Bjarki Árnason (1924-84)

Bjarki Árnason ásamt eiginkonu sinni

Bjarki Árnason var kunnur harmonikkuleikari, laga- og textahöfundum og flestir þekkja lagið Sem lindin tær sem hann samdi ljóðið við.

Bjarki fæddist á Stóru Reykjum í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjasýslu 1924 og ólst upp á Litlu Reykjum í sömu sveit. Hann kynntist ungur tónlist á æskuheimili sínu en naut aldrei formlegrar tónlistarmenntunar. Fyrsta hljóðfærið sem hann spilaði á var munnharpa og hann mun hafa leikið fyrir dansi á hana en Bjarki hóf ungur að leika á böllum. Síðar kom orgel á heimili hans og hann æfði sig tíðum á það sem og harmonikku sem síðar varð aðalhljóðfærið hans.

Bjarki fluttist árið 1943 til Siglufjarðar þar sem hann átti eftir að lifa og starfa síðan, hann nam húsasmíði og varð síðar meistari í greininni, og starfaði lengi við smíðar en síðan festi hann kaup á byggingavöruverslun sem hann rak fyrst í félagi við annan en síðan einn.

Það var ekki fyrr en á Siglufjarðar-árunum sem Bjarki hóf að leika með hljómsveitum einnig en fram að því hafði hann einungis leikið einn fyrir dansi. Hann var einn af stofnendum hljómsveitarinnar Miðaldamanna og lék einnig síðari ár með hljómsveitinni Öldinni okkar, auk þess lék hann með ýmsum ónefndum sveitum og söng með Karlakórnum Vísi á Siglufirði. Í blaðaviðtali í Morgunblaðinu sagðist hann hafa leikið á um tvö þúsund dansleikjum á um fjörutíu ára skeiði, og allt upp í tuttugu og átta sinnum í mánuði á síldarárunum.

Bjarki var þó líklega kunnastur fyrir laga- og textasmíðar sínar en mörg þeirra hafa orðið þekkt. Þeirra á meðal má nefna textann við Sem lindin tær sem fjölmargir hafa spreytt sig á og gefið út í gegnum tíðina, Okkar glaða söngvamál, Siglufjörður, Dísir vorsins, Hólssveinabragur og Kysstu mig eru einnig dæmi um lög og texta eftir Bjarka.

Árið 1976 sendu þeir Bjarki, Jóhann Jósefsson frá Ormarslóni og Garðar Olgeirsson harmonikkuleikarar frá sér plötuna Harmonikan hljómar, og átti Bjarki þrjú laganna á þeirri plötu. Þess má ennfremur geta að þegar Miðaldamenn gáfu út plötu samnefnda sveitinni árið 2007 tileinkuðu þeir félagar plötuna minningu Bjarka en allir textar plötunnar og nokkur lög voru eftir hann.

Bjarki lést árið 1984 eftir skammvinn veikindi en hann hafði þá ekki náð sextíu ára aldri.

Efni á plötum