 (upphaflega hafði hann ætlað sér í tónlistarnám), og síðar í framhaldsnám þar sem m.a. tenging tónlistar og íþrótta komu við sögu. Í Þýskalandi söng hann inn á nokkrar plötur við undirleik Monty tríósins en á þeim var í fyrsta skipti leikið á hammond orgel á íslenskri plötu, auk þess var notast við bergmálstæknina sem þótti merkileg nýjung í hljóðverstækninni. Að minnsta kosti ein platnanna hafði að geyma margradda söng Svavars sem einnig þótti merkilegt í þá daga.

Samhliða íþróttafræðinámi sínu í Þýskalandi var hann viðloðandi tónlist, lærði á gítar og líklega kom hann allavega einu sinni heim til Íslands og söng opinberlega á tónleikum.

Að námi loknu kom Svavar heim til Íslands (1956) og hélt hann nokkuð til á heimaslóðum á Norðfirði þar sem hann fékkst við kennslu, hann lék með ýmsum hljómsveitum eystra eins og Hljómsveit Höskuldar Stefánssonar og starfrækti um tíma eigin sveit, Danshljómsveit Svavars Lárussonar.

Svavar dvaldi á Spáni einn vetur og nam gítarleik og spænsku en flutti síðan heim til Íslands og lék eitthvað með hljómsveitum á höfuðborgarsvæðinu. Hann fékkst lítið við tónlist eftir að hann flutti suður og sneri hann sér að öðrum hlutum sem átti hug hans æ síðan, kennslu- og stjórnunarstörf við Samvinnuskólann að Bifröst og fararstjórn erlendis fyrir ferðaskrifstofur. Einnig fékkst hann um tíma við þýðingar. Svavar var eitthvað viðloðandi gítarkennslu.

Einhver laga Svavars höfðu verið endurútgefin þegar fjögurra laga 45 snúninga plötur komu til sögunnar (1954), þar af á splittplötu með Alfreð Clausen en síðan hafa lög hans komið út á safnplötum eins og Aftur til fortíðar 50-60 I, (1990) Aftur til fortíðar 50-60 II (1990), 100 íslensk lög í ferðalagið (2009), 100 íslenskar ballöður (2008), Manstu gamla daga (2007), Óskalögin (1997), Síldarævintýrið (1992), Stóra bílakassettan I (1979), Stóra bílakassettan VI (1980), Strákarnir okkar (1994), Svona var 1952 (2005), Svona var 1953 (2005), Svona var 1954 (2005), Það gefur á bátinn (1981), Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 (1977) og Þrjátíu vinsælustu söngvararnir 1950-75 (1978). Svavar er því iðulega talinn með vinsælustu söngvurum á upphafsárum dægurlagatónlistar á Íslandi þrátt fyrir fremur stuttan söngferil eins og fyrr segir.

Efni á plötum