Söngfélag Félags eldri borgara í Reykjavík (1986-)

Söngfélag Félags eldri borgara í Reykjavík 1996

Söngfélag Félags eldri borgara í Reykjavík (Söngfélag FEB) hefur starfað innan Félags eldri borgara í Reykjavík síðan haustið 1986 og sungið víða um land og erlendis reyndar líka, kórinn hefur gefið út eina kassettu.

Söngfélag FEB var stofnað haustið 1986 og var kórstjóri fyrsta árið Kjartan Ólafsson en nafn sitt hlaut félagið reyndar ekki fyrr en ári síðar, strax í upphafi gengu á milli þrjátíu og fjörutíu eldri borgarar til liðs við kórinn og þeim átti einungis eftir að fjölda því sá fjöldi fór líkast til upp í um sjötíu þegar mest var, innan kórsins voru einnig stundum starfandi minni einingar s.s. kvartettar og tvöfaldir kvartettar – og um tíma var m.a.s. starfandi karlakór innan félagsins. Eins og gefur að skilja var meiri hreyfing á fólki í og úr kórnum heldur en hjá yngri kórum og er meðalaldur hans vel yfir meðallagi, dæmi voru jafnvel um söngmeðlimi sem voru yfir nírætt og þannig söng t.d. einn meðlima (Stefán Sigurðsson) með kórnum þar til hann var á nítugasta og fimmta aldursári.

Söngfélag FEB í Kanada

Kristín Sæunn Pjetursdóttir tónmenntakennari tók við af Kjartani Ólafssyni árið 1987 og stjórnaði kórnum til ársins 2010 að minnsta kosti. Í tilefni tíu ára afmælisins hafði komið út kassetta með kórnum undir hennar stjórn en litlar upplýsingar er að finna um þá útgáfu. Ekki liggur fyrir hver hélt utan um kórstarfið á árunum 2010 til 2015 en Gylfi Gunnarsson hafði þá tekið við og stjórnaði kórnum allt fram til vorsins 2020 þegar Covid-heimsfaraldurinn skall á af fullum þunga. Nokkurt hlé varð á starfsemi kórsins sem eðlilegt er en Kristín Jóhannesdóttir hefur haft með kórstjórnina að gera eftir að kórinn tók til starfa á nýjan leik.

Söngfélag FEB var undir stjórn Kristínar Pjetursdóttur duglegt við tónleikahald og fór víða um þótt hann héldi tónleika mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu, hann fór þá í tónleikaferðir víðs vegar um landið og reyndar einnig til útlanda en kórinn söng m.a. í Finnlandi, Færeyjum, Englandi og svo á Íslendingahátíð á Gimli í Kanada svo dæmi séu tekin. Kórastarfið breyttist töluvert með nýjum stjórum og hefur á síðari árum verið hefðbundnara að því leyti að söngfélagið syngur mestmegnis á söngfundum á heimavelli í Stangarhyl en stöku sinnum á tónleikum innan borgarmarkanna.

Efni á plötum