Sigurjón Axelsson (1973-91)

Sigurjón Axelsson

Sigurjón Axelsson var ungur og efnilegur tónlistarmaður sem starfaði með nokkrum hljómsveitum og hafði vakið nokkra athygli sem slíkur áður en hann féll fyrir eigin hendi aðeins átján ára gamall.

Sigurjón var fæddur 1973 og hafði á unga aldri lært bæði á flautu og píanó áður en hann eignaðist gítar og hóf þá gítarnám einnig. Hann stofnaði sína fyrstu hljómsveit fjórtán ára gamall en ekki liggur fyrir hvort sú sveit var hljómsveitin Titanic sem hann keppti með í Músíktilraunum vorið 1989. Það sama ár var svo hljómsveitin Flintstones stofnuð en báðar sveitirnar léku rokk í anda hippanna. Sigurjón samdi sjálfur tónlist og texta og þótti mikið efni og eftir að Flintstones lagði upp laupana starfaði hann áfram undir einsmanns bandinu Flintstone og sendi reyndar frá sér eitt lag á safnkassettunni Strump, sem kom út 1990. Hann var jafnframt í fyrstu útgáfu hljómsveitarinnar Lipstick lovers, sem þá var reyndar trúbadoradúett.

Sigurjón gekk í Menntaskólann við Sund og tók virkan þátt í félagslífi skólans, hélt m.a. utan um tónlistina í leikriti sem leikfélagið Thalía setti upp í skólanum og vakti athygli fyrir það. Þá annaðist hann þáttagerð á útvarpsstöðinni Rót undir nafninu Sjonny Flintstón.

Fátt benti til annars en að lífið brosti við Sigurjóni en vorið 1991 tók hann eigið líf, nýorðinn átján ára gamall. Fráfall hans varð mörgum mikið áfall en um haustið héldu samnemendur hans við MS í samstarfi við foreldra hans minningartónleika um hann og Jón Finn Kjartansson sem einnig hafði gripið til þessa örþrifaráðs, og í kjölfarið varð eins konar opinber vakning og umræða meðal ungs fólks undir kjörorðunum Aðeins eitt líf en það var í raun í fyrsta sinn sem opnað var á slíka opinbera umræðu um sjálfsvíg hér á landi. Síðan þá hefur sú umræða verið mun opnari en áður.