Afmælisbörn 1. maí 2023

Jón Leifs

Fjögur afmælisbörn dagsins eru á dagskrá Glatkistunnar á þessum degi verkalýðsins:

Baldvin Albertsson hljómborðsleikari á stórafmæli í dag – fertugsafmæli en hann lék með hljómsveitinni Lokbrá á tíunda áratug síðustu aldar. Lokbrá skildi eftir sig breiðskífuna Army of soundwaves, sem vakti nokkra athygli.

Trausti Laufdal Aðalsteinsson er fertugur á þessum degi en hann starfaði með Baldvini í hljómsveitinni Lokbrá, söng og lék á gítar í sveitinni. Trausti hefur einnig verið í hljómsveitunum Kamikazee, Moðhaus og Pontiak Pilatus, og hefur aukinheldur sent frá sér sólóefni.

Jón Leifs (1899-1968) átti þennan afmælisdag einnig en hann er eitthvert þekktasta tónskáld íslenskrar tónlistarsögu. Jón nam píanóleik, hljómfræði og tónsmíðar í Þýskalandi, auk hljómsveitastjórnunar fyrstur Íslendinga, og starfaði þar í þrjá áratugi. Hann var innblásinn af íslensku þjóðlagahefðinni og blandaði hana evrópskum tónlistarhefðum í tónsmíðum sínum. Eftir að hann kom heim til Íslands vann hann að félagsmálum tónlistarmála hér heima, kom m.a. að stofnun STEFs, Tónskáldafélags Íslands og Bandalags íslenskra listamanna. Verk Jóns Leifs hafa komið á tugum platna, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands o.fl.

Magnús Ingimarsson tónlistarmaður (1933-2000) fæddist líka á þessum degi. Sem hljóðfæraleikari var Magnús fyrst og fremst píanóleikari en hann lék á ýmis önnur hljóðfæri og söng einnig ef svo bar undir, var t.d. einn Marz bræðra. Hann starfrækti lengi hljómsveit undir eigin nafni og lék hún oft undir á plötum sem SG-hljómplötur gaf út en Svavar Gests útgefandi var náinn samstarfsmaður hans. Magnús stýrði t.a.m. bæði Silfurkórnum og Fjórtán fóstbræðrum, auk þess að útsetja fyrir Svavar.

Vissir þú að hljómsveitin Kukl var stofnuð upp úr útvarpsþættinum Áföngum?