Jakob Tryggvason (1907-99)

Jakob Tryggvason1

Jakob Tryggvason

Jakob Tryggvason organisti og píanóleikari var ekki aðeins mikilvirkur á sínu sviði í hljóðfæraleik heldur var hann einnig öflugur frumherji í öllu tónlistarlífi Akureyringa um áratuga skeið.

Jakob fæddist í Svarfaðardalnum 1907, fór í tónlistarnám til Reykjavík og síðar í framhaldsnám til London (eftir seinna stríð). Hann stjórnaði Templarakórnum (Kór I.O.G.T.) á Reykjavíkur árum sínum en er þó kunnastur fyrir störf sín á Akureyri.

Hann var til að mynda organisti við Akureyrarkirkju frá 1941 og gegndi því starfi í fjörutíu og fimm ár, hann var skólastjóri Tónlistarskóla Akureyrar í tuttugu og fjögur ár en stundaði kennslu enn lengur við skólann. Jakob kenndi einnig söng við grunnskóla á Akureyri og stýrði Lúðrasveit drengja við Barnaskólann á Akureyri í tuttugu ár. Hann reif einnig upp lúðrasveitastarfið í bænum og stýrði Lúðrasveit Akureyrar í jafnlangan tíma, vegna þessa var hann sæmdur gullmerki lúðrasveitarinnar og var gerður að heiðursfélaga.

Jakob kom að stjórnun nokkurra kóra á Akureyri, hann þjálfaði bæði Smárakvartettinn og Geysiskvartettinn samhliða því að vera undirleikari þeirra og stjórna einnig söngfélaginu Gígjunni á árunum 1967 til 84, Gígjurnar voru metnaðarfullur kvennakór á Akureyri.

Hann var ennfremur ötull í félagsmálum tónlistarmanna, var til dæmis formaður félags íslenskra orgelleikara um tíma. Samhliða því að stýra og kenna í tónlist var Jakob öflugur útsetjari og liggja eftir hann hundruð útsettra laga, hann var einnig tónskáld – samdi lög en tranaði þeim lítt fram. Hann var þannig mikils metinn tónlistarfrömuður og hlaut fálkaorðuna árið 1980 fyrir störf sín að tónlistarmálum.

Jakob lést árið 1999, þá á tíræðisaldri.

Leik Jakobs og kórstjórnun má finna á fjölmörgum hljómplötum, þar má nefna plötuna Unga kirkjan: trúarsöngvar, plötur Geysiskvartettsins, Kirkjukórs Akureyrar, Jóhanns Konráðssonar, MA kvartettsins, Smárakvartettsins, Páls Jóhannessonar og Kirkjukórs Lögmannshlíðarsóknar.