Afmælisbörn 2. maí 2023

Magnús Thorlacius

Á þessum öðrum degi maímánaðar eru átta tónlistartengd afmælisbörn á skrá:

Garðar Thor Cortes tenórsöngvari er fjörutíu og níu ára gamall í dag. Garðar lærði söng fyrst hér heima en fór að því loknu í framhaldsnám til Austurríkis, Danmerkur og Bretlands. Hann lét fyrst að sér kveða á plötu Samkórs Selfoss árið 1995 og hefur síðan sungið á nokkrum sólóplötum auk annarra platna, s.s. Frostrósa. Garðar Thor er í dag einn af Sætabrauðsdrengjunum, hópi söngvara sem koma reglulega fram.

Atli Bollason hljómborðsleikari, bókmenntafræðingur og blaðamaður er þrjátíu og átta ára gamall. Hann byrjaði snemma að spila með hljómsveitum í Réttarholtsskóla, var í sveitum eins og Frír bjór, Nortón og Saab, auk dúettsins Atla og Leó, áður en hann gekk til liðs við Sprengjuhöllina sem sló rækilega í gegn með tveimur plötum. Auk þess hefur Atli verið í hljómsveitinni Fallegir menn.

Þá á bassasöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson fimmtíu og sex ára afmæli. Bjarni Thor kemur upphaflega úr Garðinum, var snemma viðloðandi tónlist, lærði á gítar og flautu, var í barnakór og hljómsveitinni Salernum áður en hann hóf að læra söng, fyrst í Njarðvíkum, þá Tónskóla Sigursveins og Söngskólanum í Reykjavík áður en hann fór til framhaldsnáms til Vínar en þar starfaði hann fyrstu árin eftir nám. Eftir það hefur hann verið lausráðinn í ýmsum verkefnum og m.a. sungið fjölmörg óperuhlutverk um allan heim, auk þess að syngja inn á plötur.

Tónlistarmaðurinn Magnús Örn Thorlacius fagnar í dag þrjátíu og eins árs afmæli sínu en hann vakti fyrst athygli með hljómsveitinni Vio sem sigraði Músíktilraunir vorið 2014 en þar var hann kjörinn besti söngvari tilraunanna. Síðustu árin hefur Magnús starfrækt hljómsveitina Myrkva sem fyrst var einstaklingsverkefni en er í dag dúett og hefur verið að senda frá sér efni.

Jan Morávek (1912-70) átti þennan afmælisdag líka, hann var tékkneskur og fluttist til Íslands eftir stríð ásamt íslenskri eiginkonu sinni. Hann átti eftir að starfa með mörgum hljómsveitum hér á landi, auk þess að starfrækja eigin sveit. Jan var mjög fjölhæfur hljóðfæraleikari og lék inn á margar plötur, einkum á sjötta áratug liðinnar aldar.

Valborg Einarsson

Grettir Björnsson húsamálari og harmonikkuleikari (1931-2005)  hafði þennan afmælisdag einnig. Grettir var kunnur fyrir leikni sína á harmonikkuna og gaf út fjölda platna, hann lék ennfremur á mörgum plötum annarra tónlistarlistamanna og var í ýmsum þekktum hljómsveitum þess tíma, s.s. Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar. Grettir starfaði alla tíð sem húsamálari enda menntaður sem slíkur, en hann bjó um tíma í Kanada.

Sigurgeir Björgvinsson (1929-2015) átti afmæli á þessum degi. Sigurgeir var kunnur trommu- og harmonikkuleikari og lék með fjölda danshljómsveita á árum áður s.s. hljómsveitum Carls Billich, Þórarins Óskarssonar, Aage Lorange, Stefáns Þorleifssonar, Magnúsar Randrup, Jóns Sigurðssonar, Tíglum og Fjórum jafnfljótum svo einungis fáeinar séu nefndar en hann var síðar virkur í félagsstarfi harmonikkuleikara á efri árum og lék inn á nokkrar plötur.

Og að síðustu er hér nefnd Valborg Einarsson söngkona og píanóleikari (1882-1969). Hún var dönsk eiginkona Sigfúss Einarssonar tónskálds og kenndi bæði söng og píanóleik hér á landi, auk þess sem hún hélt margoft einsöngstónleika og var einnig þekktur undirleikari bæði á tónleikum sem og plötum einsöngvara.

Vissir þú að knattspyrnumaðurinn Ásgeir Börkur Ásgeirsson var söngvari Shogun og fleiri hljómsveita?