Vala Bára (1936-2006)

Vala Bára

Söngkonan Vala Bára (Valgerður Bára Guðmundsdóttir) er ekki meðal þeirra þekktustu í íslensku tónlistarlífi en hún söng um árabil með hljómsveitum á dansstöðum höfuðborgarsvæðisins.

Vala Bára fæddist í Bolungarvík 1936 og bjó þar fram til sextán ára aldurs þegar hún fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur. Hún var nítján ára gömul þegar hún hóf að vekja athygli ásamt öðrum ungum dægurlagasöngvurum á skemmtunum í Austurbæjarbíói haustið 1955 en þar söng hún við undirleik Hljómsveitar Árna Ísleifs. Hún söng í nokkur skipti það haust, meðal annars á dansleik í Njarðvík með Hljómsveit Braga Hlíðberg, og víðar.

Á næstu árum söng Vala Bára nokkuð á miðnæturskemmtunum og víðar, á þeim tíma var hún einnig farin að syngja í kórum en hún söng í mörgum slíkum um ævina, þeirra á meðal má nefna Samkór Reykjavíkur, Kvennakór Slysavarnarfélagsins í Reykjavík, Pólýfónkórinn og Þjóðleikhúskórinn, en með þeim síðast talda söng hún við nokkrar óperuuppfærslur.

Vala Bára hélt til söngnáms í Danmörku hjá Stefáni Íslandi haustið 1961 og var þar við nám um veturinn, reyndar hafði hún ætlað sér til Moskvu í þeim tilgangi en af því gat ekki orðið. Síðar nám hún einnig söng hjá Maríu Markan.

Það var svo haustið 1963 sem hún hóf að syngja með Hljómsveit Jose Riba í Góðtemplarahúsinu (Gúttó) og með þeirri sveit söng hún um veturinn sem og veturinn á eftur, 1964-65, líklega voru það mestmegnis gömlu dansarnir sem sveitin lék.

Hún starfaði mest í Gúttó næstu árin, haustið 1965 söng hún með ónefndri húshljómsveit þar en eftir áramótin 1965-66 söng hún með Tríói Magnúsar Péturssonar. Þar var hún einnig næsta vetur og fram á sumarið 1967 en þá hóf hún að syngja með Hljómsveit Hrafns Pálssonar á skemmtistaðnum Röðli. Næstu mánuðina var hún ýmist á Röðli eða Gúttó en eftir áramótin 1967-68 söng hún með Hallartríóinu í Templarahöllinni.

Á þessum árum hafði Vala Bára víða einnig sungið á söngskemmtunum og annars konar samkomum en svo virðist sem hún hafi að mestu hætt að syngja árið 1968 og snúið sér að öðrum málum. Hún átti eftir að starfa við ýmislegt annað, s.s. við þýðingar og farastjórn auk skrifstofustarfa. Þess má geta að hún varð Evrópumeistari kvenna í sjóstangaveiði árið 1966.

Vala Bára bjó síðustu æviár sín á æskuslóðum í Bolungarvík en hún lést árið 2006, sjötug að aldri.