Afmælisbörn 2. maí 2021

Grettir Björnsson

Á þessum öðrum degi maímánaðar eru sex tónlistartengd afmælisbörn á skrá:

Garðar Thor Cortes tenórsöngvari er fjörutíu og sjö ára gamall í dag. Garðar lærði söng fyrst hér heima en fór að því loknu í framhaldsnám til Austurríkis, Danmerkur og Bretlands. Hann lét fyrst að sér kveða á plötu Samkórs Selfoss árið 1995 og hefur síðan sungið á nokkrum sólóplötum auk annarra platna, s.s. Frostrósa. Garðar Thor er í dag einn af Sætabrauðsdrengjunum, hópi söngvara sem koma reglulega fram.

Atli Bollason hljómborðsleikari, bókmenntafræðingur og blaðamaður er þrjátíu og sex ára gamall. Hann byrjaði snemma að spila með hljómsveitum í Réttarholtsskóla, var í sveitum eins og Frír bjór, Nortón og Saab, auk dúettsins Atla og Leó, áður en hann gekk til liðs við Sprengjuhöllina sem sló rækilega í gegn með tveimur plötum. Auk þess hefur Atli verið í hljómsveitinni Fallegir menn.

Þá á bassasöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson fimmtíu og fjögurra ára afmæli. Bjarni Thor kemur upphaflega úr Garðinum, var snemma viðloðandi tónlist, lærði á gítar og flautu, var í barnakór og hljómsveitinni Salernum áður en hann hóf að læra söng, fyrst í Njarðvíkum, þá Tónskóla Sigursveins og Söngskólanum í Reykjavík áður en hann fór til framhaldsnáms til Vínar en þar starfaði hann fyrstu árin eftir nám. Eftir það hefur hann verið lausráðinn í ýmsum verkefnum og m.a. sungið fjölmörg óperuhlutverk um allan heim, auk þess að syngja inn á plötur.

Jan Morávek (1912-70) átti þennan afmælisdag líka, hann var tékkneskur og fluttist til Íslands eftir stríð ásamt íslenskri eiginkonu sinni. Hann átti eftir að starfa með mörgum hljómsveitum hér á landi, auk þess að starfrækja eigin sveit. Jan var mjög fjölhæfur hljóðfæraleikari og lék inn á margar plötur, einkum á sjötta áratug liðinnar aldar.

Grettir Björnsson húsamálari og harmonikkuleikari (1931-2005)  hafði þennan afmælisdag einnig. Grettir var kunnur fyrir leikni sína á harmonikkuna og gaf út fjölda platna, hann lék ennfremur á mörgum plötum annarra tónlistarlistamanna og var í ýmsum þekktum hljómsveitum þess tíma, s.s. Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar. Grettir starfaði alla tíð sem húsamálari enda menntaður sem slíkur, en hann bjó um tíma í Kanada.

Og að síðustu er hér nefnd Valborg Einarsson söngkona og píanóleikari (1882-1969). Hún var dönsk eiginkona Sigfúss Einarssonar tónskálds og kenndi bæði söng og píanóleik hér á landi, auk þess sem hún hélt margoft einsöngstónleika og var einnig þekktur undirleikari bæði á tónleikum sem og plötum einsöngvara.

Vissir þú að Ragnar Zolberg gaf út sína fyrstu plötu aðeins ellefu ára gamall?