Sigurgeir Björgvinsson (1929-2015)

Sigurgeir Björgvinsson

Sigurgeir Björgvinsson var kunnur harmonikkuleikari og kom víða við sem slíkur, hann byrjaði þó tónlistarferil sinn sem trymbill.

Sigurgeir fæddist í Reykjavík vorið 1929, hann hóf snemma að vinna ýmis verkamannastörf og lærði síðar múrverk sem hann svo starfaði við út starfsævina. Hann hóf að leika með hljómsveitum upp úr seinni heimsstyrjöld, fyrst sem trommuleikari en eignaðist svo harmonikku og tók að leika á hana einnig. Hann réði sig t.a.m. sem harmonikkuleikari með hljómsveit á Siglufirði sumarið 1950 en kom svo suður og lék á trommur með Þ.Ó. kvintettnum, síðar Hljómsveit Þórarins Óskarssonar. Til að mega spila þurfti Sigurgeir að ganga í FÍH og nam hann því trommuslátt hjá Svavari Gests um skamma hríð til að geta gengist undir próf hjá félaginu, hann var því löggildur trommuleikari eins og hann sagði eitt sinn í tímaritsviðtali.

Sigurgeir lék með ýmsum hljómsveitum, fyrst sem trommuleikari sem fyrr segir en síðar ýmist sem harmonikku- eða píanóleikari og má hér nefna sveitir eins og Hljómsveit Carls Billich, Hljómsveit Aage Lorange, Fjórir jafnfljótir, Hljómsveit José Riba, Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar og Hljómsveit Magnúsar Randrup áður en hann flutti til Vestmannaeyja árið 1966 en eiginkona hans var ættuð þaðan. Hann lék eitthvað með hljómsveitum þar en þegar þau fluttust aftur upp á land í kjölfar gossins í Eyjum lék hann með ýmsum sveitum s.s. Qmen7, Mattý, Hljómsveit Jóns Sigurðssonar (síðar Hljómsveit Hjördísar Geirs) og Tíglum en þá hafði trommusettið löngu áður verið lagt til hliðar. Sigurgeir lék einnig oft einn á harmonikkuna eða píanó á skemmtunum.

Sigurgeir varð virkur í samfélagi harmonikkuleikara, lék með Hljómsveit Harmonikuunnenda í Reykjavík og inn á nokkrar plötur með þeirri sveit en einnig má harmonikkuleik hans heyra á sólóplötu Hjördísar Geirsdóttur. Um tíma skemmti hann löndum sínum á Spáni og Portúgal með harmonikkuleik á vegum ferðaskrifstofu og þegar hann var kominn á aldur var hann virkur tónlistarmaður í starfi eldri borgara, var m.a. undirleikari Kórs Félagsstarfs aldraðra í Reykjavík.

Sigurgeir lést vorið 2015, áttatíu og sex ára að aldri.