Svartur pipar (1991-94)

Svartur pipar-1

Svartur pipar

Svartur pipar var hljómsveit, líklegast stofnuð haustið 1991. Ekki liggja fyrir upplýsingar um stofnmeðlimi hennar en Hermann Ólafsson (Lótus o.fl.) var fyrsti söngvari sveitarinnar.

Sumarið 1992 gekk söngkonan Margrét Eir Hjartardóttir til liðs við sveitina en hún hafði unnið Söngkeppni framhaldsskólanna árið áður. Aðrir meðlimir hennar lengst af voru Gylfi Már Hilmisson slagverksleikari og söngvari, Ari Daníelsson saxófónlekari, Veigar Margeirsson trompet- og hljómborðsleikari, Ari Einarsson gítarleikari, Jón Borgar Loftsson trommuleikari og Hafsteinn Valgarðsson bassaleikari.

Lag með sveitinni kom út á safnplötunni Bandalög 5 (þá með Hermann sem aðalsöngvara) og sama ár flutti sveitin lagið Mishapp, eftir Ara Einarsson gítarleikara, í Landslagskeppninni sem þá var haldin í fjórða og síðasta skiptið, þá var Margrét Eir tekin við keflinu.

Sveitin spilaði alla tíð mikið á skemmtistöðum borgarinnar og var nokkuð áberandi sem slík, og 1993 komu út lög á safnplötunum Blávatn og Bandalög 6: Algjört skonster.

Haustið 1993 gekk Karl Olgeirsson til liðs við sveitina en Veigar og Gylfi voru þá hættir. Litlar sögur fara af sveitinni eftir það en hún var þó enn starfandi vorið eftir (1994), líklega hefur starfsemi hennar þá smám saman lognast útaf um sumarið.