Sigurgeir Sverrisson (1948-95)

Sigurgeir Sverrisson

Sigurgeir Sverrisson harmonikkuleikari frá Blönduósi er e.t.v. ekki meðal þekktustu tónlistarmanna á Íslandi en hann kom víða við í tónlistinni og átti m.a. á safnplötu með eigin tónsmíð.

Sigurgeir var fæddur á Blönduósi 1948 og þar lék hann með fyrstu hljómsveit sinni, líklega um tvítugt. Sú sveit bar nafnið Sveitó og lék hann á harmonikku og orgel í henni en það voru hans aðal hljóðfæri. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um hljómsveitaferil Sigurgeirs á Blönduósi.

Hann bjó um tíma á Hvolsvelli einnig en á níunda áratugnum flutti hann til Ísafjarðar og bjó þar lengi. Á Ísafirði var hann meðal stofnfélaga Harmonikufélags Vestfjarða árið 1986 og lék oft á skemmtunum tengdum þeim félagsskap en hann starfaði einnig með nokkrum hljómsveitum fyrir vestan – þeirra á meðal voru Sígild og Gömlu brýnin (sem einnig gekk undir nafninu GB-tríóið).

Á Vestfjarðar-árum sínum var hann meðal lagahöfunda og flytjenda á safnplötunni Vestan vindar sem kom út árið 1989, sú plata hafði að geyma þverskurð af vestfirsku tónlistarlífi en lag hans var instrumental harmonikkulag þar sem hann naut aðstoðar Bjarna Sveinbjörnssonar á bassa og Jónasar Björnssonar á trommur.

Síðustu æviár sín bjó Sigurgeir í Keflavík og Hafnarfirði en hann lést haustið 1995, aðeins tæplega fjörutíu og sjö ára gamall.