Móa [1] (1972-)

Móeiður Júníusdóttir

Söngkonan Móeiður Júníusdóttir (Móa) spratt fram á sjónarsviðið með skjótum hætti eftir Söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin var þá í fyrsta skipti vorið 1990, hún gerði það gott í bransanum í nokkur ár, m.a. í meiktilraunum erlendis sem hluti af dúettnum Bong og síðar sem sólóisti, en hvarf með jafn skjótum hætti og hún hafði birst þegar hún sneri baki við söngnum og nam guðfræði.

Móeiður fæddist vorið 1972 í Reykjavík en bjó í Kópavogi frá ellefu ára aldri. Hún er af tónlistarfólki komin, ömmusystir hennar var t.a.m. Guðmunda Elíasdóttir óperusöngkona og móðir Móu söng í kórum á sínum yngri árum, þrjú systkina hennar hafa einnig fengist við tónlist, Ásgerður systir hennar er þekkt mezzósópran söngkona og tvíburabræður hennar, Kristinn og Guðlaugur hafa starfað í þekktum hljómsveitum, m.a. með Móu.

Móa hóf að læra á píanó um sex ára aldur og um svipað leyti samdi hún sitt fyrsta lag, söngferill hennar hófst þó eiginlega ekki fyrr en vorið 1990 þegar hún hafnaði í öðru sæti Söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin var þá í fyrsta sinni. Hún hafði þá reyndar aðeins komið fram og sungið djassstandarda við undirleik Karls Olgeirssonar sextán ára gömul og tekið þátt í söngvakeppni innan Menntaskólans í Reykjavík vorið 1989 og sigrað hana, en þá var hin eiginlega Söngkeppni framhaldsskólanna ekki komin til sögunnar. Sagan endurtók sig ári síðar, Móeiður sigraði undankeppni í MR og hafnaði síðan í öðru sæti aðalkeppninnar sem fyrr segir þar sem hún söng lagið Bláu augun þín og vakti mikla athygli fyrir framlag sitt sem varð reyndar nokkuð umdeilt en hún var þá rétt tæplega átján ára gömul.

Páll Óskar Hjálmtýsson hafði í þessari sömu keppni endað í þriðja sæti og fljótlega eftir hana hófu þau samstarf þar sem þau komu fram ásamt nokkrum tónlistarmönnum á svipuðum aldri, ýmist undir nöfnunum Palli, Móa og Búðingarnir eða Palli, Móa og Þingvallasveitin, enda lék sveitin margsinnis á Hótel Valhöll á Þingvöllum sumarið 1990, sveitin gekk þó oftast undir nafninu Jazzband Reykjavíkur og lék djass, blús og millistríðsáratónlist víða um höfuðborgarsvæðið einnig s.s. í Djúpinu. Móeiður kom jafnframt stundum fram eins síns liðs.

Móa var þarna farin að læra söng við Tónlistarskólann í Reykjavík en fyrsti kennarinn hennar hafði verið frænka hennar, Guðmunda Elíasdóttir sem fyrr er nefnd. Hún var þarna komin á tónlistarkortið og farin að vekja nokkra athygli, 1991 kom hún oft fram ásamt Karli Olgeirssyni á Blúsbarnum, Hótel Borg og víðar og um veturinn 1991-92 var hún ein af þeim sem sungu í tónlistarsýningunni Aftur til fortíðar á Hótel Íslandi, þar var hún án nokkurs vafa stjarna sýningarinnar og söng einnig í leiksýningunni Fugl í búri á vegum leikfélagsins Snúðs og Snældu.

Móeiður 1993

Eins og sjá má af upptalningunni hafði Móeiður strax mikið að gera og ekki minnkaði það eftir að hún lauk stúdentsprófi vorið 1992. Segja má að hún hafi þá gerst atvinnutónlistarmaður, hún hélt áfram að syngja djass og kom þá einnig fram í sjónvarpi, hún hóf tónlistarsamstarf sitt með þáverandi kærasta Eyþóri Arnalds sem var þá þekktur sem sellóleikari og ein aðalsprauta hljómsveitarinnar Todmbobile, samstarf þeirra hlaut nafnið Bong en þeirra tími var ekki alveg kominn þegar hér var komið sögu. Móeiður fékkst við fleiri verkefni á þessum tíma, hún flutti (ásamt Eyþóri) lagið Án þín (Komdu til mín) í kvikmyndinni Stuttur frakki en Eyþór hélt utan um tónlistina í þeirri mynd, en auk þess lék hún smáhlutverk í myndinni, þá söng hún lítillega á plötum Jet Black Joe og Megasar, og í þremur lögum á barnaplötunni Hókus pókus með Stóru börnunum eins og þau titluðu sig.

Það var svo um haustið 1993 sem fyrsta plata Móeiðar kom út en hún hafði verið hljóðrituð á fjórum tímum í Gerðubergi að næturlagi, tekin höfðu verið upp tuttugu lög en sextán þeirra rötuðu á plötuna. Platan fékk titilinn Móa syngur lögin við vinnuna og var nokkuð í anda þess sem hún hafði verið að gera, þ.e. djassskotnar dægurlagaperlur frá ýmum tímum, m.a. Bláu augun þín sem hún hafði sungið í Söngkeppni framhaldsskólanna. Henni til fulltingis voru nokkrir ungir djassleikarar á hennar reki og voru notaðir gamlir Telefunken míkrófónar við upptökurnar til að ná þeirri gömlu hljóðmynd sem hæfðu lögunum. Lögin við vinnuna voru gefin út af Smekkleysu en platan hlaut engar sérstakar viðtökur gagnrýnenda, hún fékk varla nema sæmilega dóma í Pressunni og Eintaki en þó góða dóma í Morgunblaðinu.

Móa hélt áfram að syngja djassperlur á Hótel Sögu og víðar á höfuðborgarsvæðinu og um sumarið 1993 hafði hún í fyrsta sinn sungið á dansleik þegar hún kom fram með hljómsveitinni Gleðigjöfunum og André Bachmann á Sögu en hún átti eftir að syngja með þeirri sveit margoft síðar.

Bong, með sitt danspopp sem var harla ólíkt því sem Móa hafði gert fram að þessu, hafði farið af stað með lög á safnplötum sumarið og haustið 1993 en þegar Todmobile fór í pásu um áramótin 1993-94 fór dúóið á fullt skrið, sveitin hóf að koma fram opinberlega, fyrst aðeins tvö á sviði en svo bættist í hópinn og um sumarið  1994 fór fullskipuð hljómsveitin í stutta en fræga tónleikaferð ásamt hljómsveitinni Bubbleflies en um haustið sendi sveitin frá sér breiðskífuna Realease.

Bong lék einnig á sveitaböllum og fór reyndar sömuleiðis til London og lék þar þar Íslandskynningarsamkomu. Sveitin átti lög á safnplötum og Steinar Berg útgefandi gerði nú tilraunir til að koma sveitinni á markað og framfæri erlendis en um þetta leyti var þessi tegund tónlistar búin að njóta vinsældar einkum á Bretlandseyjum. Þau Móa og Eyþór voru ennfremur í öðrum verkefnum s.s. við að vinna tónlist fyrir margmiðlunardisk sem fyrirtækið Oz sendi frá sér en Eyþór var það í forsvari ásamt fleirum. Fleiri leikhúsverkefni skutu upp kollinum og þau skötuhjú sáu t.d. um hljóðmyndina í leikritinu Í djúpi daganna sem sett var á svið í Íslenska leikhúsinu.

Móa

Bong sendi frá sér fleiri lög á safnplötum og einnig nokkrar smáskífur fyrir erlendan markað en þá hafði fækkað aftur í sveitinni og störfuðu þau tvö saman eftir það enda hafði aukamannskapurinn fyrst og fremst verið fyrir lifandi spilamennsku. Meiktilraunir Bong heppnuðust því ekki sem skyldi og um áramótin 1996-97 var sveitin alveg hætt, Eyþór var þá kominn á kaf í vinnu í tengslum við Oz en Móa lagði fyrirtækinu lið, m.a. með því að syngja í beinni útsendingu á Internetinu en það var í eitt fyrsta skiptið sem slíkt var gert. Svo virðist sem lagið Devotion, sem Bong hafði gefið út á smáskífu, hafi komið aftur út í nafni Móeiðar árið 1997.

Móa var um það leyti sjálf farin að leggja drög að sólóferli og farin að semja efni fyrir hann, hún hóf að vinna með Bjarka Jónssyni og stofnaði síðan hljómsveit utan um það verkefni en sú sveit kallaðist eftir því sem best verður komist, einfaldlega Móa. Sveitin hóf að flytja efni Móu og prufuupptökur voru gerðar til að senda útgáfufyrirtækjum, Móa dvaldist á þessum tíma mestmegnis í London og var efnið unnið þar. Einhver lög komu jafnframt út á safnplötum en í árslok 1997 gerði Móeiður sex platna samning við bandaríska útgáfufyrirtækið Tommy boy, hún hafði þá þegar verið komin með samningsdrög við annað fyrirtæki en TB varð ofan á.

Næstu tvö árin kom síðan út fjöldi smáskífa með Móu, sú fyrsta líklega í Japan snemma vors 1998 en síðan víðar um heim, í Evrópu, Asíu, Bandaríkjunum og jafnvel Ástralíu. Þetta voru smáskífur af lögunum Memory cloud og Joy & pain en síðan kom breiðskífan Universal út, fyrst í Evrópu (þ.m.t. Íslandi á vegum Spors) og síðan í Bandaríkjunum 1999 en útgáfunni seinkaði töluvert vestan hafs af því er virðist vegna þess að útgáfan virðist ekki hafa gert upp við sig hvoru megin Atlantsála áherslurnar áttu að liggja. Samhliða þessum útgáfum kom Móa og sveit hennar fram víða um heim, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, m.a. á Popcom ráðstefnunni í Köln sumarið 1998 og á Bretlandstúr sama haust, þá komu þau einnig eitthvað fram í sjónvarpi t.d. í Bretlandi og Finnlandi. Universal hlaut nokkuð misjafna dóma en heilt yfir voru þeir á jákvæðu nótunum, hér heima fékk hún fremur slaka dóma í Fókusi en ágæta í tímaritinu Veru.

Af einhverjum ástæðum fjaraði smám saman undan meikdraumum Móu og líklega varð um einhvers konar samkomulag að ræða um að hún fengi sig lausa undan útgáfusamningnum. Hún kom fram eitthvað hér heima, m.a. á tónleikum tengdum gerð kvikmyndarinnar Popp í Reykjavík sumarið 1998, og sumarið 1999 var Móa gengin til liðs við bræður sína, Kristin og Guðlaug og starfræktu þau við fimmta mann hljómsveitina Móa and the Vinylistics. Með þeirri sveit kom hún fram á Futurice hátíðinni sem haldin var í Bláa lóninu auk Iceland Airwaves sem haldin var í annað sinni haustið 2000.

Móeiður Júníusdóttir

Framan af ári 2001 var Móa að vinna tónlist með bræðrum sínum og kom einnig fram opinberlega ein og sér en dró sig síðan í hlé þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn. Eftir það hefur lítið spurst til Móeiðar, haustið 2001 spratt hljómsveitin Lace fram á sjónarsviðið með plötuna Zeitgeist en sú sveit hafði verið stofnuð upp úr Móa and the Vinylistics, Lace varð fremur skammlíf en náði þó að leika opinberlega í nokkur skipti, m.e. á Iceland Airwaves. Móa kom fram í nokkur skipti árið 2002 en hætti því svo alveg, hún fór í lögfræðinám en hætti því og skipti yfir í guðfræðina þaðan sem hún útskrifaðist með embættispróf og síðar doktorsgráðu og hefur síðan lítið sem ekkert sungið opinberlega utan tengdum störfum sínum innan Þjóðkirkjunnar.

Eftir Móu liggur því ein breiðskífa og fjöldi smáskífna en söng hennar má einnig heyra á fleiri plötum en nefndar hafa verið hér að ofan, hún söng t.a.m. á kassettunni Letter from Lhasa sem G.G. Gunn gaf út 1993, einnig á jólaplötu Jólakatta, Svöl jól (1998), plötu systur sinnar Ásgerðar, Minn heimur og þinn (2001) og smáskífu Jóhanns G. Jóhanssonar, Yrkjum Ísland (1994). Þá er tónlist hennar auðvitað að finna á fjölda safnplatna íslenskra og erlendra en hér eru fáeinar nefndar: Neistar (1998), Tribe generation: volume 7 (1999), Maður lifandi (1998), Icelandic pop favourits (2000), Club class volume seventeen (1998), Fire and ice: music from Iceland (1998) og Pottþétt 9 (1997).

Efni á plötum