Bjarni Björnsson (1890-1942)

Bjarni Björnsson í leikhlutverki sínum sem Sherlock Holmes

Gamanvísnasöngvarinn Bjarni Björnsson var kunnur skemmtikraftur hér á landi fyrri hluta síðustu aldar en hann var einnig frumkvöðull á ýmsum sviðum skemmtiiðnaðarins hér á landi.

Bjarni var fæddur á Mýrunum árið 1890 en ólst upp hjá fósturforeldrum í Reykjavík þegar blóðforeldrar hans ákváðu eins og svo margir á þeim tíma að freista gæfunnar vestan hafs og yfirgefa landið.

Bjarni var ekki hár í loftinu þegar hann var farinn að herma eftir þeim sem stóðu honum næst en fátt benti til að hann myndi starfa við það. Hann fór fimmtán ára gamall (1905) til Kaupmannahafnar til að læra þar leiktjaldamálun en af einhverjum ástæðum fékk hann leiklistarbakteríuna líka og lærði leiklist samhliða því sem hann starfaði með litlum leikhópi.

Árið 1910 kom hann heim til Íslands eftir fimm ára fjarveru og lét fljótlega að sér kveða, fyrst sem leiktjaldamálari en einnig sem leikari. 1912 tók hann upp þá nýjung að bjóða upp á skemmtisýningu, eins konar revíu með gamanvísnasöng og eftirhermum þar sem hann var sjálfur í aðalhlutverkum en slíkt hafði ekki þekkst hér á landi til þess tíma. Sýningin sló samstundis í gegn og hann sýndi fyrir fullu húsi í nokkur skipti áður en hann fór út á land með hana við sömu undirtektir. Söngurinn um Nikkólínu var þarna strax orðinn hluti af prógramminu og varð hans þekktasta lag ásamt Bílavísum.

Bjarni Björnsson

Bjarni staldraði ekki lengi við á Íslandi en ákvað að fara aftur til Danmerkur að freista gæfunnar en nú stóð til að reyna fyrir sér í kvikmyndaleik en kvikmyndasýningar voru þá slá í gegn um allan heim. Hann lék í fáeinum dönskum kvikmyndum og sumar þeirra bárust hingað til lands og voru sýndar hér en það þótti mikill og merkilegur viðburður að sjá Íslending í kvikmyndahlutverki. Vera hans í Danmörku varð þó styttri en ætlað var því heimsstyrjöldin fyrri skall á árið 1914 og hann kom því aftur heim til Íslands.

Þrjú ár liðu uns Bjarni fór aftur utan en þá voru það Bandaríkin sem átti að reyna fyrir sér í. Fyrst í stað starfaði hann við ýmis konar skrautmálun í New York en fór síðan til Chicago þar sem kvikmyndaiðnaðurinn var þá hvað sterkastur. Sá iðnaður leið undir lok í borginni og um tíma starfaði Bjarni í Winnipeg þar sem hann hitti fjölskyldu sína, þaðan fór hann til New York aftur áður en hann ákvað að fara til Hollywood sem þá var að rísa upp sem aðalmiðstöð kvikmyndaiðnaðarins vestra. Bjarni starfaði við ýmis konar málarastörf þar í bæ, fékk eitt og eitt hlutverk í kvikmyndum og m.a. í kvikmyndinni Svarta sjóræningjanum sem sýnd var hér í Nýja bíói 1927. Þegar talmyndirnar fóru að ryðja sér til rúms þótti Bjarna ljóst að kvikmyndaframi biði hans ekki í Hollywood fremur en annarra útlendinga í landinu og kom hann því heim til Íslands 1930.

Hingað var Bjarni alkominn um jólin 1930 og þá giftist hann Torfhildi Dalhoff sem síðar átti eftir að skemmta með honum sem undirleikari á píanó á skemmtunum en Bjarni tók nú þegar við fyrri iðju við eftirhermur og gamanvísnasöng.

Bjarni varð fyrstur á Íslandi til að gefa út hljómplötur með skemmtiefni en sex plötur með alls tólf lögum komu út árið 1931 á vegum Hljóðfærahúss Reykjavíkur en upptökurnar voru gerðar í Þýskalandi, Torfhildur eiginkona hans lék að öllum líkindum undir á þeim upptökum en einnig kemur við sögu harmonikkuleikari á þeim, sem ekki hefur tekist að bera kennsl á.

Bjarni á sviðinu

Bjarni var í raun ekki með neitt fast starf á þessum árum, hann skemmti mikið og fékkst við leiktjaldamálun, einnig lék Bjarni eitthvað með Leikfélagi Reykjavíkur en hann var alltaf svolítið á skjön við eldri leikarana sem fannst lítið til eftirhermubragða hans koma og vegna þeirrar andstöðu var erfitt fyrir hann að fá stærri hlutverk. Bjarni launaði þeim reyndar með því að herma eftir þeim leikurum leika hlutverk sín, á skemmtikvöldum sínum.

Bjarni hlaut fyrstur skemmtikrafta hérlendis listamannastyrk alþingis árið 1936 og notaði þá tækifærið til að hljóðrita fjögur lög til viðbótar við hin tólf og komu þau út á tveimur plötum árið 1937. Þau lög voru tekin upp í Danmörku en Bjarni var í Danmörku og Noregi 1936 og 37 og söng þá í ríkisútvarpi beggja þjóða.

Nokkru eftir að Bretar hernámu Ísland vorið 1940 fékk Bjarni fasta vinnu hjá þeim við að reisa Reykjavíkurflugvöll en skemmti þó áfram. Það var svo í febrúar 1942 sem hann fékk heilablóðfall og lést sólarhring síðar, aðeins á fimmtugasta og öðru aldursári.

Átta laganna sem komið höfðu út á árunum 1931 og 37 voru endurútgefin árið 1964 á tveimur 45 snúninga plötum undir titlinum Gamlar minningar 1 og 2 en lög Bjarna hafa því miður ekki verið endurútgefin í seinni tíð, hvorki á safnplötum né með öðrum hætti.

Þess má þó geta að Savanna tríóið gaf seint á sjöunda áratugnum út Bílavísur og Nikkólínu sem þar með nutu aftur vinsælda nýrra kynslóða þótt með öðrum flytjendum væri.

Efni á plötum