Sigfús Einarsson (1877-1939)

Sigfús Einarsson

Sigfús Einarsson telst vera eitt af stóru nöfnunum í íslenskri tónlistarsögu en segja má að hann hafi verið uppi á hárréttum tíma við upphaf tuttugustu aldarinnar með sitt frumkvöðlastarf sem söngkennari, kórstjórnandi, tónskáld, hljómsveitastjóri og margt annað.

Sigús Einarsson fæddist á Skúmsstöðum á Eyrarbakka, var kaupmannssonur og ólst upp við tónlist á æskuheimilis sínu. Hann byrjaði snemma að syngja og tólf ára gamall var hann farinn að syngja með söngfélaginu Bárunni sem þar var þá starfrækt en líklega var þar á ferð fyrsti blandaði kór landsins. Sigfús átti svo sem ekki langt að sækja tónlistarhæfileika sína og -áhuga því Ísólfur Pálsson organisti og tónskáld var náfrændi hans.

Fimmtán ára fór Sigfús til Reykjavíkur, nam við Latínuskólann og lauk þar stúdentsprófi, hann söng á námsárum sínum með Söngfélaginu 14. janúar en einnig með kór skólapilta sem hann stofnaði sjálfur og stjórnaði. Að stúdentsprófi loknu fór Sigfús til Kaupmannahafnar til náms í lögfræði en svo fór að hann hætti í lögfræðinni, lauk reyndar heimspekiprófi en sneri sér að tónlistinni sem upp frá því varð hans aðal- og ævistarf. Hann þótti sjálfur hafa prýðilega baritón söngrödd, nam söng og tónfræði og samhliða námi sínu stjórnaði hann kór stúdenta við góðan orðstír, kynnti sér þá íslensk þjóðlög sem hann síðar raddsetti og varð þekktur fyrir, s.s. Ólafur reið með björgum fram, Hrafninn flýgur um aftaninn og Bára blá.

Sigfús kynntist verðandi eiginkonu sinni, dönsku söngkonunni og píanóleikaranum Valborg Hellemann (síðar Valborg Einarsson) í Kaupmannahöfn og þau fluttust sumarið 1906 til Íslands og áttu eftir að setja svip sinn á reykvískt og íslenskt tónlistarlíf. Í fyrstu fékkst hann einvörðungu við söng- og tónlistarkennslu, kenndi m.a. söng í nokkrum skólum og stjórnaði Karlakór Ungmennafélags Reykjavík og blönduðum kór sem líkast til var nafnlaus. Það var svo árið 1911 sem hann hóf að stjórna Söngfélaginu 17. júní en sá kór var starfræktur til 1919 undir stjórn Sigfúsar.

Um þetta leyti varð hlutverk Sigfúsar sífellt stærra á þessum fyrstu árum skipulags kórsöngs og hljómsveitaleiks hér á landi, hann varð árið 1913 organisti Dómkirkjunnar og stjórnandi Dómkirkjukórsins og sinnti þeim störfum til æviloka, árið 1921 var hann einn af hvatamönnum og stofnendum Hljómsveitar Reykjavíkur sem hann stjórnaði í blábyrjun og síðar til 1928. Og árið 1928 var Sigfús einmitt skipaður söngmálastjóri í tilefni af Alþingishátíðinni sem stóð fyrir dyrum 1930 og á þeirri hátíð stjórnaði hann Þingvallakórnum svokallaða sem hafði verið stofnaður í tengslum við hátíðina en um var að ræða kór settur saman úr nokkrum kórum og var lengi stærsti kór sem sungið hafði á Íslandi. Þá er enn ónefnt Söngfélagið Heimir sem hann stjórnaði á fjórða áratugnum.

Sigfús kominn á eldri ár

Sigfús kom að öðrum hliðum tónlistarinnar og var þar stórtækur sem annars staðar, hann gaf út kennsluefni í tónlist, stóð ásamt Halldóri Jónassyni að baki útgáfu á bókinni Íslenzkt söngvasafn sem hefur margoft verið endurútgefin, gaf út Söngmálablaðið Heimi um þriggja ára skeið og ritaði um tónlist í Morgunblaðið.

Sigfús er þó e.t.v. í dag einna þekktastur sem tónskáld og brautryðjandi sem slíkur hér á landi, ekki aðeins gæddi hann gömlu þjóðlögunum nýja rödd með raddsetningum sínum heldur samdi hann einnig ógrynni tónverka og af öllu tagi, þar má nefna sönglög, bæði einsöngs- og kórsöngslög, orgelverk, strengjaverk, kórverk, kantötur og kirkjuleg verk, og meðal þekktra sönglaga hans má nefna Gígjuna, Draumalandið, Augun bláu, Á Sprengisandi, Sofnar lóa og Sjá hin ungborna tíð. Mörg laga Sigfúsar hafa verið margoft gefin út á plötum og sungin á tónleikum allt til okkar daga, aldrei hefur þó komið út plata sem eingöngu er helguð tónlist hans.

Sigfús var sem fyrr er nefnt giftur Valborgu Einarsson og áttu þau tvö börn sem bæði urðu þekkt tónlistarfólk, Elsa Sigfúss sem söngkona sem söng inn á ógrynni platna og Einar fiðluleikari. Sigfús lést vorið 1939 aðeins sextíu og tveggja ára gamall og fljótlega fluttist Valborg heim til Danmerkur en allir afkomendur þeirra hjóna búa erlendis.

Efni á plötum