Adda Örnólfs (1935-2020)

Adda Örnólfs

Stjarna Öddu Örnólfs söngkonu skein e.t.v. ekki eins hátt og Erlu Þorsteins og annarra söngkvenna samtíðarinnar en söngur hennar kom þó út á fjölmörgum plötum á sjötta áratugnum, og lagið Bella símamær hefur fyrir löngu orðið sígilt.

Adda (Arnbjörg Auður Örnólfsdóttir) fæddist 1935 á Suðureyri við Súgandafjörð en fluttist ung ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur. Átján ára gömul var hún „uppgötvuð“ á tónleikum sem Kristján Kristjánsson og sveit hans, KK-sextett stóð fyrir sumarið 1953 en þá var til siðs að leyfa ungum og efnilegum söngvurum að spreyta sig á slíkum samkomum. Þess má geta að Elly Vilhjálms þreytti einnig frumraun sína á þessum tónleikum. Frammistaða Öddu á tónleikunum varð til þess að vekja á henni athygli og áður en árið var liðið hafði hún sungið inn á plötu ásamt Ólafi Briem við undirleik tríós Ólafs Gauks Þórhallssonar. Á þeirri plötu var að finna tvö lög, Indæl er æskutíð og Íslenzkt ástarljóð en fyrrnefnda lagið (ítalskt lag) er hið sama og Bjössi á mjólkurbílnum, sem Haukur Morthens gaf út um svipað leyti, en með öðrum texta. Söngur þeirra varð strax þekktur og Adda söng nokkuð með KK-sextett í kjölfarið, hljómsveit Magnúsar Randrup og einhverjum öðrum sveitum einnig.

Síðar þennan sama vetur, 1953-54 komu út tvær plötur þar sem þau Ólafur sungu saman en þær voru gefnar út af Hljóðfæraverzlun Sigríðar Helgadóttur (HSH) eins og allar plötur hennar héðan í frá en Svavar Gests og Tónika-útgáfan hafði gefið út fyrstu plötuna. Á plötunum tveimur er að finna fjögur lög, Nótt í Atlavík, Togarar talast við, Bella símamær og Kom þú til mín og nutu öll lögin nokkurra vinsælda en sínu mest þó Bella símamær sem Björk Guðmundsdóttir og Tríó Guðmundar Ingólfssonar tóku upp á sína arma löngu síðar og gerðu ódauðlegt. Lagið Kom þú til mín á rætur að rekja til dægurlagakeppni SKT en Adda átti eftir að koma við sögu í þeirri keppni síðar.

Adda Örnólfs og Ólafur Briem

Adda Örnólfs og Ólafur Briem

1955 kom út ein plata þar sem Adda söng ein og lék B.G kvintettinn undir á þeirri plötu, það varð eina platan sem hún söng ein inn á en á henni er að finna lögin Kæri Jón og Töfraskórnir.

Næsta ár (1956) komu hins vegar út fjórar plötur þar sem Adda söng ýmist með áðurnefndum Ólafi Briem, Birni R. Einarssyni og Smárakvartettnum. Þær plötur seldust ágætlega en líklega ekki nóg til að Adda yrði ein af þeim fremstu í dægurlagasöngnum. Eftir það má segja að Adda hafi dregið sig í hlé þótt ekki hafi hún alveg hætt að koma fram, hún söng t.a.m. Eitthvað á áttunda áratugnum á söngskemmtunum.

Allar plötur Öddu Örnólfs voru 78 snúninga plötur en engar plötur með henni voru endurútgefnar þegar 45 snúninga platan hélt innreið sína og í raun voru lög hennar óaðgengileg næstu kynslóðum allt þar til safnplatan Þrjátíu vinsælustu söngvararnir 1950-75 kom út ríflega tuttugu árum síðar en hún hafði að geyma eitt lag með Öddu sem má segja að hafi þá legið í gleymsku.

Heldur rættist þó þegar geisladiskatæknin kom til sögunnar og Sena eignaðist útgáfurétt laga hennar en síðan þá hafa nokkrar safnplötur komið út sem innihalda söng Öddu, þar má nefna 100 íslenskar ballöður (2008), Manstu gamla daga (2007), Óskastundin 2 (2003) og Svona var það… – seríuna.

Adda Örnólfs lést haustið 2020, á áttugasta og sjötta aldursári.

Efni á plötum