Siguróli Geirsson (1950-2001)

Siguróli Geirsson

Nafn Siguróla Geirssonar er óneitanlega mest tengt Suðurnesjunum en þar starfaði hann lengstum við kórstjórn, organistastörf og tónlistarkennslu. Siguróli varð ekki langlífur, hann lést eftir umferðarslys rúmlega fimmtugur að aldri.

Siguróli Geirsson var fæddur í Keflavík 1950 og þar ólst hann upp, hann lærði á píanó og klarinettu við Tónlistarskólann í Keflavík og stundaði svo nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og síðan einnig Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan með tónmennta- og blásarakennarapróf árið 1975. Löngu síðar eða í kringum 1990 fór hann til framhaldsnáms í orgelleik og kórstjórnun í Þýskalandi.

Siguróli lék með Drengjalúðrasveit Barnaskólans í Keflavík sem sett var á stofn í upphafi árs 1961 og þar hófst hinn eiginlegi tónlistarferill, á unglingsárum sínum starfaði hann svo með hljómsveitinni X-mönnum sem líklega var eins konar síðbítlasveit, hér er giskað á að Siguróli hafi verið orgelleikari sveitarinnar.

Hann var svo átján ára gamall þegar hann byrjaði að halda utan um tónlistina í barnastarfi Keflavíkurkirkju, varð þar organisti og stjórnandi Æskulýðskórs Keflavíkurkirkju sem hann hafði líklega sjálfur frumkvæði að stofnun en þeim kór stjórnaði hann í um tvö ár. Einnig kemur fram í heimild að hann hafi stjórnað Barnakór Keflavíkurkirkju en líklegt hlýtur að teljast að um æskulýðskórinn sé að ræða. Um þetta leyti var hann sjálfur farinn að semja tónlist og fyrir kom að hann flutti frumsamin lög á orgel á skemmtunum en hann gegndi á þeim tíma einnig stöðu organista við Strandarkirkju aðeins tvítugur að aldri. Siguróli starfaði jafnframt um tíma með Lúðrasveit Keflavíkur og lék þar líklega á fagott fremur en klarinettu.

Þegar Siguróli var við nám í tónlist í Reykjavík stjórnaði hann um skeið Selkórnum á Seltjarnarnesi, hann kom þá einnig við sögu í leikhúslífinu bæði á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjunum, og var stundum viðloðandi leiksýningar sem tónlistarstjóri, útsetjari eða flytjandi. Siguróli kenndi um tíma tónlist í Hafnarfirði og stjórnaði einnig karlakórnum Þröstum um skeið en ekki liggur fyrir hvenær, það sama má segja um Frímúrarakórinn sem hann annaðist söngstjórn um tíma.

Siguróli Geirsson

Eftir að námi lauk um miðjan áttunda áratuginn hófst svo kennslan, kórstjórnunin og organistastarfið fyrir fulla alvöru. Siguróli gerðist organisti við Njarðvíkurkirkju, kenndi um tíma við Tónlistarskólann í Njarðvík og síðan Tónlistarskólann í Keflavík og varð svo organisti við Keflavíkurkirkju þar sem hann tók við af föður sínum Geir Þórarinssyni 1977 og stjórnaði þá um leið Kór Keflavíkurkirkju. Hann stýrði svo einnig Karlakór Keflavíkur um tíma sem og barnakór einnig og blönduðum kór ungs fólks í bænum, og svo einnig Samkór Grindavíkur, Kór Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS) og Lúðrasveit Keflavíkur. Siguróli kom töluvert sjálfur fram sem hljóðfæraleikari á þessum árum, lék á hin ýmsu hljóðfæri við ýmsar skemmtanir. Í tónlistarkennslunni kenndi hann aðallega á tréblásturshljóðfæri en einnig á píanó, orgel og harmonikku.

Eftir ársleyfi frá störfum í Keflavík (þegar hann fór til framhaldsnáms í Hamborg í Þýskalandi) flutti Siguróli búferlum til nágrannasveitarfélagsins Grindavíkur og réði sig til starfa haustið 1990 sem skólastjóri við Tónlistarskólann í Grindavík, í hans stjórnartíð efldist tónlistarskólinn mjög og stækkaði.

Í Grindavík gegndi hann einnig organistastarfi við Grindavíkurkirkju og varð um leið stjórnandi kórsins við kirkjuna, hann stofnaði þar jafnframt barnakór ásamt Vilborgu Sigurjónsdóttur eiginkonu sinni og stjórnuðu þau kórnum í sameiningu. Í Grindavík stofnaði hann og stjórnaði einnig Blásarasveit Suðurnesja en sú sveit hafði að geyma tónlistafólk af öllum Suðurnesjunum, hann stjórnaði einnig fjölmennum samkór á Suðurnesjunum sem settur var sérstaklega saman til að syngja með Sinfóníuhljómsveit Íslands á M-hátíð á Suðurnesjunum 1992.

En slysin gera ekki boð á undan sér og Siguróla var snarlega kippt úr öllu tónlistarstarfi og daglegu lífi þegar þau hjónin lentu í alvarlegu umferðarslysi rétt fyrir jólin 1998. Hann komst aldrei til meðvitundar eftir það slys og lést síðan á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja haustið 2001. Fráfall Siguróla var öllu tónlistarstarfi á Suðurnesjunum mikið áfall og hans hefur verið minnst með ýmsum hætti, tónleikar voru haldnir í minningu hans við Grindavíkurkirkju vorið 2002 og aðrir minningartónleikar voru svo haldnir í Keflavíkurkirkju vorið 2010 en hann hefði þá orðið sextugur.

Sem fyrr segir samdi Siguróli tónlist (og texta) og eftir hann liggur m.a. lag sem samið var og flutt í tilefni af 40 ára afmæli Keflavíkur, þess má líka geta að lag eftir hann (Fylg þú mér) við sálm Sigurbjörns Einarssonar er að finna í Sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar en það lag hefur verið hljóðritað á plötu.