Sigurjón Samúelsson frá Hrafnabjörgum [annað] (1936-2017)

Sigurjón með hluta elstu platnanna

Sigurjón Samúelsson bóndi á Hrafnabjörgum í Ísafjarðardjúpi var um margt merkilegur maður en hans verður líklega minnst um ókomna tíð sem ástríðufullum plötusafnara sem m.a. átti eintök af nánast öllum 78 snúninga plötum sem komið höfðu út á Íslandi, eintök af mörgum þeirra höfðu ekki einu sinni verið í eigu Landsbókasafnsins eða Ríkisútvarpsins og því var hér um að ræða safn sem hafði verulega mikið menningarsögulegt gildi.

Sigurjón Samúelsson var fæddur á Hrafnabjörgum í Ögurhreppi við Ísafjarðardjúp árið 1936 og bjó þar nánast alla ævi, var til sjós um skamma hríð ungur maður en tók svo við búi foreldra sinna á Hrafnabjörgum 1948.

Hann var tíu ára gamall þegar hann eignaðist sína fyrstu hljómplötu, 78 snúninga plötu með fyrstu barnastjörnu Íslands, söngvaranum Gunnari Óskarssyni en Sigurjón hefur sagt svo frá að hann hefði byrjað að safna plötum um fermingu, í kringum 1950. Safn hans stækkaði hratt og þegar hann var til sjós frá Grindavík keypti hann mikið af plötum í Reykjavík, í fornverslunum sem og hjá Fálkanum en víða var hægt að fá 78 snúninga plöturnar á góðu verði þegar 45 snúninga plöturnar tóku við af þeim upp úr 1955. Sigurjón safnaði auk þess 45 snúninga plötum sem og breiðskífum (33 sn.) þegar þær komu til sögunnar, sumar þessara platna pantaði hann beint erlendis frá. Safn Sigurjóns varð gríðarlega umfangsmikið, yfir sjö þúsund plötur og auk þess eignaðist hann nokkur hundruð geisladiska þegar þeir komu löngu síðar, þá voru ennfremur í fórum hans nokkur fjöldi svokallaðra Edison-hólka (vaxhólka) sem voru fyrirrennarar hljómplötunnar.

Sigurjón Samúelsson

Segja má að hann hafi eignast svo gott sem allt sem kom út hér á landi framan af en í viðtali sem tekið var við hann 2005 sagðist hann vanta líklega fimmtán titla af 78 snúninga plötunum sem gefnar voru út hér á landi. Í safninu var ekki einungis að finna íslenskar plötur heldur einnig fágætar erlendar plötur, þær elstu frá því undir lok 19. aldar en harmonikkuleikur var í sérstöku uppáhaldi hjá Sigurjóni og slíkar plötur áberandi í safni hans. Segja má að hann hafi samfélagi harmonikkunnenda hérlendis heilmikið lið, bæði hvað varðar varðveislu á harmonikkuplötum og svo var hann einnig virkur í félagsstarfi þeirra, sótti landsmót víða um land og var meðal stofnenda Harmonikufélags Vestfjarða – á landsmóti harmonikkuunnenda á Ísafirði sá hann t.d. um að sýna og spila fágætar plötur úr safni sínu. Sjálfur spilaði hann lítillega á harmonikku á sínum yngri árum.

Sigurjón einskorðaði sig reyndar ekki eingöngu við söfnun á plötum því hann átti líka græjur til að spila hinar ýmsu tegundir af hljómplötum, þannig átti hann a.m.k. þrjár tegundir grammafóna fyrir 78 snúninga plötur (þann elsta frá 1914), venjulega plötuspilara, segulbandstæki og á sjötugs afmæli sínu eignaðist hann svo Edison Amberol hólkaspilara til að spila vaxhólkana.

Um eða eftir aldamótin varð Sigurjón sér úti um afritunargræjur til að afrita efni af 78 snúninga plötunum, bæði til að hlífa plötunum (áður hann hann yfirfært yfir á kassettur) en einnig til að sinna þeim fjölmörgu sem leituðu til hans eftir efni, þannig mun hann hafa átt plötur sem hvorki Ríkisútvarpið né Landsbókasafnið hafði í sínum fórum og einnig mun hann hafa aðstoðað plötuútgefendur um efni þegar þeir leituðu eftir aðstoð hans við endurútgáfur á gömlum lögum. Sigurjón fór svo reyndar alla leið því hann hóf sjálfur að gefa út á eigin vegum eins konar safnplötur í takmörkuðu upplagi (líklega hátt í þrjátíu talsins) með úrvali efnis af 78 snúninga plötunum sem hafði verið ófáanlegt í marga áratugi. Þar má meðal annars finna þrjár safnplötur með lögum Sigurðar Skagfield en núverandi rétthafar útgáfu á söng Sigurðar hafa aldrei gefið plötur með honum svo um er að ræða heilmikinn feng fyrir áhugafólk um söng. Einnig má hér nefna plötur með Jóhanni Jósefssyni harmonikkuleikara frá Ormarslóni, Marz-bræðrum, Ríkarði Jónssyni og Svavari Lárussyni svo nokkur dæmi séu nefnd, nokkrar plötur höfðu blandaða tónlist að geyma og enn aðrar efni með erlendum söngvurum og harmonikkuleikurum s.s. Toralf Tollesen, Gellin & Borgström, Snoddas og Jussi Björling.

Sigurjón á Hrafnabjörgum

Segja má að Sigurjón á Hrafnabjörgum hafi verið eins konar plötusnúður þeirra Djúpmanna því hann sá um árabil (frá því upp úr 1970 og fram á níunda áratuginn) um tónlist á dansleikjum og skemmtunum s.s. brúðkaupum o.fl. í heimabyggð sinni, og stundum jafnvel langt út fyrir hérað en ástæðan var auðvitað fjölbreytilegt og stórt plötusafn hans. Diskótekið mun hafa gengið undir nafninu Grjónótek en ekki liggur fyrir hvort það heiti kom frá honum sjálfum.

Sigurjón bjó heima á Hrafnabjörgum allt til haustsins 2015 en þá brá hann búi – kominn fast að áttræðu, fluttist inn á Ísafjörð og bjó þar til æviloka 2017 en hann átti við nokkurn heilsubrest að stríða síðustu árin. Árið 2019 afhentu synir Sigurjóns tónlistardeild Landsbókasafnsins plötusafn hans (um 7000 plötur og nokkur hundruð geisladiska) og græjur til eignar og fljótlega var sýning opnuð í Þjóðarbókhlöðunni á hluta efnisins en safninu var mikill fengur af þessu plötusafni Sigurjóns eins og hægt er að ímynda sér.