Sigurður Rósi Sigurðsson (1950-)

Sigurður Rósi Sigurðsson

Sigurður Rósi Sigurðsson gítarleikari lék með nokkrum ísfirskum hljómsveitum á áttunda áratugnum áður en hann flutti til Nýja Sjálands en þar hefur hann búið síðan.

Sigurður Rósi fæddist á Ísafirði 1950 og byrjaði að leika á gítar á unglingsárunum, hann lék með ýmsum hljómsveitum þar vestra eins og Náð, Danshljómsveit Vestfjarða, Hljómsveit Ásgeirs Sigurðssonar, Gancia og Ýr en síðast talda sveitin sendi frá sér plötu haustið 1975 þar sem lagið Kanínan vakti mesta athygli, það er þó líkast til þekktast í meðförum Sálarinnar hans Jóns míns.

Sigurður Rósi kynntist stúlku frá Nýja Sjálandi á Ísafirði og svo fór að hann fluttist með henni þangað og hefur búið þar síðan um 1980, lengst af starfaði hann þar við búskap. Hann hefur nokkuð fengist við tónlist þar ytra, leikið með nokkrum hljómsveitum og fengist m.a. við kántrí og gamalt rokk, einnig mun hann eitthvað hafa komið fram sem trúbador – það má einnig nefna að hann tók einhverju sinni þátt í uppfærslu á Hárinu.

Sigurður Rósi hefur stöku sinnum komið heim til Íslands og hefur alltaf haldið tengslum við Ísafjörð, hann var meðal flytjenda á tvöfaldri vestfirskri safnplötu, Music from the west: Vestan #1 sem kom út árið 2015, þar kemur hann fram undir nafninu Rósi Sigurðsson.