Elly Vilhjálms (1935-95)

Elly Vilhjálms1

Elly Vilhjálms

Fáar íslenskar söngkonur teljast hafa komist á það stig að vera kallaðar söngdívur í gegnum tíðina en Elly Vilhjálms er sannarlega ein þeirra. Henni skaut upp á stjörnuhimininn við upphaf sjöunda áratugarins og bar höfuð og herðar yfir aðrar söngkonur næstu árin með túlkun sinni á dægurlögum sem mörg hver hafa með tímanum orðið klassísk, Elly dró sig að mestu í hlé frá sviðsljósinu eftir það en verður alltaf minnst sem eina af þeim bestu. Saga hennar er einnig sveipuð dulúð, fáir þekktu hana að marki og hún varð alla tíð að þola slúður og kjaftagang og erfið einkamál um tíma urðu ekki til að hjálpa henni.

Elly sem hét fullu nafni Henný Eldey Vilhjálmsdóttir, fæddist 1935 í Merkinesi við Hafnir og er eldri systir Vilhjálms Vilhjálmssonar eins og sjálfsagt allir vita. Hún gekk í Héraðsskólann að Laugarvatni og þar hófst í raun söngferill hennar en hún söng þar fyrst opinberlega, einnig gutlaði hún við gítarspil.

Elly hafði ætlað sér að verða leikkona og þegar námi hennar á Laugarvatni lauk skráði hún sig í Leiklistarskóla Ævars Kvaran haustið 1953 en um sumarið hafði hún farið í söngprufu hjá KK-sextett, slíkar prufur voru algengar á þeim árum, þannig fengu efnilegir söngvarar tækifæri til að koma sér á framfæri.
Hún söng nokkrum sinnum með sextettnum og kynntist þar gítarleikaranum Eyþóri Þorlákssyni. Þeim varð vel til vina, reyndar byrjuðu þau saman og giftu sig síðan ári síðar. Þá var Elly hætt í leiklistarskólanum, stundaði skrifstofustörf og söng öðru hverju með KK-sextett og þegar Eyþór hætti í hljómsveitinni 1956 stofnaði hann eigið band, Orion kvintett og byrjaði hún þá að syngja með sveitinni. Um þetta leyti eignuðust þau barn og þegar sveitin fór í spilamennsku, mest um bandarískar herstöðvar í Evrópu og norðanverðri Afríku urðu þau að skilja barnið eftir heima á Íslandi. Í þeirri för, sem og hér heima, hlaut Elly góða dóma fyrir söng sinn.

Elly Vilhjálms og Orion

Elly og Orion

Í ársbyrjun 1958 hætti Orion störfum og ekki löngu síðar voru Elly og Eyþór skilin að skiptum. Um haustið fékk hún hins vegar tilboð um að ganga til liðs við KK-sextett en Sigrún Jónsdóttir söngkona var þá að hætta að syngja með sextettnum. Þarna var komið stóra tækifærið sem Elly nýtti sér til fullnustu, hún söng með sveitinni flest kvöld vikunnar og varð fljótt rómuð fyrir söng sinn og framkomu. Í sveitinni kynntist hún Jóni Páli Bjarnasyni sem nú var gítarleikari og eins og fyrr varð Elly ástfangin. Þau giftu sig sumarið 1961.

Í millitíðinni, sumarið 1960 söng Elly inn á sína fyrstu plötu, sjö árum eftir að hún hóf söngferilinn. Þetta var tveggja laga plata sem innihélt lögin Ég vil fara upp í sveit og Kveðju sendir blærinn, fyrrnefnda lagið sló algjörlega í gegn og er fyrir löngu orðið sígilt, það gerði Ellyju landsfræga enda hlaut lagið nokkurra spilun í útvarpinu. Platan var gefin út af Íslenzkum tónum og var tekin upp í Ríkisútvarpinu af Knúti Skeggjasyni en KK-sextettinn lék undir.

Um haustið hættu þau Jón Páll í sextettnum og gengu til liðs við Hljómsveit Kristjáns Magnússonar, þar voru þau um tíma þar til Jón Páll stofnaði eigin sveit, Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar, Elly eignaðist sitt annað barn 1962 og hóf síðan að syngja með hljómsveitinni eftir barneignafrí. Hún söng jafnfram inn á sína aðra tveggja laga plötu þetta sama ár en hún hét einfaldlega 79 af stöðinni eftir aðallaginu, það hefur reyndar í seinni tíð verið kallað Vegir liggja til allra átta og varð feikivinsælt, eins og hitt lagið á plötunni Lítil fugl. Í þetta sinn voru það hljómsveit Jóns Sigurðssonar sem lék undir í fyrrnefnda laginu en Tríó Jóns Páls í því síðarnefnda, Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur gaf plötuna út.

Lagið Vegir liggja til allra átta var samið sérstaklega fyrir kvikmyndina 79 af stöðinni með Gunnari Eyjólfssyni og Kristbjörgu Kjeld í aðalhlutverkum og hljómaði lagið í upphafi myndarinnar. Höfundurinn, Sigfús Halldórsson var þó aldrei almennilega sáttur við útgáfuna en hann hafði ímyndað sér það fremur í tangóstíl. Þess má þó geta að lagið var kjörið dægurlag aldarinnar á Íslandi í uppgjöri tónlistarmanna 1999, það segir líka mikið um stöðu Ellyjar sem söngkonu. Platan fékk góða dóma í Þjóðviljanum og þokkalega í Vikunni.

Hugur Jóns Páls stóð ekki til rokksins sem nú var að koma sterkt inn þótt hann spilaði rokk með hljómsveit sinni til að svara eftirspurninni. Hann vildi kynnast öðrum tónlistarstraumum, víkka sjóndeildarhringinn og ráðgerði 1964 að fara til Danmerkur, Elly myndi síðan koma á eftir og með barn þeirra.
Um líkt leyti bauð Svavar Gests Ellyju hins vegar að ganga til liðs við hljómsveit sína en hann hafði þá ákveðið að veturinn 1964-65 yrði síðasti veturinn sem sveitin myndi starfa (þar sem hún var húshljómsveit á Hótel Sögu), enda var hann þá búinn að stofna hljómplötuútgáfu sína, SG-hljómplötur. Það varð því úr að Jón Páll fór utan en Elly varð eftir og kaus öryggið hér heima enda með þriggja ára gamalt barn og hafði áður þurft að setja eldra barnið í fóstur hjá foreldrum sínum við svipaðar aðstæður. Þetta reið hjónabandinu að fullu.

1963 endurútgaf Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur lögin tvö sem Elly hafði sungið árið áður ásamt tveimur ósungnum lögum með KK-sextettnum, og ári síðar kom út tveggja laga plata með söngkonunni með lögunum Í grænum mó og Sumarauki, bæði eftir Sigfús Halldórsson. Platan hlaut góða dóma í Morgunblaðinu en þess ber þó að geta að Svavar Gests skrifaði sjálfur þá gagnrýni en hljómsveit hans lék undir á plötunni. Fálkinn gaf út.

Og fleiri plötur með söng Ellyjar komu út þetta ár, 1964. Fjögurra laga plata á vegum Íslenskra tóna sem bar heitið Síldarstúlkurnar, geymdi söng nokkurra söngvara og var Elly einn þeirra. Þetta voru Vestmannaeyjalög og lagið Ég veit þú kemur (þjóðhátíðarlag Vestmannaeyinga 1962) kom í hlut Ellyjar, lagið hefur eins og mörg önnur fylgt henni alla tíð síðan og eru vinsældir þess í gegnum tíðina ekki síst henni að þakka þótt fjölmargir hafi spreytt sig á laginu. Platan var gefin út undir nafni Hljómsveitar Svavars Gests.

KK og Elly

Elly og KK sextett

Áður en árinu 1964 var lokið var enn ein platan komin út en það var fjögurra laga jólaplata þar sem þau Elly og Ragnar Bjarnason sungu saman. Þetta var fyrsta litla platan sem Svavar Gests gaf út undir merkjum SG-hljómplatna og naut hún gríðarlegra vinsælda, var endurútgefin allnokkrum sinnum með þremur mismunandi plötuumslögum. Hljómsveit Svavars lék undir en Magnús Ingimarsson annaðist útsetningar.

Og nú var ekki aftur snúið og þrjár plötur með söng Ellyjar og Ragnars litu dagsins ljós árið 1965 og gerðu þau að einu frægasta söngdúói íslenskrar tónlistarsögu. Tvær fyrstu plöturnar höfðu að geyma alls átta lög og þar var meðal annars að finna lagið Sveitin milli sanda sem heyrðist í samnefndri kvikmynd Ósvaldar Knudsen og naut mikilla vinsælda, reyndar eins og flest hin laganna en þar á meðal voru lögin Heyr mína bæn sem hafði þá nýverið sigrað Eurovision söngvakeppnina (og var snarað yfir á íslensku af Ólafi Gauki Þórhallssyni) og Brúðkaupið, sem aftur var gefið út á stórri plötu með Ellyju en þá var búið að bæta við strengjum í lagið. Magnús Ingimarsson annaðist útsetningar, hljómsveit Svavars sá um undirleik en Pétur Steingrímsson hjá útvarpinu um upptökurnar sem fyrr.

Þriðja platan hafði að geyma tónlistina úr söngleiknum Járnhausinn eftir þá bræður Jónas og Jón Múla Árnasyni, á þeirri plötu sungu þau saman, Elly, Ragnar og Ómar Ragnarsson. Varla þarf að taka fram að þessi plata styrkti vinsældir þeirra sem voru þó ærnar fyrir. Einnig söng hún 1965 ásamt Ragnari inn á plötu Fjórtán fóstbræðra, sem naut gríðarlegrar hylli.

Elly var þarna orðin vinsælasta og virtasta dægurlagasöngkona landsins og var hún eftirsótt á hvers konar samkomum auk þess sem hún söng margsinnis í útvarpinu. Hljómsveit Svavars Gests hafði leikið undir á öllum þessum plötum en sem fyrr segir var ráðgert að sveitin myndi hætta störfum sem og hún gerði haustið 1965 enda hafði Svavar ætlað að einbeita sér að plötuútgáfunni, en hann hafði gefið út síðustu fjórar plötur Ellyjar.

Öllum að óvörum giftu Elly og Svavar sig sumarið 1966, þau fengu í kjölfarið að kenna á alls konar kjaftasögum og slúðri enda hafði nokkuð gengið á í aðdragandanum.

Í raun og veru hófst nýr kafli í lífi þeirra beggja um það leyti, fyrir utan ráðahaginn auðvitað. Svavar hafði lagt hljómsveitina á hilluna og Elly ákvað að hætta að syngja opinberlega, sjálfsagt hefur umtalið átt sinn þátt í því. Hún söng því ekki opinberlega í mörg ár eftir þetta nema með örfáum undantekningum.
Elly var þó síður en svo hætt að syngja inn á plötur og sumarið 1966 fór hún til Lundúna og söng inn á tólf laga plötu við undirleik hljómsveitar Vic Ash sem var nokkuð þekkt innan djassgeirans, Vic Ash hafði einmitt komið til Íslands með hljómsveit sína 1953. Tony Russell sá um útsetningar. Á plötunni var að finna lög sem hún valdi sjálf og voru úr söngleikjum og kvikmyndum. Platan sem hlaut titilinn Lög úr söngleikjum og kvikmyndum var fyrsta stóra plata Ellyjar og um leið fyrsta íslenska hljómplatan með fullkominni stereo upptöku. Platan hlaut ágætar viðtökur en seldist ekki sérlega vel, þó nógu vel til að verða endurútgefin 1979 og aftur á geislaplötu 2006. Þetta sama ár (1966) söng Elly tvö lög sem komu út á safnplötunni Úrslitalögin í Danslagakeppni Ríkisútvarpsins.

Elly hafði hægt um sig að sinni í útgáfu platna en 1968 birtist þó fjögurra laga endurútgáfa á nokkrum vinsælum lögum sem hún hafði áður sent frá sér, ári síðar kom síðan út tveggja laga plata með lögunum Heilsaðu frá mér og Hugsaðu heim, hún hlaut þokkalega dóma.

1969 rættist gamall draumur hennar og Vilhjálms bróður hennar um að syngja saman á plötu en Vilhjálmur hafði þá um árabil verið einn vinsælasti og ástsælasti söngvari þjóðarinnar, og Svavar gefið út nokkrar plötur með honum þar sem hann söng með hljómsveitum Ingimars Eydal og Magnúsar Ingimarssonar, litlar plötur með þeim systkinum voru reyndar tvær söluhæstu plötur sem komið höfðu út á þessum tímapunkti þannig að beinast lá við að sameina þessa krafta.

Platan, Systkinin Vilhjálmur og Elly syngja saman, kom út snemma vors 1969 og fékk góða dóma í Morgunblaðinu og Vikunni, auk þess að verða í þriðja sæti yfir „vönduðustu plöturnar“ samkvæmt fjölmiðakönnun á þeim tíma. Til eru þrenns konar útgáfur af umslagi plötunnar, tvær með sömu svarthvítu myndinni en annars vegar með ljósgrænum lit og hins vegar ljósgulbrúnum lit, í þriðja lagi er til grænt umslag með litmynd af þeim systkinum.

Platan seldist nógu vel (hefur í dag selst í um sjö þúsund eintökum) til að ákveðið var að gefa út meira efni með þeim systkinum. Vilhjálmur hafði að vísu þá verið búinn að ákveða að taka sér frí frá söngnum og því var drifið með þeim systkinum strax í málið. Teknar voru upp tvær plötur, annars vegar með lögum eftir Sigfús Halldórsson sem var fimmtugur um þetta leyti, hins vegar með lögum 12. september, sem var dulnefni Freymóðs Jóhannssonar en hann fagnaði sjötíu og fimm ára afmæli á þessum tímapunkti.

Fyrri platan, lög Sigfúsar kom út fyrir jólin 1969, nokkur laganna höfðu komið út áður með Ellyju en voru nú í nýjum útsetningum, svosem Í grænum mó, Vegir liggja til allra átta og Lítill fugl. Eins og reiknað hafði verið með seldist platan vel og fékk aukinheldur góða dóma í Vikunni og jafnvel enn betri í Vísi og Morgunblaðinu. Ekki leið á löngu áður en hin platan, sú með lögum Freymóðs Jóhannssonar (12. september) kom út, henni var ágætlega tekið en mönnum þótti þó ansi skammt á milli útgáfanna, þannig höfðu komið út þrjár stórar plötur með þeim systkinum á aðeins tuttugu mánaða tímabili. Hún hlaut mjög góða dóma í Vikunni en þokkalega í Morgunblaðinu.

Og enn var keyrt á vinsældir systkinanna þótt ár liði þar til fjórða platan leit dagsins ljós, sú hafði að geyma jólalög og hét einfaldlega Vilhjálmur og Elly Vilhjálms syngja jólalög. Plöturnar þrjár, með Sigfúsi, Freysteini og svo jólaplatan voru undir umsjá Jóns Sigurðssonar, sem stýrði hljómsveit og útsetti ennfremur tónlistina. Platan hefur notið fádæma vinsælda í gegnum tíðina og er löngu orðin sígild, hún hefur eins og reyndar hinar plöturnar verið endurútgefin nokkrum sinnum, einnig á geislaplötum. Rétt er að geta að tveggja laga plata með lögum úr Eurovision keppninni 1970 kom út á undan jólaplötunni en þar voru hröð handtök höfð, sagan segir að platan hafi verið gefin út örfáum vikum eftir keppnina.

Elly Vilhjálms2

Elly 1970

Elly dró sig nokkuð í hlé eftir þessa miklu plötutörn með bróður sínum enda næg verkefnin í plötuútgáfu Svavars. Lítið bar á henni en hún birtist öllum á óvörum í sjónvarpsþættinum Ugla sat á kvisti og söng lag með Ragnari Bjarnasyni en þátturinn var helgaður Kristjáni Kristjánssyni og KK-sextett, Elly hafði þá ekki sungið á sviði síðan 1966.

Það var svo ekki fyrr en haustið 1978 sem aftur kom út plata með Ellyju þar sem hún söng lög Jenna Jóns ásamt Einari Júlíussyni, í útsetningum Þóris Baldurssonar. Ósætti hafði orðið milli máganna, Svavars og Vilhjálms eftir jólaplötuna og því varð Einar fyrir valinu. Lögin voru mörg hver komin nokkuð til ára sinna en fimm þeirra höfðu unnið til verðlauna í danslagakeppnum útvarpsins og SKT á árunum 1953 –66. Platan var tekin upp í Þýskalandi þar sem Þórir starfaði þá en söngnum var bætt inn hér heima. Platan hlaut ágætis dóma í Morgunblaðinu og seldist þokkalega. Platan var endurútgefin 1994.
Safnplatan Heyr mína bæn kom út áf vegum SG-hljómplatna 1981 og vakti nokkra athygli, þá hafði lítt spurst til söngkonunnar um tíma og því var þessi útgáfa aðdáendum hennar kærkomin, á plötunni var að finna eitt áður óútgefið lag. Þremur árum síðar kom svo út tvöföld plata Gullárin, sem hafði að geyma upptökur frá æfingum KK-sextettsins, á þeirri plötu söng Elly ein sex lög.

Elly kom úr sinni sjálfskipuðu útlegð frá sviðsljósinu um miðjan níunda áratuginn þegar hún hóf að syngja með Andra Bachmann og hljómsveit hans á Hótel Sögu og þar með var boltinn farinn að rúlla á nýjan leik. 1987 fékk Björgvin Halldórsson Ellyju til að vera einn af gestum hans á plötunni Jólagestir, sem var þá fyrsta platan í þeirri jólaplöturöð Björgvins. Elly söng þar eitt lag en hún hafði þá ekki sungið í hljóðveri síðan 1978. Ári síðar fór Ólafur Laufdal af stað með söngskemmtunina Gullárin með KK og þar kom Elly fram og söng, sem og á svipaðri sýningu á Hótel Sögu nokkrum mánuðum síðar. En endurnýjuðum kynnum hennar af sviðsljósinu var þó ekki lokið þetta árið því að um haustið 1988 birtist Elly með jólaplötuna Jólafrí. Skífan gaf plötuna út og hún hlaut fína dóma. Ári síðar tók Elly svo þátt í þriðju sýningunni sem hlaut nafnið Dægurlagahátíðin Komdu í kvöld, sem var til heiður Jóni Sigurðssyni „í bankanum“.

Á síðari árum hafði Elly nýtt tímann ágætlega utan sviðsljóssins og hafði lokið stúdentsprófi þrátt fyrir að vera í fullri vinnu, hún starfaði um tíma við blaðaskrif fyrir Morgunblaðið og gerðist dagskrárgerðarmaður á Rás 2 á tíunda áratugnum, hún starfaði einnig um tíma fyrir Lions-hreyfinguna ásamt Svavari eiginmanni síðum. Elly hafði alltaf átt fremur auðvelt með að skrifa texta og náði meira að segja að semja dægurlagatexta sem hún söng með hljómsveitinni Pís of keik 1993 en sonur hennar og Svavars, Máni var einmitt í þeirri sveit.

Eftir þessa endurnýjun lífdaga með André Bachmann og á söngskemmtununum hóf hún að syngja ásamt Ragnari Bjarnasyni í Danshúsinu í Glæsibæ, í kjölfarið á sýningu tengdri söngferli Vilhjálms bróður hennar (sem hafði látist í bílslysi í Luxemborg 1978) var hún orðin veik af krabbameininu sem síðan dró hana til dauða. Hún hafði áður sigrast á sams konar meini en í þetta skiptið varð hún að láta undan. Síðustu söngupptökurnar með henni voru gerðar þegar hún var orðin fárveik, og komu út á plötu Stórsveitar Reykjavíkur sem var samnefnd sveitinni, og kom út síðar þetta ár 1995 um líkt leyti og hún féll frá.

Fjölmargar safnplötur helgaðar Ellyju Vilhjálms hafa komið út, þegar eru nokkrar upp taldar hér að framan en einnig má nefna safnplöturnar Lítill fugl (1994), Bergmál hins liðna (1997) sem hafði að geyma söng systkinanna, tvöföldu safnplötuna Allt mitt líf: Úrval dægursöngva frá árunum ‘60 – ‘95 (2004) og þreföldu safnplötuna Heyr mína bæn (2010) og tvöföldu safnplötuna Minningar: 40 vinsælustu lögin (2015). Einnig hafa mörg stök lög með Ellyju (og Vilhjálmi) komið út á ótal öðrum safnplötum en hér eru einungis nefndar nokkrar af handahófi; Aftur til fortíðar –serían (1990), Á hátíðarvegum (2000), Endurminningar (1992), Óskalögin 2 (1998), Gleðileg jól (1970), Á sjó: fjórtán sjómannalög (1971), Bíólögin (1993), Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 (1977), Þrjátíu vinsælustu söngvararnir 1950-75 (1978), Alltaf á jólum (1993), Á rás um landið (1993) og Bítlabærinn Keflavík (1998). Enn eru ótaldar plötur sem Elly ljáði rödd sína hjá öðrum listamönnum en þær voru nokkrar, einkum á sjöunda áratugnum og síðast en ekki síst ber að nefna söng hennar á tveimum plötum Ríkisútvarpsins, Útvarpsperlum sem helgaðar voru Hljómsveit Svavars Gests (2002).

Það er því ljóst að Elly Vilhjálms var ekki nein venjuleg söngkona, fjöldi safnplatnanna ber þess ágætt vitni, hún söng auk þess sjálf inn á þriðja tug platna, litlar og stórar, ein og með öðrum. Minningu hennar hefur verið haldið á lofti með ýmsum hætti, sbr. safnplöturnar en Guðrún Gunnarsdóttir hefur einnig verið öflug í þeim málum, hún gaf til að mynda út plötuna Óður til Ellyjar árið 2003 og 2012 kom út bókin Elly – Ævisaga Ellyjar Vilhjálms, skráð af Margréti Blöndal. Í tilefni af því var blásið til minningartónleika um söngkonuna í tónlistarhúsinu Hörpu, þangað var mættur rjóminn af þekktustu söngvurum landsins sem glöddu áhorfendur með söng sínum. Herlegheitin voru að sjálfsögðu gefin út á plötu, tvöfaldri plötu sem innihélt geislaplötu og dvd efni. 2003 var Elly kjörin besti dægurlagasöngvari sem Ísland hefur alið, af nokkrum poppskríbentum sem leiddu saman hesta sína í Fréttablaðinu.

Vorið 2017 var sett á svið í Borgarleikhúsinu leiksýningin Elly sem byggð var á ævi hennar og var hún sýnd við miklar vinsældir en leikkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir fór þar með hlutverk söngkonunnar. Plata með tónlistinni úr leiksýningunni kom út af því tilefni, hún seldist mjög vel enda höfðu um sextíu þúsund manns séð leikritið þegar það hafði verið um ár í sýningu.

Efni á plötum