Elín Matthíasdóttir (1883-1918)

Elín Laxdal

Elín Matthíasdóttir söngkona (f. 1883) var dóttir Matthíasar Jochumssonar skálds og systir Herdísar Matthíasdóttur sem einnig þótti góð söngkona.

Elín fór til söngnáms í Kaupmannahöfn fyrir styrk danska konungsins og kom heim til Íslands líklega 1905. Hún söng oft opinberlega og þótti afar næm á túlkun þeirra ljóða sem hún söng en einnig var hún talin vera efnileg leikkona þótt ekki væri hún menntuð í þeim fræðum.

Við heimsókn Friðriks VIII Danakonungs til Íslands var settur saman blandaður kór sem flutti kantötu sem Sveinbjörn Sveinbjörnsson hafi samið sérstaklega, söng Elín einsöng við það tækifæri.

1912 giftist hún Jóni Laxdal tónskáldi (var önnur eiginkona hans) og eftir það fór minna fyrir henni á söngsviðinu, þess í stað var hún framarlega í kvenréttindabaráttu þess tíma og var einn af stofnendum kvenfélagsins Hringsins.

Þær systur Elín og Herdís létust með aðeins nokkurra daga millibili haustið 1918 mitt í miðri spænsku veikinni sem kölluð var. Elín hafði samið eitthvað af smálögum og nokkru eftir andlát hennar kom út lítið kver með barnalögum þar sem finna mátti efni eftir hana, Jón eiginmann hennar og nokkra aðra.