Afmælisbörn 3. maí 2023

Helga Marteinsdóttir

Fjögur afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Ólafur Helgi Helgason trommuleikari er sextíu og átta ára á þessum degi en hann var áberandi í poppsveitum áttunda áratugar síðustu aldar. Ólafur lék með hljómsveitum á borð við Dögg, Tilfinningu og Kvintett Ólafs Helgasonar sem síðar hlaut nafnið Tívolí.

Helga Marteinsdóttir veitingakona (1893-1979) átti afmæli þennan dag en hún rak skemmtistaði á sínum tíma, réði hljómsveitir og tónlistarmenn til að spila á böllum, og stóð vaktina iðulega klædd peysufötum. Meðal staða sem hún rak voru Vetrargarðurinn í Tívolíinu og Röðull.

Þingeyingurinn Bjarki Árnason harmonikkuleikari, laga- og textahöfundur (1924-84) átti einnig þennan afmælisdag, hann bjó lengst af á Siglufirði, spilaði oft einn á harmonikkuböllum, og einnig með hljómsveitum sínum. Bjarki kom að stofnun hljómsveitarinnar Miðaldamenn um 1970.

Jónas Jónasson útvarpsmaður (1931-2011) hefði aukinheldur átt afmæli á þessum degi, hann er auðvitað kunnastur fyrir framlag sitt til útvarpsins þar sem hann stýrði Kvöldgestum Jónasar Jónassonar, en hann var líka lagahöfundur og samdi m.a. Vor í Vaglaskógi og Hagavagninn. Jónas kom ennfremur að grínþáttunum Úllen dúllen doff, sem margir muna.

Vissir þú að Elly Vilhjálms kom í söngprufu hjá KK-sextettnum í Oddfellow húsinu sumarið 1953 – framhaldið þekkja allir.