Valborg Einarsson (1883-1969)

Valborg Einarsson

Valborg Einarsson var dönsk sópransöngkona og píanóleikari sem setti svip sinn á íslenskt tónlistarlíf um árabil á fyrri hluta síðustu aldar.

Valborg (f. Valborg Inger Elisabeth Hellemann) fæddist í Frederikshavn í Danmörku en ólst upp í Kaupmannahöfn. Hún var um sex ára aldur þegar hún hóf að leika eftir eyranu á píanó sem faðir hennar hafði keypt, og upp frá því fékk hún einka píanókennara en síðar nam hún við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn bæði píanóleik og söng. Hún hélt víða söng- og píanótónleika um Danmörku við góðan orðstír en varð síðar kunnari sem undirleikari en einleikari.

Valborg kynntist tónskáldinu Sigfúsi Einarssyni og hingað til lands komu þau í heimsókn sumarið 1905 en þá hélt hún tónleika í Bárunni. Þau Sigfús giftust ári síðar (vorið 1906) og settust að hér á landi, og tók Valborg þá föðurnafn eiginmanns síns að dönskum sið og hét þá Valborg Einarsson. Börn þeirra tvö, Einar og Elsa urðu bæði tónlistarfólk, Einar fiðluleikari en Elsa þekkt söngkona.

Hér heima kenndu þau hjónin tónlist og komu að íslensku tónlistarlífi með ýmsum hætti, Valborg varð t.a.m. fyrsti kvenkyns söngkennarinn hér á landi og kenndi Elsu dóttur sinni meðal annarra. Þau Sigfús héldu hér oft tónleika (og reyndar einnig erlendis) en Valborg varð einnig þekktur undirleikari og kom m.a. fram með Elsu Sigfúss, Maríu og Einari Markan og fleirum. Þá kom hún við sögu á fjölmörgum hljómplötum sem undirleikari t.d. með Sigurði Skagfield, og Elsu dóttur sinni.

Þegar Sigfús Einarsson eiginmaður Valborgar lést vorið 1939 fluttist Valborg til Kaupmannahafnar í upphafi heimsstyrjaldar, hún kom aftur til Íslands eftir stríð og hélt hér tónleika ásamt Elsu dóttur sinni. Hún kom hingað til lands í nokkur skipti eftir það en var búsett í Danmörku. Það var svo í einni slíkri ferð sem hún var stödd hér á landi sumarið 1969, að hún lést en hún var þá orðin áttatíu og sex ára gömul. Hún var jarðsett við hlið eiginmanns síns í kirkjugarðinum við Suðurgötu.