Josef Felzmann (1910-76)

Josef Felzmann

Josef Felzmann

Josef (Joseph) Felzmann var austurrískur tónlistarmaður sem kom til Íslands á fjórða áratug síðustu aldar og starfaði hér til æviloka.

Josef var fæddur 1910 í Vín í Austurríki, hann nam tónlist ungur og varð fiðlan hans aðal hljóðfæri enda þótti hann fljótt framúrskarandi fiðluleikari, þess má geta að annar Íslandsfari, Carl Billich, var æskufélagi hans og bekkjarbróðir.

Þeir félagar fóru reyndar saman til Íslands til að freista gæfunnar haustið 1933 og réðu þeir sig við þriðja mann á Hótel Íslandi við Aðalstræti, upphaflega voru þeir ráðnir til átta mánaða, þeir mánuðir urðu síðan að árum.

Josef kynntist hér á landi íslenskri stúlku og 1938 fluttu þau til Austurríkis þar sem þau giftu sig og ætluðu sér framtíðarheimili. Þar sem annars staðar skall hins vegar á heimsstyrjöld og var hann kvaddur í herinn og sinnti hann herskyldu til stríðsloka 1945. Að loknu stríði (1947) voru allar forsendur breyttar og héldu þau hjónin aftur til Íslands og bjuggu hér, þar sem Josef starfaði við tónlist allt til 1974 þegar hann veiktist en þau veikindi lögðu hann að lokum síðla árs 1976.

Eins og margir erlendir tónlistarmenn hér á landi fyrir og um miðja síðustu öld þótti Josef ekki alltaf æskilegur því hann þótti taka störf frá íslenskum tónlistarmönnum að mati forsvarsmanna FÍH sem þá var nýstofnað. Það kom þó ekki í veg fyrir að hér bjó hann til dauðadags og hlaut reyndar íslenskan ríkisborgararétt. Hér á landi sinnti hann einnig tónlistarkennslu.

Josef Felzmann lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands frá stofnun 1950 og allt til 1974 en einnig lék hann með danshljómsveitum, t.d. Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Hljómsveit Jans Morávek og Hljómsveit Carls Billich, ennfremur starfrækti hann sjálfur sveit undir eigin nafni. Með þessum hljómsveitum og öðrum tónlistarmönnum lék Josef inn á fjölda platna með söngvurum eins og Sigurði Ólafssyni, Guðrúnu Á. Símonar, Ingibjörgu Þorbergs, Öddu Örnólfs, Maríu Markan, Ólafi Briem og Alfreð Clausen.