Magnús Pétursson (1930-83)

Magnús Pétursson 1950

Tónlistarmaðurinn Magnús Pétursson var flestum kunnur fyrir nokkrum áratugum fyrir að vera píanóleikari og aðstoðarmaður Valdimars Örnólfssonar við Morgunleikfimi útvarpsins en þátturinn naut mikilla vinsælda á sínum tíma. En hann var einnig farsæll hljómsveitastjóri, laga- og textahöfundur, kórstjóri, tónlistarkennari, útsetjari og margt fleira.

Jón Magnús Pétursson fæddist á Akureyri 1930 og komu tónlistarhæfileikar hans snemma í ljós, hann byrjaði að leika á munnhörpu aðeins fimm ára gamall og var farinn að læra á orgel sjö ára gamall, við fimmtán ára aldur tók píanóið við og varð hans aðalhljóðfæri. Eftir stúdentspróf við Menntaskólann á Akureyri, þar sem Magnús lék á píanó og trommur (eða trumbu eins og það var kallað) með skólahljómsveitinni sem þá starfaði við skólann, lá leið hans suður yfir heiðar þar sem hann hóf nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Á Akureyri hafði hann þá einnig leikið með Hljómsveit Jóns Sigurðssonar (trompetleikara) sem var þremur árum eldri en Magnús en samtíða honum í MA.

Meðfram tónlistarnáminu lék Magnús með fjölda hljómsveita og sérstaklega eftir að námi lauk, hann lék t.a.m. með hljómsveitum Eyþórs Þorlákssonar, Stefáns Þorleifssonar og Jan Morávek áður en hann fór heim til Akureyrar sumarið 1950 til að gerast píanóleikari á Hótel Norðurlandi. Eftir það lék hann með fjölmörgum hljómsveitum, s.s. Þ.Ó. kvintettnum, Hljómsveit Carls Billich, Kvintett Gunnars Ormslev og síðan Hljómsveit Björns R. Einarssonar sem þá var ein allra vinsælasta hljómsveit landsins. Sumarið 1951 fór Magnús með þeirri sveit í mánaðarlanga tónleikaferð um vestan-, norðan- og austanvert landið, þar sem víðast hvar var vel tekið á móti þeim enda var slík skemmtun ekki daglegur viðburður á þessum tíma. Með Hljómsveit Björns R. Einarssonar starfaði Magnús í nokkur ár en árið 1957 lék hann um skamman tíma með tríói Hrafns Pálssonar áður en hann hóf að leika með NEO-tríóinu sem einnig starfaði heillengi eða til hausts 1963 þegar sú sveit var lögð niður, Magnús stofnaði þá eigið tríó upp úr því sem starfaði um stuttan tíma, aukinheldur starfrækti Magnús sjálfur hljómsveitir um lengri og skemmri tíma á sjöunda áratugnum. Hann var að mestu hættur spilamennsku á dansleikjum í kringum 1968, var um tíma með Hljómsveit Hauks Morthens en danshljómsveitir að hætti sjötta áratugarins voru þá að mestu liðnar undir lok enda höfðu bítla- og síðan hippasveitir tekið við keflinu.

Magnús Pétursson

Magnús lék á fjölda hljómskífa og árið 1954 var hann í fyrsta sinn með eigin sveit sem lék undir söng Leikbræðra, Gests Þorgrímssonar og Öskubuskna á nokkrum 78 snúninga plötum. Og hann lék með fleiri sveitum sem léku  inn á plötur á þeim tíma, t.d. með B.G. kvintettnum sem var einhvers konar angi af hljómsveit Björns R. Einarssonar, og lék á plötu Öddu Örnólfs. Síðar lék hann með ýmsum hljómsveitum inn á plötur með t.d. Helenu Eyjólfsdóttur, Birni R. Einarssyni, Alfreð Clausen og Friðbirni G. Jónssyni, og lék einnig einn síns liðs undir hjá Leikhúskvartettnum, Bessa Bjarnasyni og Sólskinskórnum á plötum. Magnús lék aukinheldur á plötum tengdum leiklistinni og hér má nefna plöturnar Saumastofan, Revíuvísur og Jólin hennar ömmu. Þá eru ónefndar fjórar plötur sem hljómsveit hans sendi frá sér undir yfirskriftinni Boðið upp í dans, í samstarfi við Dansskóla Hermanns Ragnars Stefánssonar í kringum 1960 en Magnús var í mörg ár undirleikari við danskennslu og sýningar tengdum skólanum. Þess má geta að Magnús lék á píanóið í Braggablús Magnúsar Eiríkssonar á plötu Mannakorna, Í gegnum tíðina sem kom út 1977.

Magnús hafði um tíma kennt við nýstofnaðan tónlistarskóla FÍH sem stofnaður var um áramótin 1956-57 og um það leyti settist hann aftur sjálfur á skólabekk til að ljúka tónmenntakennaraprófi, og haustið 1963 hóf hann að kenna söng og tónmennt við Melaskóla þar sem hann átti eftir að starfa í mörg ár. Þar setti hann á svið með börnunum frumsamda söngleiki, stjórnaði kórum og setti m.a. á stofn Sólskinskórinn sem nefndur er hér að ofan, og þar var einnig að finna barnastjörnuna Hönnu Valdísi Guðmundsdóttur sem Magnús útsetti fyrir og stjórnaði hljómsveit á plötum hennar. Magnús kenndi um tíma einnig við Almenna músíkskólann sem harmonikkuleikarinn Karl Jónatansson starfrækti lengi, auk þess að sinna einkakennslu í tónlist.

Fljótlega upp úr 1950 hafði Magnús verið farinn að leika undir á leiksýningum en hann átti eftir að starfa mikið við slíkt, bæði við revíur og leikrit einkum í samstarfi við Leikfélag Reykjavíkur. Hann átti ennfremur sjálfur eftir að semja tónlist og söngleiki sem fyrr en nefnt, t.d. fyrir börn – og reyndar var slíkt fastur liður í jóladagskrá Ríkisútvarpsins um árabil, þar má nefna söngleik byggðan á ævintýrinu um Grámann í Garðshorni. Þá kom hann oft fram í útvarpinu og stjórnaði hljómsveitum við ýmis tækifæri.

Magnús ásamt Ómari Ragnarssyni

Magnús varð þekktur undirleikari og lék mjög mikið á söngskemmtunum og tónleikum með öðru tónlistarfólki, hann starfaði þannig um tíma með Ómari Ragnarssyni en einnig lék hann með söngvurum eins og Jóni Sigurbjörnssyni, Guðrúnu Á. Símonar, Hjálmtý Hjálmtýssyni, Hallbjörgu Bjarnadóttur o.fl. Þá lék hann oft dinnertónlist á veitingastöðum s.s. Naustinu.

Magnús samdi líka annars konar tónlist og var lengi virkur í sönglagakeppnum SKT sem fóru reglulega fram um miðja síðustu öld og langt fram eftir, þar vann hann stundum til verðlauna sem og í fleiri samkeppnum. Meðal laga sem Magnús samdi má nefna Vals moderato sem Elsa Sigfúss söng inn á plötu á sínum tíma, Vorið er komið í flutningi Hauks Morthens og Köttur og mús á plötu Grettis Björnssonar. Hann samdi ennfremur lög fyrir Bessa Bjarnason og Sólskinskórinn og reyndar texta einnig en fjöldi texta liggja eftir hann.

Þrátt fyrir allar þessar upptalningar hér að ofan var Magnús að líkindum líklega þekktastur sem píanóleikarinn í tvíeykinu Valdimar Örnólfsson og Magnús Pétursson  en þeir félagar sáu um Morgunleikfimi Ríkisútvarpsins í tuttugu og fimm ár við miklar vinældir, frá árinu 1957 til 82. Segja má að megnið af þjóðinni hafi tekið þátt í morgunleikfimi þeirra og svo miklar voru vinsældirnar að þegar þeir höfðu ætlað sér að hætta með þáttinn nokkrum árum fyrr var því ekki við komið vegna áskorana hlustenda, fljótlega eftir að síðasti þátturinn fór í loftið sendu þeir frá sér snælduna Morgunleikfimi Valdimars og Magnúsar.

Magnús var aðeins fimmtíu og þriggja ára gamall þegar hann lést sumarið 1983 en hann hafði þá átt við vanheilsu að stríða. Kór Melaskóla minntist hans með plötunni Við erum börn… sem kom út tveimur árum síðar en á henni var að finna lög og texta eftir Magnús, m.a. lög úr söngleiknum Litla stúlkan með eldspýturnar en lög hans hafði kórinn margsinnis flutt opinberlega í útvarpi, kóramótum og öðrum samkomum. Titillag plötunnar, Við erum börn… hafði unnið til verðlauna í samkeppni í tengslum við Ár barnsins 1979. Lög eftir Magnús, tónlist flutt af honum og hljómsveitum hans, útsetningar hans o.fl. hafa komið út á ógrynni safnplatna í gegnum tíðina.

Efni á plötum