Grettir Björnsson (1931-2005)

Grettir Björnsson

Grettir Björnsson telst meðal fremstu harmonikkuleikara hérlendis á síðustu öld en hann sendi frá sér nokkrar plötur á ferli sínum og kom jafnframt við sögu á plötum fjölmargra annarra.

Grettir fæddist að Bjargi í Miðfirði í Húnaþingi vestra árið 1931 en fluttist ungur með móður sinni og systkinum suður til Hafnarfjarðar og ólst að mestu upp í Reykjavík. Hann byrjaði að leika og læra á harmonikku ellefu ára gamall og eignaðist sitt eigið hljóðfæri tólf ára, hann þótti afar efnilegur harmonikkuleikari og kom fram í barnatíma útvarpsins í fyrsta sinn aðeins tólf ára gamall en þar lék hann ásamt hálfbróður sínum Árna Arinbjarnarsyni (sem var reyndar aðeins níu ára) sem lék á fiðlu, en leikið var í beinni útsendingu. Grettir átti margoft eftir að leika í útvarpi á unglingsárum sínum og varð nokkuð þekktur strax á barnsaldri.

Grettir hóf að leika á dansleikjum fljótlega upp úr fermingu einn síns liðs en lék svo með harmonikkutríói í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði í tvo vetur, fjórtán og fimmtán ára gamall, þá lék hann einnig í alls kyns revíusýningum (m.a. hjá Bláu stjörnunni) sem þá nutu vinsælda á árunum eftir stríð sem og með hljómsveit á Hótel Norðurlandi á Akureyri veturinn 1948-49. Hann hafði byrjað að læra á harmonikku hjá dönskum kennara en síðan hjá Braga Hlíðberg, og á klarinettu hjá Agli Jónssyni en einnig hafði hann þá lært lítillega á selló. Öll systkini hans spiluðu á hljóðfæri en tónlistina höfðu þau fengið í arf frá móður sinni sem meðal annars hafði verið organisti um tíma, faðir hans hafði látist er Grettir var á unga aldri.

Vorið 1949 fór Grettir við annan mann til Kaupmannahafnar á vit ævintýra, þar vann hann fyrir sér um nokkurra mánaða skeið með harmonikkuleik, starfaði þar m.a. í hljómsveit en kom heim aftur um haustið og hóf að leika hér aftur á dansleikjum, hann lék næsta árið um tíma með Hljómsveit Jónatans Ólafssonar en var mestmegnis í lausamennsku þar til vorið 1951 að hann starfrækti eigin sveit á Keflavíkurflugvelli þar sem hann lék oft einnig einn en síðan gekk hann til liðs við Hljómsveit Svavars Gests og lék með henni bæði á harmonikku og klarinettu en sú sveit starfaði mest í Breiðfirðingabúð.

Grettir á sínum yngri árum

Árið 1952 urðu þáttaskil í lífi Grettis Björnssonar en hann flutti þá til Vancouver á vesturströnd Kanada með eiginkonu sinni og tengdafjölskyldu. Þar átti hann eftir að búa og starfa næstu árin, stundum við kröpp kjör til að byrja með þar sem honum gekk illa að skapa sér atvinnu sem tónlistarmaður en þegar hlutirnir fóru að ganga betur kom hann fram bæði sem einleikari og starfaði með hljómsveitum víða um landið, m.a. með eins konar kántrýsveit sem hann starfaði með um fjögurra ára skeið en einnig með eigin sveit. Grettir lék þá einnig margsinnis í útvarpi á þessum árum en samhliða þessu kenndi hann tónlist um tíma og lærði jafnframt sjálfur enn frekar á harmonikku, þá sigraði hann í keppni harmonikkuleikara sem hann tók þátt í í Vancouver. Hann var virkur í félagslífi Íslendinga á svæðinu og átti m.a. þátt í stofnun karlakórsins Strandar sem starfaði meðal Íslendinga í Kanada og var síðan forseti kórsins þar til hann flutti aftur heim til Íslands í árslok 1960. Grettir hafði komið heim til Íslands eitt sumarið (1956) sem hann bjó vestra og hélt hér nokkra tónleika en hann var þá kynntur sem „hinn vestur-íslenski“ Grettir Björnsson, þá lék hann einnig með hljómsveit Jónasar Dagbjartssonar það sumar.

Kominn heim um áramótin 1960-61 hóf Grettir að kenna á harmonikku en einnig að leika með hljómsveitum, fyrst um sinn með Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar og svo með Neo-tríóinu (mest á Siglufirði) áður en hann fór af stað með eigin sveit í Klúbbnum en hún fór víðar og var t.a.m. á Þjóðhátíð Vestmannaeyja sumarið 1962. Hann lék einnig um tíma með Capri tríóinu í Sjálfstæðishúsinu og lítillega með Hljómsveit Svavars Gests en gekk síðan til liðs við nýstofnaða Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar sem lék á Hótel Sögu um árabil. Grettir starfrækti sveit í eigin nafni á stundum samhliða starfinu með Ragnari Bjarnasyni. Á sumrin lék hljómsveit Ragnars á héraðsmótum um land allt og síðar varð sú sveit að Sumargleðinni sem margir muna eftir, Grettir var fastráðinn með sveitinni allt til ársins 1971 en eftir það var hann mestmegnis í lausamennsku þótt hann spilaði oft með sveit Ragnars eitthvað fram eftir áttunda áratugnum. Hann var þó stundum sjálfur með eigin hljómsveitir sem léku gömlu dansana en það var þó ekkert reglulegt af því er virðist. Lausamennska hans stóð mest allan áttunda áratuginn í formi sólóspilamennsku, þannig kom hann oft fram í útvarps- og sjónvarpsþáttum en einnig kom hann nokkuð við sögu í leikhúslífi höfuðborgarsvæðisins og nágrennisins, hann lék t.d. á harmonikku í barnaleikritum á vegum Leikfélags Kópavogs, í Delerium búbónis á vegum Litla leikfélagsins, í Þjóðleikhúsinu og víðar. Þá lék Grettir oft á skemmtunum eins og árshátíðum og þorrablótum, og fór t.a.m. í nokkur skipti til Bandaríkjanna til að skemmta á þorrablótum Íslendingafélaga.

Grettir með nikkuna

Frá árinu 1964 var hægt að hlýða á harmonikkuleik Grettis á hljómplötum, fyrsta platan sem leik hans er að finna á var Síldarstúlkurnar en á henni sungu Anna Vilhjálms, Berti Möller og Elly Vilhjálms við undirleik hljómsveitar Svavars Gests, sama ár stofnaði Svavar hljómplötuútgáfuna SG-hljómplötur og á fyrstu plötu útgáfunnar, með Fjórtán Fóstbræðrum, kom Grettir einnig við sögu. Og Grettir átti eftir að leika á fjölmörgum plötum á vegum SG-hljómplatna næstu árin, m.a. með tónlistinni úr leikritinu Járnhausnum, á jólaplötu Ómars Ragnarssonar, plötum Ragnars Bjarnasonar, systkinanna Ellyjar og Vilhjálms Vilhjálmsbarna o.fl. Á plötu með Ragnari Bjarnasyni lék Grettir á cordovox eða rafmagnsharmonikku en það var í fyrsta skipti sem heyrðist í slíku hljóðfæri á íslenskri plötu. Á næstu árum og áratugum átti hann eftir að kom við sögu á fjölmörgum plötum með ólíkum listamönnum eins og Gylfa Ægissyni, Jóhanni Helgasyni, Ríó tríói, Skagakvartettnum, Ása í Bæ, Viðari Jónssyni, Elly Vilhjálms, Þriggja á palli, Áhöfninni á Halastjörnunni, Árna Johnsen og Gísla Helgasyni svo aðeins nokkur dæmi séu hér nefnd. Þá má þess einnig geta að harmonikkuleik hans má heyra á plötu Lúðrasveitar Reykjavíkur frá árinu 1975 en Grettir starfaði með henni um árabil, reyndar sem klarinettuleikari.

Haustið 1966 kom út fyrsta platan með Gretti sjálfum en hún var sex laga og kom út á vegum SG. Hún hét einfaldlega Grettir Björnsson leikur gömlu dansana og naut mikilla vinsælda, seldist gríðarlega vel og urðu lögin á henni fastir liðir í óskalagaþáttum Ríkisútvarpsins. Þremur árum síðar kom út önnur lítil plata en á henni sungu og léku Tónakvartettinn og Grettir fjögur lög með aðstoð lítillar hljómsveitar reyndar eins og sex laga platan áður, hún hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Það var svo árið 1972 sem fyrsta breiðskífa harmonikkuleikarans kom út en hún var jafnframt fyrsta stóra harmonikkuplatan sem gefin var út hér á landi og var þ.a.l. tímamótaplata. Grettir naut liðsinnis Ólafs Gauks Þórhallssonar við útsetningar sem jafnframt stjórnaði sveit sem lék með honum. Platan sem bar nafn Grettis geymdi tólf lög úr ýmsum áttum en sjálfur samdi hann tvö laganna. Platan sem hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu var endurútgefin árið 1979 en hún var einnig endurútgefin á kassettu árið 1974 en þá með annarri lagaröð. 1973 kom út önnur smáskífa sambærileg þeirri sem kom út 1966 en hún hafði sama titil og sú fyrrnefnda, Grettir Björnsson leikur gömlu dansana. Sú plata var fimm laga og hafði að geyma þekkta harmonikkuslagara úr ýmsum áttum en útgáfan kom til vegna þess að dansskólana hérlendist skorti lög af þessu tagi til að kenna við, platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu.

Sumarið 1976 sendi Grettir frá sér nýja breiðskífu, tólf laga plötu sem bar nafn hans eins og fyrri stóra platan. Tvö laganna voru eftir Gretti sjálfan en hin lögin voru öll erlend. Hann annaðist sjálfur útsetningar fyrir harmonikkuna en Magnús Ingimarsson útsetti fyrir hljómsveit sem hann stjórnaði og lék undir á plötunni. Hún var endurútgefin af Steinum árið 1990.

Grettir Björnsson

Langur tími leið uns næsta plata Grettis kom út en það var árið 1994 og kom hún út á vegum Skífunnar enda höfðu þá SG-hljómplötur sem gáfu út fyrri plötur hans, liðið undir lok nokkrum árum fyrr. Nýja platan, Vor við sæinn var þá jafnframt hans fyrsta sem kom út á geislaplötuformi en hún var þrettán laga og hafði að geyma blandað efni úr ýmsum áttum, m.a. frumsamið og einnig syrpur.

Grettir kom að ýmsum félagsmálum tónlistarmanna, mestmegnis meðal harmonikkuleikara en hann var meðal stofnenda Félags harmonikuunnenda í Reykjavík (FHUR) árið 1977. Hann var virkur í starfi þeirra, lék á samkomum harmonikkuleikara, fór sem fulltrúi félagsins á samkomur erlendis og lék á plötum sem FHUR sendi frá sér, hann var gerður að heiðursfélaga 2002. Þá var hann í afmælisnefnd Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) fyrir 50 ára afmæli félagsins 1982, og setti m.a. saman hljómsveit sem lék á tónleikum í tengslum við það. Þess má aukinheldur geta að hann var einn af heiðursgestum á Hátíð harmoníkunnar sem haldin var á tíunda ártugnum, hann var valinn harmonikkuleikari ársins í könnun Vikunnar árið 1962 og varð í öðru sæti á eftir Braga Hlíðberg í könnun sem tímaritið Harmonikan stóð fyrir við aldamót um harmonikkuleikara aldarinnar.

Bragi hafði húsamálun að aðalstarfi en þá iðn hafði hann numið í Kanada á sínum tíma, hann sinnti samhliða þeirri vinnu, spilamennsku og upptökum, kennslu í harmonikkuleik, t.d. við Tónskóla Sigursveins og við tónlistarskólann á Akranesi en harmonikkuleikur varð ekki viðurkennd kennslugrein í tónlistarskólum fyrr en árið 1979.

Bragi var mjög virkur í spilamennsku sinni nánast allt fram í andlátið, hann lést snemma hausts 2005 en fáeinum vikum fyrr hafði hann leikið á Fiskideginum mikla á Dalvík, og víðar það sama sumar. Hann hafði á níunda og tíunda áratugnum aftur farið að leika með hljómsveitum sem sérhæfðu sig í gömlu dönsunum og má þar nefna nöfn eins og Danssporið, Hljómsveit André Bachmann, Sýslumenn og Tríó Hjördísar en einnig lék hann nokkuð með Örvari Kristjánssyni, Reyni Jónassyni og fleirum fram eftir nýrri öld. Hér að framan hafa verið nefndar fjölmargar plötur þegar sem hann hefur komið við sögu á en einnig má heyra harmonikkuleik hans á nokkrum sanfplötum.

Árið 2014 voru haldnir minningartónleikar um Gretti Björnsson á Hvammstanga en hann var sem fyrr segir fæddur í Miðfirði, ýmsir kunnir harmonikkuleikarar og aðrir tónlistarmenn heiðruðu þar minningu hans að viðstöddum fjölda fólks.

Efni á plötum