Jan Morávek (1912-70)

Jan Morávek2

Jan Morávek

Jan Morávek var tékkneskur tónlistarmaður sem fluttist til Íslands eftir stríð ekki ósvipað öðrum erlendum tónlistarmönnum, ílentist hér og starfaði til dauðadags.

Morávek fæddist 1912 í Vín í Austurríki, var með eindæmum fjölhæfur tónlistarmaður og var sagður leika á um fjölda hljóðfæri. Hann kynntist fyrri eiginkonu sinni, Svanhvíti Egilsdóttur söngkonu, í Vín og fluttust þau til Íslands 1948. Þau skildu síðar.

Hér á landi mætti Morávek nokkru mótlæti í byrjun, hann var sagður taka störf frá íslenskum tónlistarmönnum og neita að ganga í Félag íslenskra hljómlistarmanna en sannleikurinn var að hann sótti um inngöngu í félagið, var krafinn um atvinnuleyfi sem hann framvísaði en á sama tíma kom fram áskorun frá nokkrum félagsmönnum til annarra í félaginu, um að vinna ekki með honum.

Sátt varð í málinu og í kjölfarið hóf Morávek að leika með ýmsum hljómsveitum og við ýmis tækifæri, lengst með Naust-tríóinu / Hljómsveit Carls Billich. Hann starfrækti ennfremur eigin sveitir, lék á fagott og síðar klarinettu og fiðlu með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk þess að sinna öðrum tónlistarverkefnum. Hann var dugmikill útsetjari fyrir kóra og lúðrasveitir en einnig fyrir léttari tónlist, hann stýrði ennfremur hljómsveitum við hljómplötuupptökur, stofnaði og stjórnaði Samkór Kópavogs, stýrði einnig Tígulkvartettnum, Lúðrasveitinni Svani og Lúðrasveit Reykjavíkur. Auk þess samdi Morávek sjálfur tónlist.

Sem dæmi um fjölhæfni Jans Morávek má nefna að hann lék á fjórtán hljóðfæri í útvarpsþætti árið 1964 og í Hljómplötuskrá Jóns R. Kjartanssonar [án ártals] segir um plötu sem út kom 1955 með leik hans, að þar leiki hann „24 sinnum“ – sem verður ekki skilið öðruvísi en að hann leiki á tuttugu og fjögur hljóðfæri á plötunni. Auk þess starfrækti hann harmonikkutríó og hljómsveit sem gáfu út nokkrar plötur.

Leik Jans Morávek má ennfremur heyra á fjölmörgum plötum einkum frá sjötta áratugnum þar sem hljómsveitir hans leika undir söng ýmissa söngvara, þar má nefna plötur með Alfreð Clausen, Svavari Lárussyni, Ingibjörgu Þorbergs, Jóhanni Möller, Tónasystrum, Maríu Markan, Sigurði Ólafssyni, Ómari Ragnarssyni, Soffíu Karlsdóttur, Tígulkvartettnum, Tónakvartettnum og Sverri Guðjónssyni.

Síðari eiginkona Jans Morávek var Sólveig Jóhannsdóttir en hún var ein úr sönghópnum Öskubuskum, þau eignuðust þrjú börn og hafa að minnsta kosti tvö þeirra verið viðloðandi tónlist með einum eða öðrum hætti, Jóhann og Nína Morávek.

Jan Morávek lést 1970 aðeins fimmtíu og átta ára gamall eftir nokkur veikindi.

Efni á plötum